Hildur Þórðardóttir:

 

NÚ Á tímum aukinna glæpa og hnignandi siðferðiskenndar er nauðsynlegt að kenna börnum okkar siðferðisleg gildi.

Líf og starf Jesú hefur um þúsund ára bil kennt okkur að bera virðingu fyrir náunganum, lifa á kærleiksríkan hátt og halda ekki aðra guði, svo sem peninga eða völd. Siðmennt berst nú með kjafti og klóm fyrir því að banna biblíufræðslu í skólum, útrýma Litlu jólunum og helgileikjum. Siðmennt boðar trúleysi og notkun heilbrigðrar skynsemi í samskiptum við náungann. Heilbrigð skynsemi segir okkur að líta sjálfum okkur nær, hugsa fyrst og fremst um okkur sjálf því enginn annar gerir það. Hver er sjálfum sér næstur. Eigingirni, sjálfselska og sjálfhverfa eru afrakstur þeirrar stefnu.

 

Hvernig er þjóðfélagið í dag ?

Þjóðfélagið er nú þegar nógu sjálfselskt, sjálfhverft og ábyrgðarlaust. Viljum við hafa þjóðfélagið ennþá eigingjarnara? Kennum þá endilega börnum okkar að enginn guð sé til, þau þurfi ekkert að svara til saka þó þau myrði, nauðgi og ræni. Samkvæmt Siðmennt er bara eitt líf og það skiptir engu máli hvort við séum morðingjar eða ekki. Við getum alveg eins farið út í búð, rænt því sem okkur vanhagar um. Passa bara að láta ekki nappa sig. Ef einhver spyr um siðferðiskennd okkar yppum við bara öxlum. Hva! Ég var svöng! Þessir verslunareigendur okra hvort sem er á okkur! Betra er að ræna en að vera rændur!

 

Guð kennir okkur að við þurfum að svara til saka eftir dauða okkar. Af hverju þarf endilega að taka það frá börnunum okkar? Börn þurfa að trúa á að eitthvað geti hjálpað þeim í neyð og hvenær sem er. Þegar þau lenda í áföllum seinna í lífinu, og ég get lofað ykkur því að allir lenda einhvern tíma í áföllum, verða þau að geta beðið einhvern um hjálp. Það skiptir ekki máli hvort hið yfirnáttúrulega heitir Alla, Búdda, Guð eða Jesús. Á Íslandi erum við kristin og trúum á Jesú. Aðfluttum Íslendingum er frjálst að trúa á aðra guði en tökum ekki trúna á hið yfirnáttúrulega frá krökkunum okkar. Skólarnir eru besti staðurinn til að kenna náungakærleik og samhug. Tökum ekki verkfærin úr þeirra höndum. Enginn er smiður án hamarsins. Áfram með Litlu jólin, jólafrí, páskafrí, helgileiki og siðferðislegan boðskap!

 

Burt með Siðmennt!

 

HILDUR ÞÓRÐARDÓTTIR,

móðir tveggja drengja,

Hraunteigi 26, Reykjavík.