MIKLAR árásir hafa dunið á Frjálslynda flokknum síðustu mánuði, einna helst vegna stefnu hans í málefnum innflytjenda.

Ægir Geirdal fjallar um stefnu Frjálslynda flokksins í Morgunblaðinu þriðjudaginn 20. febrúar. Þar gerir hann lítið úr þeirri stefnu Frjálslynda flokksins að útlendingar sem hingað koma til búsetu skuli framvísa sakavottorði við komuna til landsins. Þann sama dag birtast fregnir í fjölmiðlum um hugsanlega klámráðstefnu í Reykjavík. Nú hafa þeir aðilar sem mótmæltu stefnu Frjálslynda flokksins umpólast og vilja nú að Íslendingar ráði hverjir koma til landsins, varla gerist tvískinnungurinn meiri.

Nú liggur sú staðreynd fyrir að árlega koma hingað í þúsundatali útlendingar til búsetu og má búast við að þeim fjölgi gríðarlega.

 

Viljum við Íslendingar allt þetta flæði? Viljum við fá tugþúsundir nýbúa árlega inn í efnahags-, velferðar- og heilbrigðiskerfið okkar? Heldur velferðar- og heilbrigðiskerfið velli þegar slík aukning verður á lágtekjufólki? Hafa verið gerðar ráðstafanir varðandi þá erlendu glæpahringi sem eru að skjóta hér rótum?

 

Frjálslyndi flokkurinn er eini flokkurinn sem hefur þorað að taka afstöðu í málefnum innflytjenda og gagnrýnum við harðlega stjórnvöld fyrir stefnuleysi í þeim málum.

 

Sú skoðanakúgun sem ríkir í málefnum innflytjenda er með öllu óviðunandi.

 

Ísland er heimilið okkar og að sjálfsögðu eigum við að ráða hverjir setjast hér að.

Höfundur er lyfjafræðinemi og í forsvari fyrir ungliðahreyfingu Frjálslynda flokksins.