Undanfarin ár hefur öðru hvoru skotið upp kollinum umræða um embætti forseta Íslands. Tilefnið hefur verið misjafnt ss. fréttir af stjórnarskrárnefnd alþingis og þeim breytingum sem hún er að velta fyrir sér, framganga forseta sjálfs og fréttir frá ríkisendurskoðun af fjárnotkun embættisins. Þá hafa einnig heyrst raddir um að leggja beri embættið niður. Nú, þegar Ólafur Ragnar hefur tilkynnt að hann óski að sitja áfram vill undirritaður líta á störf hans hingað til og horfa til framtíðar.

 

Stjórnarskrárnefnd

Í stjórnarskrárnefnd sitja við endurskoðun, m.a. fulltrúar stjórnmálaflokkanna og ber því miður nokkuð á hugmyndum um að rýra vald forseta; “setjar skýrar reglur um verksvið hans og völd” og jafnframt að takmarka möguleika fólks á að gefa kost á sér til embættisins, jafnvel löngun til að stýra því hverjir geta farið fram í kosningum. Hvorttveggja á sjálfsagt að hluta rætur sínar að rekja til þess að núverandi forseti hefur storkað stjórnmálamönnum með pólitískri framgöngu sinni, “sjálfstæðri utanríkisstefnu” og reglulegum áminningum um að hann sé kosinn beint af þjóðinni allri. Þá fyrirgefa sumir honum seint að hafa árið 2004 synjað fjölmiðlafrumvarpinu samþykkis og í kjölfar þess átt hvöss orðaskipti við ákveðna stjórnmálamenn, móðgað dönsku konungsfjölskylduna og látið sig vanta á fund sem haldinn var í tilefni 100 ára afmælis heimastjórnar Íslendinga.

 

Hér er stjórnarskrárnefnd vandi á höndum. Hún má ekki láta framgöngu núverandi forseta stýra starfi sínu inn á neikvæðar brautir byggðar á reiði, hefnigirni eða valdagræðgi. Vissulega hefur margt í starfi sitjandi forseta verið umdeilt og valdið úlfúð, en hann hefur ekki brotið almenn lög. Alþingi og embætti Forseta Íslands er hvorttveggja miklu stærra en þeir einstaklingar sem þar sitja. Þjóðin vill hvorki að embætti forseta sé lítillækkað né njörvað niður. Alþingismönnum - þ.m.t. stjórnarskrárnefndarmönnum – væri hollt að líta til þess að skoðanakannanir sýna ár eftir ár að traust almennings á “hinu háa alþingi” er lítið og yfirleitt minna en á öðrum stofnunum þjóðfélagsins ss. lögreglu, heilbrigðiskerfinu, umboðsmanni alþingis og þjóðkirkjunni svo eitthvað sé nefnt. Íslendingar munu ekki taka því vel ef þrengt verður að forseta lýðveldisins. Þeir munu örugglega ekki láta það átölulaust ef stjórnarskrárnefnd alþingis stendur að slíku.

 

Vilji þjóðarinnar.

Hugmynd stjórnarskrárnefndar um hóflega fjölgun meðmælenda frambjóðenda á etv. rétt á sér eftir því sem þjóðin stækkar, en ekki að hver frambjóðandi þurfi að hafa tvo þingmenn í þeim hópi, eins og einhverntíma var uppi hjá stjórnarskrárnefnd og er etv. enn. Heldur ekki að synjunarvald forseta sé afnumið enda er það aðeins tæki til að vísa lagafrumvörpum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Undirritaður fullyrðir að þjóðin vill hafa það öryggi sem í þessu ákvæði felst. Þjóðin vill eiga raunverulegan “trúnaðarmann” í forseta sínum, trúnaðarmann sem hafinn er yfir dægurþras og hlutdrægni í stjórnmálum, trúnaðarmann sem getur gripið inn í ef þingmenn seilast of langt eða alvarlegir atburðir gerast.

