Sigurður T. Sigurðsson skrifar um bankana:

 

ÞAÐ er ekki langt síðan að flestir bankar hér á landi voru í eigu ríkisins og menn deildu um grekstrarform þeirra. Ýmsir töldu eðlilegt að þeir væru áfram í eigu ríkisins og reknir sem ríkisstofnanir en aðrir sögðu það ekki þjóna hagsmunum almennings og kröfðust þess að ríkið hætti rekstri þeirra og seldi þá einstaklingum, því þá fengi einstaklingsframtakið að njóta sín almenningi í hag.

 

Einkavæðing Þeir sem mæltu með einkavæðingunni héldu þeim rökum óspart á lofti að háir vextir og mikill lánskostnaður hjá ríkisbönkunum væru fyrst og fremst því að kenna að samkeppni vantaði í bankareksturinn. Þetta myndi breytast um leið og bankarnir kæmust í hendur einkaaðila, því þá færu þeir að keppa innbyrðis um hylli viðskiptavinanna. Sú samkeppni myndi leiða til betri þjónustu, lægri vaxta og jafnvel afnáms verðtryggingar á langtímalánum.

Svo fór að lokum að ríkið einkavæddi bankanna með því að \"selja\" þá á spottprísum til fjársterkra aðila, sem hefðu samkvæmt markaðslögmálinu, getað farið að veita hver öðrum samkeppni og sýnt Íslendingum í verki hvað einkarekstur og frelsi í viðskiptum hefur fram yfir opinber afskipti á þessu sviði.

 

Engin samkeppni

Almenningur trúði talsmönnum einkavæðingar og sá jafnvel fyrir sér að íslenskir bankar færu að haga sér líkt og kollegar þeirra í öllum hinum vestræna heimi, þannig að kostnaður, til dæmis við íbúðarlán, lækkaði verulega. Nú mörgum árum síðar hefur lítið sem ekkert breyst. Ennþá bíður almenningur eftir því að bankarnir hefji samkeppni hver við annan eins og lofað var áður en einkaaðilar náðu þeim á sitt vald og ennþá bíður almenningur eftir að níðþungar greiðslubyrðar íbúðalána lækki. Í staðinn fyrir efndir á loforðum um virka samkeppni og lægri lánskostnað reyna bankarnir nú að blekkja almenning með villandi auglýsingum, þar sem auglýst eru lán með hagstæðum vöxtum en sjaldan eða aldrei minnst einu einasta orði á verðtrygginguna sem á láninu er, sem er þó sá undirliggjandi kostnaðarliður sem hækkar greiðslubyrðina mest og viðheldur verðbólgunni. Einkareknir bankar hafa ekkert það fram yfir ríkisreksturinn sem réttlætir tilveru þeirra. Eigendur þeirra hafa fallið á prófinu.

 

Óeðlilegur gróði

Tekjur bankanna hafa á undan-förnum árum aukist ótrúlega mikið og hagnaður þeirra margfaldast. Þannig var samanlagður hagnaður þeirra nær þrefalt meiri á fyrstu þremur mánuðum þessa árs en á sama tímabili í fyrra, eða 61,3 milljarðar króna samanborið við 24,7 milljarða í fyrra. Það má segja að skuldir heimilanna í landinu vaxi í réttu hlutfalli við þennan ofurgróða bankanna. Þessi ótrúlegi og vaxandi gróði einkavæddu bankanna sýnir á hvaða leið þeir eru. Þeir eru auðsýnilega ekki í neinni innbyrðis samkeppni hver við annan um að lækka lánskostnað viðskiptavina sinna, frekar mætti tala um samráð og samvinnu um verðtryggingu og háa vexti. Stjórnendur þeirra leggja höfuðáhersluna á að auka sem mest eigin gróða og greiða sjálfum sér ofur-laun sem eru víðsfjarri íslenskum veruleika. Almenning nota þeir einungis til að hámarka gróða sinn.

 

 

Sigurður T. Sigurðsson, fv. form. Vlf. Hlífar