NÝLEGA horfði ég á 1. kosningaþátt RUV þar sem formenn þeirra flokka sem bjóða fram til alþingiskosninga, mættu í sjónvarpssal. Ég var spennt að sjá og heyra hvort eitthvað bitastætt væri í pípunum. Ég verð bara að segja að ef þetta er forsmekkur þess sem verður á dagskrá RUV vegna kosninganna í vor þá líst mér ekki á.

 

Mér fannst stjórnendurnir, og þá sérstaklega Jóhanna Vigdís, eitthvað undarlega innstilltir. Þessi færa fjölmiðlakona sem hefur mikla reynslu og oftast verið mjög frambærileg í umræðuþáttum kom með undarlega athugasemd sem varð kveikjan að þessari grein.

Eftir ofuráherslu á álversumræðu og stóriðju, eins og það væri það eina sem máli skipti, komst umræðan (vegna vasklegrar framgöngu Ingibjargar Sólrúnar, sem var greinilega orðin leið á þessu málþófi stjórnenda) eftir langa mæðu, áfram og önnur málefni skyldu rædd, þá tók ekki betra við. Í umræðu um innflytjendamálefni kom álversumræða aftur inn, leidd af stjórnendum þáttarins, í þetta skiptið álverið á Húsavík og í því samhengi að \"hver ætti að vinna vinnuna við nýtt álver á Húsavík?\" spurði Jóhanna Vigdís, \"ef ekki erlent vinnuafl?\" Þetta fannst mér vera síðasta sort. Hvað var konan að hugsa? Hefur þessi Reykjavíkurmær ekki farið út fyrir höfuðborsvæðið lengi?

 

Mér finnst þetta endurspegla mjög skýrt hugsunarhátt þeirra sem búa á suðvesturhorni landsins. Hvers vegna þarf allt að gerast 1, 2 og 3? Hvað segir að ekki megi byggja álver á Húsavík á normal hraða, þ.e. taka aðeins lengri tíma í byggingu, bæði húsakosts og virkjunar. Fólk búsett á svæðinu hefði vinnu til lengri tíma við byggingu mannvirkja og síðan vinnu við framleiðslu. Skapaði aukið atvinnuöryggi fyrr og til lengri tíma. Þessi óeðlilegi byggingarhraði sem viðgengst í dag er að fara með allt í óefni. Það hefur komið í ljós að mjög margt hefur farið illa vegna þess, fólk orðið fyrir óþarfa tjóni vegna hraða og flumbrugangs. Þetta vita allir þeir sem vinna í þessum geira. Hvað er unnið með þess konar vinnubrögðum? Væri ekki nær að hægja aðeins á og gera þetta á eðlilegri hraða yfir lengri tíma. Það skapar aukið jafnvægi á vinnumarkaði og fólk hefði meiri tíma fyrir fjölskylduna. Það mætti halda að heimurinn væri að farast og allt yrði að verða tilbúið fyrir þann tíma eða að allt væri á síðasta söludegi.

 

Hvað liggur okkur svona á?

Erum við að missa af einhverju? Jú, það er gróðinn, við erum að missa af gróðanum, hinum mikla gróða þar sem allir Íslendingar ætla að vera \"múltímillar\" og útlendingarnir geta unnið þau störf sem við ekki viljum, eða hvað? Mín skoðun er sú að stærsta vandamálið í íslensku þjóðfélagi, hvort heldur er umhverfislegt eða efnahagslegt, er græðgi. Hinn ameríski draumur í 10. veldi. Er það þetta sem við viljum? Gullæði Ameríku komið til Íslands á 21. öldinni.

 

Stöldrum við og hugleiðum þetta aðeins.

 

AGNES ARNARDÓTTIR,

Miðteigi 8, Akureyri.