Auk þessa mætti gjarna koma í stjórnarskrá lýðveldisins, ákvæði um að tiltekinn fjöldi kjósenda geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök mál – án afskipta forseta. Það er lýðræði í þess orðs bestu merkingu. Af framansögðu og þeim uppákomum sem orðið hafa í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímsonar, án þess að honum verði einum um kennt, er jafnframt dagljóst að í embætti forseta skyldi ekki kjósa stjórnmálamenn, hvorki starfandi né fyrrverandi. Þeir njóta ekki óskoraðs trausts allrar þjóðarinnar, verða ekki hlutlausir trúnaðarmenn hennar, heldur hallir undir sinn gamla flokk og pólitíska félaga.

 

Handhafar forsetavalds.

Eitt stjórnarskráratriði sem ástæða er til að endurskoða er ákvæðið um handhafa forsetavalds. Nú er það svo að sé forseti Íslands fjarverandi, hvort sem er í embættiserindum, orlofi eða vegna veikinda, fara forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar sameiginlega með vald hans t.d. samþykki nýrra laga. Eigi forseti að vera sannur trúnaðarmaður þjóðarinnar allrar og þar með alfarið óháður stjórmálaflokkum, skýtur hér skökku við.

Þegar ný lög koma frá Alþingi, eða meirihluta þess, þarfnast þau staðfestingar Forseta Íslands, eða þjóðaratkvæðagreiðslu ef hann svo kýs. Að láta þetta vald forseta lýðveldisins í hendur forsætisráðherra og forseta Alþingis er að afhenda það fulltrúum þeirra flokka sem komu viðkomandi máli gegnum Alþingi. Það jafngildir því að fjarlægja trúnaðarmann þjóðarinnar úr ferlinu. Það þjónar ekki hagsmunum hennar. Þriðji maður, forseti hæstaréttar, stendur oft í þakkarskuld við ráðandi stjórmálaflokka, sem oftar en ekki hafa veitt honum starfið – þó ekki sé það algilt. Allavega er hann í minnihluta. Full ástæða er því til að endurskoða og breyta því hverjir fara með vald Forseta Íslands þegar hann er fjarverandi.

Ýmislegt annað þarfnast endurskoðunar þó varlega skyldi farið og engu breytt án beins samþykkis þjóðarinnar. Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands er í senn hornsteinn og fjöregg þess sjálfstæðis, lýðræðis, frelsis og mannréttinda sem íslensk þjóð vill búa við.

 

Breyttar áherslur. Eins og Vigdís Finnbogadóttir sagði eitt sinn í viðtali, mótast embætti forseta Íslands af þeim er því gegnir hverju sinni. Þetta hefur sannast á Ólafi Ragnari sem hefur gert embættið pólitískara og “djarfara” en áður hefur þekkst. Einhver orðaði það svo að hann væri “frekur til fjörsins”. Víst er að framganga Ólafs Ragnars er oft með óhefðbundnum hætti og hefur vakið umtal og deilur. Hann varð t.d. fyrstur forseta lýðveldisins til að synja lögum staðfestingar, vorið 2004.

 

Ólafur Ragnar Grímsson hefur setið á forsetastóli síðan 1996 er hann tók við af Vigdísi Finnbogadóttur, sem eftir 16 ára setu gaf ekki lengur kost á sér. Nú, þegar Ólafur Ragnar hefur tilkynnt að hann óski að sitja áfram, vill undirritaður líta á störf hans hingað til og horfa til framtíðar.

