Af virðingu við land og þjóð

Lesandi góður,

í öllu því ölduróti sem hefur yfir okkur gengið undanfarna vikur,mánuði - og ár ef við lítum aftur fyrir "hrunið" 2008 - er erfitt að finna eitthvað sem hefur verið "í lagi" allan þann tíma. Stöðugleiki og traust þjóðfélagsmynd hefur vikið fyrir gjaldþrotum og íbúðamissi hinnar venjulegu fjölskyldu. Öryggi og hamingja hefur vikið fyrir fátækt, atvinnuleysi, fólksflótta, hruni heilbrigðiskerfisins, vaxandi misskiptingu auðs og margskonar "bankaránum".

Það er sárara en tárum taki að við, þessi 300 þús. manna hópur sem fær nær ókeypis hita, rafmagn, vatn og gnægð matvæla úr sjó og landi hafi ekki efni á að hlú að fátækum, öldruðum og sjúkum, menntakerfinu og löggæslunni svo fátt eitt sé nefnt. Á sama tíma komast bankar upp með okur, ofurlauna fólk fær 20 - 30x mánaðarlaun þeirra sem vinna hörðum höndum að ekki sé minnst á stjórnendur hjá ríkinu og víðar sem m.a. fá ómældar starfslokagreiðslur - sem oft er svo farið með sem leyndarmál. Það er ekki furða að fréttir fjalla í vaxandi mæli um alvarlega fátækt m.a. barnmargra heimila.

Hneykslin, eins og þessi neikvæða stjórnun og sóun, fylla lista sem enginn sér fyrir endann á. Menn, oft í trúnaðarstöðum, hafa árum saman verið að blóðmjólka landið og þjóðina sem á það.


Þetta var listi minn yfir brýn verkefni þegar ég bauð mig fram árið 2004 - það sem mér fannst kraftar embættisins gætu nýst við að vinna okkur frá. Því miður hefur lítið, ef nokkuð hefur breyst til batnaðar síðan þá. Frekar hefur alvarlegum vandamálunum fjölgað ss.  sjálfsvígum, landflótta, fátækt og ofbeldisglæpum. Skortur er á geðhjálp.

 


 

 

Kæri landi minn og landsmaður,

Þakka þér fyrir að heimsækja landsmenn.is og leyfa mér að kynna þér skoðanir mínar og metnaðarfullar óskir fyrir land okkar og þjóð.

Fyrst ætti ég að segja þér að vefsíðuna stofnaði ég fyrir meira en tíu árum. Hún er einkaframtak mitt, ekki rekin af, eða háð nokkrum, stjórnmálaöflum, hagsmunasamtökum eða einstaklingum.

Henni er ætlað að birta greinar um þjóðfélagsmál. hugmyndir að betra þjóðfélagi og sambúð okkar við landið okkar, Ísland.

Og nú bið ég um traust þitt og atkvæði í komandi forsetakosningum.

Þar sem ég byrjaði að skrifa greinar í dagblöð fyrir alllöngu má þar einnig finna greinar frá því síðan fyrir síðustu aldamót. Sjálfur hef ég skrifað flestar þeirra en inn á milli eru greinar eftir aðra höfunda, þjóðholla penna sem ég finn samhljóm með í leit minni að Íslandinu góða. Allt þetta fólk er að sjálfsögðu kynnt með mynd, nafni og stundum sagt frá starfsgrein þess og starfsævi.

Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra allra fyrir að hafa leyft mér að birta skrif sín og deila með mér framtíðarvonum fyrir land og þjóð. 

Þig, lesandi góður, bið ég um traust þitt, atkvæði og umboð til að glíma úr forsetastóli við þá púka sem á listanum eru, svo og sölumönnum dauðans sem fer sífjölgandi í landinu okkar.

Eg hvet þig til að lesa greinar mínar og annarra  hér á vefsetrinu til að fullvissa þig um að við séum samstíga í þjóðmálunum. ef þú vilt skrifa mér eða senda tölvupóst er það sjálfsagt, sömuleiðis að hringja til mín ef þú ert með spurningu eða liggur eitthvað á hjarta. netfang og númer birtist þegar þú ýtir á flipann á forsíðunni sem er merktur: Hafa samband

 


Ég hef gegnum ævina fengið starfsreynslu á mörgum sviðum. Það er fjársjóður. Ég hef unnið til sjávar og sveita, verið vinnuveitandi og launþegi. Ég hef stofnað og rekið eigið fyrirtæki og verið opinber starfsmaður í ábyrgðarstöðu. Allt gefur þetta dýrmæta reynslu á forsetastóli. 

