Margir muna þá tíma þegar erfitt var að fá lán til íbúðarkaupa og bygginga. Þeir sem voru svo heppnir að vera í sterkum lífeyrissjóði fengu þar einhverja fyrirgreiðslu. Síðan hófst píslarganga milli bankastjóra til að skrapa uppí það sem á vantaði, í formi víxla og skuldabréfa.

Enginn einn aðili lánaði 80 til 90% til 25 eða 40 ára eins og nú tíðkast.

Oft þraut fé áður en framkvæmdum lauk og margar fjölskyldur fluttu inn í ófullgert húsnæði. oft vantaði td. loftaklæðningu og gólfin voru ber steinninn - stundum málaður.

Næstu ár fóru svo í að reyna að ljúka byggingunni, vinna alla þá yfirvinnu sem bauðst og velta á undan sér litlum en mörgum skammtímalánum í hinum ýmsu bönkum og sparisjóðum.

 

Allt breyttist þetta þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður af hinu opinbera, að miklu leyti fyrir frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns. Í allmörg ár hafa menn nú geta gengið að langtímaláni, á sanngjörnum vöxtum og til 25 eða 40 ára. Eftir einkavæðingu ríkisbankanna fer hinsvegar sí-vaxandi þrýstingur þeirra á ráðamenn þjóðarinnar að leggja sjóðinn niður eða helst breyta honum í lánasjóð fyrir bankana sem svo aftur mundu lána einstaklingum.

 

Árni Þormóðsson hefur, á rúmum mánuði skrifað þrjár skeleggar greinar um þetta mál í Morgunblaðið. Hann hefur góðfúslega leyft birtingu þessara greina hér á www.landsmenn.is. Um leið og ég undirritaður þakka Árna fyrir það, vil ég hvetja lesendur til að kynna sér málflutning hans og láta skoðun sína í ljós hið fyrsta td. með blaðaskrifum eða með því að hafa samband við Alþingismenn.

 

Baldur Ágústsson

 

Árni Þormóðsson:

HERNAÐUR BANKANNA GEGN ÍBÚÐALÁNASJÓÐI

 

Ríkisstjórnin virðist vera að láta undan viðskiptabönkunum, sem krefjast þess að Íbúðalánasjóður verði lagður niður og starfsemi hans fari til bankanna. Samtök banka og verðbréfafyrirtækja, SBV, hafa barist gegn starfsemi Íbúðalánasjóðs. Samtökin halda því fram að Íbúðalánasjóður sé óþarfur og bankarnir gætu annast öll húsnæðislán. Starfsemi sjóðsins sé ólögmæt skv. reglum EFTA. SBV kærði starfsemi Íbúðalánasjóðs til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, sem úrskurðaði að ESA andmælti ekki starfsemi Íbúðalánasjóðs. SBV áfrýjaði þeim úrskurði til EFTA dómstólsins. ESA hefur skv. ákvörðun dómsins fengið eldri úrskurð aftur til meðferðar. Úrslit þar geta oltið á vörnum íslenska ríkisins.

 

Rökstuðningur SBV hefur nánast eingöngu verið sá að bankarnir mættu þola óréttmæta samkeppnisaðstöðu þessa ríkisfyrirtækis, sem gæti, vegna aðstoðar ríkisins, sem væri fólgin í betra lánstrausti Íbúðalánasjóðs, sem ríkisfyrirtækis, sem fengi ódýrara fjármagn til starfsemi sinnar en bankarnir og gæti þannig boðið lægri vexti á húsnæðislánum en þeir.

 

Það er einmitt vegna þess að íbúðalánasjóður hefur möguleika á að veita landsmönnum ódýrari lán en viðskiptabankarnir sem starfrækja á Íbúðalánasjóð áfram með sama hætti og hingað til. Það er að sjóðurinn standi undir rekstrarkostnaði en skili ekki hagnaði til eiganda síns með sama hætti og krafa hlutafjáreigenda í viðskiptabönkunum er um hagnað af hlutum sínum í þeim. Hagnaðurinn af starfsemi Íbúðalánasjóðs skilar sér út í þjóðfélagið í þeim vaxtamun sem verður vegna almennt lægri vaxta af húsnæðislánum því tilvera sjóðsins með óbreytti sniði á lánamarkaði hamlar vaxtahækkunum. Hin óréttláta samkeppni sem viðskiptabankarnir telja sig verða fyrir er sú að til sé stofnun í eigu almennings sem lánar fé án arðsemiskröfu umfram það sem nauðsynlegt er til reksturs.