Forsetinn hefur verið langtum meira á ferðinni erlendis en fyrirrennarar hans og farið sínu fram hvað sem líður gagnrýni stjórmálamanna og raunar oft hluta þjóðarinnar. Margir hafa orð á því að hann hafi tekið upp glys og hirðsiði kóngafólks. Hann hefur tekið við erlendum viðurkenningum og trúnaðarstörfum. Sumir ganga svo langt að segja að hann reki sína eigin utanríkisstefnu og dvelji of lítið hjá eigin þjóð. Sum af ferðalögum Ólafs Ragnars eru hefðbundnar ferðir og heimsóknir. Annað eru um margt umdeildar ferðir sem byggjast, að því er oft virðist, á persónulegum áhuga hans. Í þriðja lagi hefur hann verið iðinn að ferðast með kaupsýslumönnum – jafnvel svo að ýmsum hefur þótt nóg um og ferðatilhögun jafnvel með óviðeigandi hætti. Hér er þá t.d. átt við ferðir hans og konu hans sem gestir í einkaþotum auðjöfra, íslenskra og erlendra. Ekki er að efa að “útrásarmönnum” hefur þótt styrkur í nærveru hans og ræðum, þótt öðrum finnist hann ósmekklega oft bregða sér í hlutverk “sölumanns”. Eins og einhver stjórnmálamaðurinn sagði – í áminningatón - um framgöngu Ólafs Ragnars erlendis: “Forseti Íslands er alltaf Forseti Íslands.”

Starf forseta á þessu sviði verður einnig að skoðast í samhengi við annað. Hann er forseti allrar þjóðarinnar og algjört skilyrði fyrir “sölumennsku” – hversu lítil sem hún er – hlýtur því að vera að hún sé allri þjóðinni til góðs. Á það hefur nokkuð skort.

Íslenskir auðmenn hafa flestir hagnast á gjafakvóta og einkavæðingu sem ekki hefur skilað sér í vasa hins almenna neytanda – heldur komið úr honum. Þessi hagnaður hefur svo í mörgum tilfellum verið undirstaða hinna mjög svo gefandi útrása á erlenda markaði og viðskiptalíf. En, þegar fram stígur fyrrverandi ríkisskattstjóri og upplýsir að stór hluti útrásar-hagnaðar íslenskra auðmanna sé í erlendum bönkum og af honum sé ekki greiddur skattur til ríkissjóðs Íslands hljótum við að spyrja: Fyrir hverja er útrásin? Er rétt og viðeigandi að forseti lýðveldisins láti beita sér fyrir útrásarvagninn með þeim hætti sem hann hefur gert ?

 

Undirritaður skorar á Ólaf Ragnar Grímson að endurskoða aðkomu sína að þessum málum og ígrunda hvort ekki sé eðlilegra að hann leggi lóð sitt á vogarskálar hér heima. Að hann, með eins virkum hætti og embætti forseta leyfir, komi að brýnum málum sem snerta þjóðina alla.

 

Lýðræðið.

Ólafur Ragnar sýndi með synjun sinni á fjölmiðlalögunum 2004 að hann telur málskotsrétt forseta vera í fullu gildi, þó að lögfróðir menn deili um það. Það skal upplýst hér að undirritaður hefði, af nokkrum ástæðum, væntanlega ekki beitt þessum rétti í þessu tiltekna máli, en telur hann hinsvegar vera í fullu gildi – og eiga að vera það áfram. Þannig hafi forseti ekki farið út fyrir valdsvið sitt vorið 2004. Synjun staðfestingar á fjölmiðlalögunum er hinsvegar aðeins hálf sagan.

 

Stjórnarskrá okkar kveður skýrt á um að hafni forseti lögum skuli þau lögð í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu “svo fljótt sem kostur er”.

Þó að stærstur hluti kjósenda telji það blasa við – og stjórnarskráin gefi ekki tilefni til annars - að í “þjóðaratkvæðagreiðslu” ráði einfaldur meirihluti þeirra sem atkvæði greiða, kusu stjórnmálamenn að fela sig á bak við það að “reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur skorti”. Þetta er Alþingi til skammar. Þessi fyrirmæli stjórnarskrárinnar hafa verið fyrir hendi í áratugi, þau tengjast kjarna lýðræðisins en ekki hefur verið hirt um að setja um þau “nauðsynlegar” framkvæmdareglur. En hér er ekki aðeins við Alþingi að sakast. Samkvæmt 25. grein stjórnarskrárinnar er forseta Íslands sjálfum heimilt að leggja lagafrumvörp fyrir Alþingi. Ólafur Ragnar Grímsson skaut sér ekki á bak við að málskotsrétturinn væri dauður og ómerkur eins og sumir stjórnmálamenn gerðu. Þvert á móti: Hann beitti þessum rétti sjálfur. Ef hann hefði talið að þörf væri fyrir lög um þjóðaratkvæðagreiðslur hefði hann, að eigin frumkvæði, átt að láta leggja fram lagafrumvarp í þá veru. Ef ekki, hefði hann - án tafar - átt að beita sér fyrir því að þessu ákvæði stjórnarskrárinnar yrði framfylgt undanbragðalaust. Til þess hefur hann næg völd – en e.t.v ekki áhuga. Óhætt er að segja að bæði Ólafur Ragnar og Alþingi beri hneisu og skömm af þessu máli og þeirri vanvirðu sem þjóðinni, lýðræðinu og stjórnarskránni var með því sýnd.

