Forsetakosningar 2004 eru afstaðnar. Margt gerir þessar kosningar sérstakar í sögu lýðveldisins. Ber þar hæst þann fjölda kjósenda sem ekki kusu, annaðhvort með því að skila auðu eða með því að sitja heima. Umræða um hinar eiginlegu forsetakosningar féll í skuggann af synjun fjölmiðlalaganna og viðbrögðum ráðamanna. Úrslit kosninganna hafa verið túlkuð á ýmsan veg og verður það ekki gert frekar hér. Ólafur Ragnar Grímsson vann þessar kosningar og óska ég honum til hamingju með það.

 

Í Reykjavík og á ferðum mínum um landið fann ég löngun fólks til að breyta til. Ánægju með að ég skildi hafa stigið fram og sagt: “Nú er nóg komið”. Persónulega sótti ég styrk í viðbrögð og hlýhug margra sem ég hitti á ferðum mínum; þétt handtök og bros sem ég fékk um allt land með óskum um velgengni, skoðunarferð um Vestmannaeyjar sem ég fékk ekki að greiða fyrir, bol með íslenska skjaldarmerkinu sem mér var gefinn á Akureyri, fingurkoss ungrar stúlku í Reykjavík - þakka þér fyrir, þakka ykkur öllum fyrir. Ótal tölvuskeyti og hvetjandi símtöl fékk ég líka. Allt var þetta “ókunnugt” fólk sem ég fann að vildi Íslandi vel og stóð með mér - með okkur. Fólk sem vildi jákvæðar breytingar, öllum til hagsbóta. Ég segi þér þetta svo að þú vitir að við erum ekki ein heldur eigum hljómgrunn hjá fjölda fólks.

 

Sjálfur er ég stoltur og hrærður þegar ég hugsa til þess að 13.250 karlar og konur fóru á kjörstað til að staðfesta þann vilja sinn að ég yrði forsetinn þeirra. Þið sýnduð mér traust sem ég þakka fyrir af öllu hjarta. Þið eruð ástæða mín til að stinga niður penna í dag. Fæst ykkar þekki ég, en öll vitum við að við eigum samleið. Við eigum sama drauminn.

 

Þegar ég steig fram og sóttist eftir kjöri var mér efst í huga að endurreisa virðingu forsetaembættisins og að nýta sambönd þess og áhrif til góðs í landinu. Auk hefðbundinna skyldustarfa forseta innan lands og utan, vildi ég styrkja þá og styðja sem vinna að málum sem snerta okkur öll. Hér hafði ég, meðal annars, í huga aðbúnað aldraðra, fíkniefnavandann, vaxandi glæpatíðni, skuldasöfnun ungmenna og fátæktina sem er að læða sér inn í þjóðfélagið. Allt hefði þetta að sjálfsögðu verið unnið innan þess ramma sem forseta er settur og í góðu samstarfi við hlutaðeigandi yfirvöld. Ég taldi mig búa yfir þekkingu og lífsreynslu sem kæmi að góðum notum í embættinu. Ég lagði mikla áherslu á að forseti ætti ekki að koma úr röðum stjórnmálamanna, með fullri virðingu fyrir þeim. Forseti ætti að vera maður allrar þjóðarinnar, ekki fulltrúi einhvers stjórnmálaflokks eða fjármálaafls.

 

Þetta er okkar þjóðfélag.

Atburðir fyrir og eftir kosningar, atburðir sem ekki sér fyrir endann á, hafa styrkt þessa sannfæringu mína. Á Bessastöðum á ekki að sitja stjórnmálamaður - sama hvað hann heitir og úr hvaða flokki hann kemur.

En því ræður þjóðin - við sjálf. Við berum hina endanlegu ábyrgð. Sem meðlimir þjóðfélagsins þurfum við hvert og eitt að taka okkur tíma til að skoða valkosti, gera okkur ljóst hvað við viljum, fara á kjörstað og krossa við besta valkostinn. Hann er kannske ekki fullkominn en hann er það besta sem völ er á í hverjum kosningum. Það að sitja heima eða skila auðu er flótti inn í heim uppgjafar og afskiptaleysis - og virðist því miður stundum eina leiðin. En því skyldum við flýja? Við erum þjóðin, við eigum landið - þetta er þjóðfélagið okkar.

 

Við þig sem gafst mér atkvæði þitt í kosningunum segi ég; láttu þann neista sem þú fannst í brjósti þér ekki slokkna.Það er kominn tími til að við, hinn þögli meirihluti hættum að láta “valta yfir okkur”. Að við myndum sterka, ópólitíska hreyfingu, afl sem af þunga og festu krefst betra, öruggara og réttlátara þjóðfélags fyrir alla Íslendinga. Það er kominn tími til að standa saman og þar eigum við samleið þú og ég - við öll.

 

Ég hef því ákveðið að halda heimasíðu minni landsmal.is opinni sem vettvangi fyrir skoðanaskipti,upplýsingar og samráð. Ég hvet þig til að heimsækja www.landsmal.is reglulega næstu vikurnar. Vefsíðan á eftir að taka breytingum til að falla betur að nýju hlutverki sínu; að verða vettvangur þeirra sem vilja bæta þjóðfélagið öllum til heilla.

 

Ég vil gjarnan heyra frá þér, skoðanir þínar, áhugamál og ábendingar. Saman skulum við sjá til þess að úrslit forsetakosninganna marki ekki endalok, heldur upphaf þess þjóðfélags sem okkur dreymir um. Við og afkomendur okkar eigum það skilið.

 

Baldur Ágústsson

 

baldur@landsmenn.is

 

Höf. er fyrrv. forstjóri og

frambjóðandi í forsetakosningum 2004

 

 

 

Baldur Ágústsson