 

Það er ljóst að væri Íbúðalánasjóður ekki til staðar væru lánakjör íbúðalána almennt mun óhagstæðari þau eru í dag. Bankarnir hafa hækkað vexti af nýjum lánum verulega. Þeir hafa haldi því fram að húsnæðislán, sem þeir hafa þegar veitt, bæru of lága vexti og þeir töpuðu á lánunum. Bankarnir hafa hins vegar ekki skýrt frá á hvaða kjörum erlent lánsfé, sem þeir endurlána er. Íbúðalánasjóður, sem einnig hækkaði vexti, gerði það vegna niðurstöðu lánsfjárútboðs í mars.

 

Vegna þeirrar stöðu Íbúðalánasjóðs á lánamarkaði að hamla vaxtahækkunum, og lána jafnvel á lægri vöxtum en bankarnir, lögðust SBV í hernað gegn starfsemi sjóðsins fyrir EFTA dómstólnum. Sú barátta SBV er barátta gegn hagsmunum almennings. Barátta gegn því að kostur sé á lánum án þess að greiða aðilum SBV verulegan hagnaðarhlut í vöxtum og lántökukostnaði. Það er ljóst að erindrekstur SBV á erlendum vettvangi er fyrir enn frekari fákeppni á lánamarkaði en nú er. Barátta fyrir auknum hagnaði aðila SBV, úr vasa lántakenda. Það er skylda ríkisstjórnarinnar vað verjast ásókn SBV fyrir ESA og verja þannig hagsmuni almennings.

Birt í Mbl. 21.04.06

 

Árni Þormóðsson:

ÍBÚÐALÁNASJÓÐUR LAGÐUR NIÐUR

 

Nú er orðið ljóst, sem margir óttuðust, að ríkisstjórnin ætlar að verða við kröfum viðskiptabankanna um að leggja Íbúðalánasjóð niður að mestu og afhenda þeim starfsemi sjóðsins. Þannig er ljóst að ríkisstjórnin tekur hagsmuni bankanna fram yfir hagsmuni almennings.

 

Félagsmálaráðherra fullyrti eftirfarandi í fréttaviðtali nýlega: - “Það er ljóst að það gengur ekki til langframa að Íbúðalánasjóður starfi með ríkisábyrgð þegar samkeppni er orðin á þessum markaði” Þetta er undarleg staðhæfing. Íbúðalánasjóður hóf ekki samkeppni um lánveitingar. Íbúðalánasjóður og forverar hans höfðu sinnt íbúðalánastarfsemi einir í áratugi vegna þess að bankarnir sinntu ekki þeim viðskiptum. Starfsemi Íbúðalánasjóðs hafði verið stórbætt undir stjórn og fyrir forystu framsóknarmanna, lánin hækkuð og skilyrði fyrir lánveitingum rýmkuð þó þar hefði þurft að gera mun betur. Bankarnir hófu samkeppni við Íbúðalánasjóð með hærri lánum en sjóðurinn veitti og á svipuðum vöxtum en með rýmri skilyrðum. Eitt af markmiðum bankanna með þessum lánveitingum var að stuðla að miklum uppgreiðslum íbúðasjóðslána og kæfa með því Íbúðalánasjóð og ná sjóðnum og viðskiptum hans til sín. Íbúðalánasjóður stóðst þessa raun og þá fóru bankarnir að halda því fram að þeir töpuðu á íbúðalánum sínum. Að halda slíku fram núna þýðir örugglega hækkun lánskjara fái bankarnir Íbúðalánasjóð. Varla ætla þeir að halda áfram að lána með tapi. En eru bankarnir að tapa á íbúðalánum sínum? Það er ósennilegt. Ekki tapar Íbúðalánasjóður á sinni lánastarfsemi. Á hvaða kjörum eru erlendu lánin sem bankarnir endurlána hér? Það er óupplýst. Bankarnir hafa hins vegar upplýst að lánshæfismat þeirra hjá erlendum matsfyrirtækjum væri nánast það sama og íslenska ríkisins. Samkvæmt því er líklegt að bankarnir greiði ekki hærri vexti en 2,0 - 2,5% af endurlánafé sínu, sem þeir lána síðan hér með 4,8 – 5,5% vöxtum, verðtryggt auk þjónustugjalda. Það er mjög undarleg röksemd fyrir kröfu bankanna um niðurlagningu Íbúðalánasjóðs að vegna taps á einni grein útlánastarfsemi verði keppinauturinn Íbúðalánasjóður að hætta starfsemi vegna þess að bankarnir græddu ekki á samkeppni sem þeir stofnuðu til Ef svo ólíklega vill til að bankarnir séu að tapa á íbúðalánum eiga þeir að sjálfsögðu sjálfir að bera af því skaðann. Á því hafa þeir næg efni. Á síðasta ári var ávöxtun eigin fjár bankanna um og yfir 40% T d var hagnaður Landsbanka Íslands á sl. ári 33,8 miljarðar króna.