 

En þessu máli lýkur ekki hér. Eins og þjóðin veit var aldrei greitt þjóðaratkvæði um fjölmiðlafrumvarpið. “Hið háa Alþingi” dró frumvarpið til baka – sem vel má vera að sé stjórnarskrárbrot. Forseti Íslands lét það viðgangast, sem væntanlega er þá einnig stjórnarskrárbrot. Og nú, fjórum árum síðar, hafa enn ekki verið sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslur þó forseti geti enn beitt synjunarákvæðinu – strax á morgun, ef hann metur aðstæður svo. Fleiri orð þarf ekki að hafa um viðhorf allra þessara aðila til stjórnarskrárinnar, lýðræðisins, þjóðarinnar og þess eiðs eða drengskaparheits, er þeir unnu við embættistöku sína.

 

Undirritaður skorar á Ólaf Ragnar Grímsson að vinna af drengskap og dugnaði að framgangi raunverulegs lýðræðis á Íslandi.

 

Fjármál.

Kostnaður við rekstur forsetaembættisins fer mikið eftir umsvifum og aðhaldi forseta sjálfs. Mörg undanfarin ár hefur ríkisendurskoðandi séð ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við útgjöld og umframeyðslu forseta Íslands. Á átta árum (1999-2006) – hluta af forsetatíð Ólafs Ragnars - hafa embættinu verið veittar samtals einn milljarður og þrjátíu og fimm milljónir króna á fjárlögum - (1.035m). Árleg fjárveiting til embættisins hefur nær tvöfaldast á þessu tímabili þó að verðbólga á sama tíma hafi “aðeins” numið 38%.

 

Eyðsla embættisins á sama tíma hefur verið tæplega einn milljarður og tvöhundruð milljónir króna – (1.195m) – eða samtals um eitthundrað og sextíu milljónir króna – (160m) - umfram fjárlög. Þetta gerir að jafnaði um tuttugu milljónir króna árlega – (20m) – eða um 15% umfram fjárlög. Munur milli ára á umframeyðslu er mismunandi á því tímabili sem hér um ræðir frá 19% til 37% umfram fjárlög. Hér er miðað við fyrirliggjandi bókhaldstölur.

 

Ef – og hér er sanngjarnt að ítreka ef – reiknað er með sambærilegri eyðslu frá upphafi setu Ólafs Ragnars á forsetastóli, út það kjörtímabil sem nú fer að hefjast, mun eyðsla embættisins fara um þrjúhundruð og tuttugu milljónir, eða 15% framúr fjárlögum. Í fljótu bragði kann að virðast að ekki sé um stóra upphæð að ræða, en miðað við stærð embættisins er það svo. - Þá þekkjum við öll fólk og stofnanir sem hafa brýnni þörf fyrir þetta fé en embætti forseta Íslands.

 

Undirritaður skorar á Ólaf Ragnar Grímsson að sýna aðhald og aðgæslu í fjármálum og ganga á undan með góðu fordæmi, minnugur þess að fjárlög eru líka lög.

 

Að lokum óskar undirritaður Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, til hamingju með nýtt kjörtímabil og velfarnaðar í því starfi sem íslensk þjóð hefur falið honum. Megi gæfa og sómi fylgja forseta vorum, landi og þjóð.

 

Reykjavík, 26. maí, 2008,

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is

 

Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004