Á mínum yngri árum gekk ég að störfum mínum og velti stjórnmálum ekki mikið fyrir mér. Þar sem ég setti upp öryggiskerfi í einhverjum banka eða heimili eða stóð mína vakt í flugturninum á Reykjavíkurflugvelli, aðskildi flugvélar og gaf heimildir og fyrirmæli var ég þess fullviss að fólkið sem stjórnaði landinu okkar vandaði sig ekki minna en ég við mín störf. Með aldri og starfsreynslu, t.d. góðri innsýn í viðskipti og öryggismál við rekstur míns eigin fyrirtækis, hlaut þessi skoðun mín að smá láta undan. Ég vil ekki alhæfa en ég sá ekki betur en sumir stjórnmálamenn hefðu annaðhvort ekki grunnþekkingu á viðskiptum eða beinlínis hygluðu vinum sínum og kjósendum. Opinberir starfsmenn voru ráðnir án auglýsinga og fóru síðar úr starfi með "feitan starfslokasamning" upp á vasann. Svo "feitan" að hann var leyndarmál. Þessu stjórnuðu starfsmenn þjóðarinnar og leyndu svo innihaldi samningsins fyrir þjóðinni sem síðan borgaði samninginn - og auðvitað laun mannsins sem annaðist "afgreiðsluna". 

Hver sá sem rekið hefur einhverskonar fyrirtæki sér að þetta gengur ekki upp. Ef þú lætur peningana þína í vasa með stóru gati, þá veistu hvernig fer. 

Fyrirtæki er ekki bara matvöruverksmiðja, trésmiðja, skipasmíðastöð, lyfjaverslun eða bújörð. Hvert heimili er nokkurskonar fyrirtæki. Tekjur og gjöld verða að vera í jafnvægi - og það er oft ekki auðvelt. Þegar aukaútgjöld eða atvinnuleysi verður um megn getur svo farið að skuldirnar verði um megn og svo farið að "verkamannsins kofi" sé ekki lengur heimili hans og "börnin fái mat, en foreldrarnir svelti". Meiri líkur en minni hafa hinsvegar verið á því að matvöruverksmiðjan fái sínar skuldir felldar niður.

Lítum yfir Ísland og spyrjum okkur: Er þetta ekki hróplegt ranglæti.

Ég veit vel að þessi mál - og mörg af svipuðum toga spunnin - heyra undir stjórnmál. Forseti Íslands leysir þau ekki. Vald forsetans til að leysa vandamál daglegs lífs eru nær engin enda ríkir hér þingræði. 

Hlutverki forseta Íslands er gefinn rammi í stjórnarskrá lýðveldisins. Hann hefur hlutverki að gegna við stjórnarmyndanir, hann samþykkir lög, hann getur lagt lagafrumvörp fyrir alþingi, hann getur náðað menn og heldur samböndum við erlenda þjóðhöfðingja. Fleiri mál geta og komið inn á hans borð.

Forsetinn gerir einna mest gagn með því að vera sameiningartákn þjóðarinnar. Þegar stormar geysa í þjóðarsálinni, stjórnmálamenn berast á banaspjótum, þegar fátækt hefur sorfið inn að beini eða atvinnuleysi virðist óyfirstíganlegt þá getur réttur forseti friðað menn og sætt. Hann ber klæði á vopnin. Góður forseti gerir ekki upp á milli manna - góður forseti er okkar allra - stoð, stytta og vonarviti.

Ég nefndi hlutverk forseta hér að ofan og að hann væri valdalítill. Við það vil ég þó bæta að hann getur haft áhrif gegnum tengsl sín við stjórnmálamenn, embættismannakerfið og erlenda þjóðhöfðingja.

Þegar ég fór fram árið 2004 lagði ég fram lista yfir málefni sem ég hugðist skipta mér af, hafa áhrif til góðs. Ég vil leggja hann fram aftur nú því enn er margt ógert. Málefni sem snúa að verkefnum sem geta sameinað þjóðina á jákvæðan hátt. Þannig náum við Íslendingar lengst og þannig erum við sterkastir sem ein þjóð, sjálfstæð, samhuga og umhyggjusöm. Við getum það - við höfum gert það áður.