 

Fáir skilja nauðsyn þess að breyta Íbúðalánasjóði í þjónustustofnun fyrir bankana eins og félagsmálaráðherra boðaði í fyrrnefndu fréttaviðtali eftir ríkisstjórnarfund 18. þ m Enda voru skýringar hans á nauðsyn breytinganna engar og litlar á því hverjar fyrirhugaðar breytingar væru. Að leggja niður Íbúðalánasjóð og auka fákeppni á lánamarkaði er fráleitt vegna hagsmuna almennings Bankarnir hafa ekki sýnt fram á að þeir bjóði til langframa betri kjör en Íbúðalánasjóður Spurningin er: Hvers vegna ver ríkisstjórnin hag bankanna í þessu máli en ekki almennings?

Birt í Mbl. 03.05.06

 

Árni Þormóðsson:

HAGSMUNUM ALMENNINGS FÓRNAÐ

 

Forsætisráðherra ítrekaði í kvöldfréttum NFS 23. maí að Íbúðalánasjóði yrði breytt. Miðað við það sem áður hefur komið fram verður að draga þá ályktun að sjóðurinn verði lagður niður eða gerð úr honum þjónustustofnun fyrir viðskiptabankana Þá getur Samaband bankanna (SBV) snúið sér að áframhaldandi árásum á hagsmuni viðskiptavina sinna sem verður að fá bann við því að lífeyrissjóðirnir láni sjóðfélögum Í maímánuði 2004 kom í fjölmiðlum að SBV teldu brýnt að lokað yrði fyrir heimildir lífeyrissjóðanna til að lána einstaklingum eða þeim sniðin mun þrengri stakkur

 

Lífeyrissjóðirnir hafa lánað sjóðfélögum frá stofnun sjóðanna og voru þau lán lengst af einu fasteignalánin sem sjóðfélagarnir áttu kost á utan lána Íbúðalánasjóðs og forvera hans Lífeyrissjóðir hafa því lánað sjóðfélögum í um 70 ár og hefur það verið þýðingarmikill þáttur í því að sjóðfélagar eignuðust þak yfir höfuðið Þá er ótalin sú mikla þýðing sem lánastarfsemi lífeyrissjóðanna hefur haft fyrir þjóðfélagið í heild sérstaklega á landsbyggðinni

 

Landssamband lífeyrissjóða birti athugasemdir við kröfu SBV um að lífeyrissjóðirnir hyrfu af lánamarkaðnum og þar segir m.a: “

 

Það hljóta allir landsmenn að sjá í gegn um látlausan áróður bankanna sem vilja sölsa undir sig alla lánastarfsemi í landinu Þannig hamast þeir daginn út og inn á starfsemi Íbúðalánasjóðs og nú þarf að henda lífeyrissjóðunum út af veðlánamarkaði Allar fjölskyldur kunna sögur af lánveitingum bankanna til húsnæðismála Þar var almennt engin lán að finna þar til nýlega.”

 

Barátta SBV fyrir fákeppni á lánamarkaði er því ekki ný Barátta SBV hefur verið lævís og lipur og oft rekin í nafni viðskiptafrelsis og frjálsrar samkeppni Hún á lítið skylt við samkeppni Það blasir við öllum sem vilja sjá að það að fækka aðilum á markaði eykur fákeppni Það að ryðja lífeyrissjóðum og Íbúðalánasjóði af markaði, aðilum sem ekki gera kröfur til hagnaðar af hlutafé er, bein ráðstöfun til hækkunar alls kostnaðar lántakenda Þá staðreynd hafa SBV sjálfir staðfest með því að tína til kostnaðarliði sem Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðir bera ekki en þeir bera Er samúð almennings með SBV svo mikil að menn séu reiðubúnir til að greiða stórfé fyrir “réttlæti” SBV? Er það svo að stjórnmálamenn dagsins í dag séu svo glámskyggnir, hagsmunatengdir eða leiðitamir bönkunum að þeir séu reiðubúnir að fórna hagsmunum almennings, umbjóðenda sinna, með því að leggja niður Íbúðalánasjóð? Sé svo er illa komið. Þá er eins víst að næst verði lífeyrissjóðum bannað með lögum að lána sjóðfélögum

 

En í þessari umræðu allri hefur enginn talsmaður þess að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs nefnt og því síður sýnt fram á útgjaldasparnað eða annan hag skuldara af því að losna við Íbúðalánasjóð af markaði Það er mjög undarlegt Hækkar, lækkar eða stendur lánakostnaður í stað? Það er það sem skiptir máli Síðan félagsmálaráðherra tilkynnti breytingar á Íbúðalánasjóði hafa bankarnir hækkað vexti af fasteignalánum og lækkað lánshlutfall miðað við verðmæti eigna. Það er athygli vert!

Birt í Mbl. 30.05.06