Undanfarið hafa málefni eldri borgara verið mikið í þjóðfélagsumræðunni og því miður ekki að ástæðulausu. Skortur á hjúkrunarheimilum og heimahjúkrun, ásamt reglum um lækkun lífeyris og skattlagningu, hafa lengi svipt aldraða þeirri reisn og gleði sem ætti að einkenna ævikvöldið. Þá leggur þetta ástand ósanngjarnar byrðar á herðar aðstandendum aldraðra.

 

Um leið og ráðamenn prútta ófeimnir við aldraða, líta þeir framhjá því að atvinna og önnur þátttaka í lífinu frestar því að fólk falli í depurð og heilsuleysi og verði stofnanamatur um aldur fram – með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið. Að ekki sé minnst á gleði og lífsgæði viðkomandi einstaklinga og aðstandenda þeirra. Öll hvatning er því af hinu góða.

 

“UPPSKURÐUR”

Allt kerfi trygginga, skatta og lífeyrissjóða sem snýr að eldri borgurum er sjúkt. Það þarf að skera það upp, með heildarmyndina í huga: Því skyldi þeim sem vill leggja á sig vinnu eftir 67 ára aldur vera refsað og því skyldi sá sem þarf ummönnun á stofnun missa ellilífeyri sinn eftir að hafa alla ævi með sköttum sínum staðið undir uppbyggingu og rekstri þessara stofnana. Og spyrja má: Hver á raunverulega lífeyrissjóðina sem eiga nú um 1.300.000000000 kr. (eittþúsundogþrjúhundruðmilljarða) en er með lögum bannað að fjárfesta í húsnæði sem gæti td. nýst undir hjúkrunar- eða vist-heimili ? Er ekki tímabært að hinir eiginlegu eigendur fari að njóta þessa fjár.

Hér þarf að skera og hefur þurft lengi. Til þess þarf heiðarlegt fólk með gott hjarta, góða yfirsýn og mikla þekkingu, því málið er margsnúið. Það fólk mun finnast.

 

FRAMBOÐ - EINA VIRKA LEIÐIN Þeim fjölgar nú stöðugt sem hvetja til framboðs eldri borgara í vor. Á Alþingi er öllum þessum málum stjórnað með athöfnum – eða athafnaleysi. Þar sitja nú fulltrúar flokka sem hafa þegar haft fjölda ára til að gera eitthvað jákvætt í öllum þessum málum en árangurinn lætur á sér standa. Undirritaður efast ekki um að þar eru einstaklingar sem vilja vel. Stundum er meira að segja gefið undir fótinn með úrbætur en minna verður um efndir. Gallinn er hinsvegar sá að þingmenn eru hluti af stjórnmálaflokkum sem hafa haft í mörg horn að líta – og þau horn eru misáhugaverð og atkvæðavæn.

 

Eldri borgara vantar fulltrúa á þing. Ekki fólk sem langar til að verða þingmenn og lofar hverju sem er til þess, heldur fólk sem vill vinna að velferð eldri borgara – og annarra – og er tilleiðanlegt til að fara á þing því það er eina virka leiðin. Þar er valdið sem þarf. Eldri borgarar, 67 ára og eldri, eru rúmlega 31.000 talsins eða um 10% þjóðarinnar. Aðstandendur, sem í dag bera ábyrgð á velferð þessa fólks, eru enn fleiri. Er ekki tímabært að þessi málaflokkur og allt þetta fólk, eigi sína fulltrúa á Alþingi ? Fulltrúa sem hafa þar ákveðið verk að vinna, jafnframt því sem þeir taka ábyrga afstöðu í öðrum þjóðmálum - sem undirritaður er ekki að gera lítið úr – og sem mörg hver snerta mannúð og réttlæti.

Því miður kennir reynsla undanfarinna áratuga okkur að loforð eru ekki efnd, vonir rætast ekki. Og það á við í mörgum málum.

 

Nú eiga menn tvo valkosti: Hlusta á gömlu ræðurnar, kjósa gamla flokkinn sinn (eða þann mælskasta) og upplifa gömlu vonbrigðin. Eða snúa vörn í sókn, efna til framboðs og koma fólki á þing. Svari nú hver fyrir sig.

 

Þeir sem vilja snúa vörn í sókn geta fyrirhafnarlítið stigið fyrsta skrefið nú í vikunni með að mæta á fund sem Félag eldri borgara í Reykjavík hefur boðað um málið nú í kvöld (fimmtudag) kl 18, að Stangarhyl 4 í Reykjavík.

 

ÓROFA SAMSTAÐA

Til að framboð eldri borgara nái tilgangi sínum þarf fyrst og fremst ferska hugsun og órofa samstöðu. Leggja þarf af alla hálfvelgju, og þá niðurlægjandi hugsun að aldraðir séu vanmátta og upp á velvild yfirvalda komnir. Í þeim flokki sem stofnaður yrði um framboð eldri borgara eiga þeir og aðstandendur þeirra heima svo og fólk á öllum aldri sem leitar réttláts og mannúðlegs þjóðfélags. Flokksstjórn og frambjóðendur þurfa að vera bæði af eldri og yngri kynslóðum. Þeir ættu ekki að vera þekktir stjórnmálamenn, það setur pólitískan stimpil á framboðið og fælir marga kjósendur frá. Auk þess sem þekktir stjórnmálamenn hafa þegar haft völd og tækifæri sem ekki hafa skilað sér í nægum lausnum og hafa því tæpast mikla tiltrú kjósenda. Horfa þarf staðfastlega á verkefnið, geiga hvergi og gæta þess að fá ekki á það flokksstimpil annarra. Rétt er að ígrunda hvort eldri borgarar eiga samleið með öðrum í svipaðri aðstöðu td. öryrkjum en þeir eru um 12.000, eiga á sama hátt amk. jafnmarga aðstandendur og eiga líka undir högg að sækja.

 

Aðeins eldri borgarar og aðstandendur þeirra geta ákveðið hvort af framboði verður. Ljóst er að slíkt kallar á mikla vinnu og fjármuni. Hitt er jafn ljóst að náist sterk og breið samstaða gætu með því gefist stórkostleg tækifæri til þeirra úrbóta sem trúnaðarmenn okkar - hinir kjörnu þingmenn – hafa ekki komið á, því miður. Kröftugt framboð er eina raunhæfa lausnin á vandamálum eldri borgara – og margra annarra.

 

STERKT FRAMBOÐ – ÞJÓÐARHEILL