Þegar þetta er skrifað er nákvæmlega mánuður síðan Mbl. birti grein mína “Opið bréf til alþingismanna – afrit til þjóðarinnar”. Þetta opna bréf ásamt athyglisverðri frétt frá Ríkisútvarpinu var á sama tíma einnig sent í tölvupósti til allra þingmanna skv netfangaskrá Alþingis. Svars var óskað.

 

Bréf mitt vakti athygli alþingismanna á sívaxandi fólksflutningum úr austri inn í vestur-Evrópu og þeim félagslegu, fjárhagslegu og atvinnulegu vandamálum sem af þeim hafa sprottið. Trúarbragðadeilir, kynþáttadeilur og gagnstæð menningarleg viðhorf og venjur, svo og hryðjuverkaógnin hafa flækt málin og gert þau erfiðari.

 

“Opna bréfið” var ætlað til að vekja athygli Alþingismanna á þessum vandamálum og nauðsyn þess að endurskoða reglur á Íslandi áður en það verður um seinan því barnaskapur er að halda að ekki fari eins hér á landi. 

 

Bréfi mínu til þingmanna lauk ég með orðunum:

 

Svars, er greini frá afstöðu og fyrirætlunum, er óskað frá hverjum og einum á baldur@landsmenn.is. Afrit af svörunum verður birt í greinasafni www.landsmenn.is - sem afrit til þjóðarinnar.

 

Þar sem nú er liðinn mánuður frá birtingu bréfsins geri ég ekki ráð fyrir fleiri svörum en þegar hafa borist. Skemmst er frá því að segja að af 63 þingmönnum svöruðu aðeins þrír . Ég leyfi mér að kalla það skort á kurteisi við þjóðina alla þar sem ljóst var að svör þeirra yrðu birt opinberlega á vefsetri mínu – sem afrit til þjóðarinnar. Hér er fjallað um alvarlegt mál sem taka þarf afstöðu til – hver sem hún svo verður. Það er ábyrgðarleysi að sitja með hendur í skauti þegar fyrirsjáanleg eru stórmál sem ljóst er að geta í framtíðinni haft mikil áhrif á íslenskt þjóðlíf.

 

Svör þessara þriggja þingmanna má finna í greinasafni á www.landsmenn.is undir greinarheitinu: “Rýr svör frá þingmönnum”

 

Þar má einnig finna:

 

A. Opna bréfið sem birtist í Mbl. 24.10.2005 og þingmönnum var jafnframt sent.

 

B. Athyglisverða frétt RÚV frá 11.2.2004 sem þingmönnum var send um svipað leiti.

 

C. Lista yfir þingmenn og netföng, póstföng og símanúmer þeirra svo þú, lesandi góður, getir sjálfur haft við þá samband um þetta mál og önnur sem þú hefur áhuga á.

 

D. Greinina “Shengen – vanmetin hætta” ásamt myndum og fylgiefni - sem birtist í Mbl 19.7.2005 og fjallar um innflytjendavandamál í Evrópu.

 

 

Ég hvet þig, ágæti lesandi, til að kynna þér umræddar greinar og annað aðgengilegt efni um sama mál, og mynda þér skoðun á því. Ég vil gjarnan heyra frá þér á baldur@landsmenn.is um þetta og önnur þjóðfélagsmál. Sama hlýtur að gilda um Alþingismenn - þeir eru jú trúnaðarmenn okkar. 

 

 

 

24.11.2005

 

 

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is

Höf. er fv. forstjóri og 

 

frambjóðandi í forsetakosningum 2004