Undanfarin misseri hefur mikið farið fyrir umræðunni um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

 

Þeir sem líta svo á að hagsælt sé að gefa embættismönnum í Brussel vald yfir landi og þjóð hafa hvergi gefið eftir í baráttu sinni, sem er svo sem skiljanlegt og tala aftur og aftur um hvað lífið væri miklu miklu betra og auðveldara ef við værum í Evrópusambandinu.

 

Þessir sömu aðilar hafa nýtt sér það ástand sem nú ríkir á fjármálamörkuðum til að upphefja boðskap sinn og gloríu ESB.

 

Eitt af því sem við heyrum reglulega er hversu lágir vextir væru hér á landi værum við í ESB. Fjölmiðlar hafa flutt af því fréttir með tilheyrandi útskýringum hversu marga tugi þúsunda ef ekki milljónir meðalmaður gæti mögulega sparað, t.d. á húsnæðislánum, værum við á „ESB-vöxtum“ en ekki með þessa handónýtu krónu sem virðist ætla að toga úr okkur allt líf.

 

Einhverra hluta vegna er aldrei minnst á þá háu innlánsvexti sem hér eru í boði, t.d. peningamarkaðssjóði sem síðustu misseri hafa gefið mjög mikla ávöxtun. Málin eru rædd út frá lægsta samnefnaranum en ekki þeim sem mögulega gætu átt einhverja peninga til að spara. Skipta sparireikningar og verðbréfasjóðir með 15% plús innlánsvöxtum engu máli?

 

Annað sem gjarnan er rætt er matvælaverð, hversu miklu ódýrara það væri að kaupa í matinn ef það væri nú „ESB-verð“ á matvörunum. Samt eru engir tollar nema á landbúnaðarafurðum þannig að matvælaverð „gæti“ alveg verið ódýrara burtséð frá því hvort við erum í ESB eða ekki.

 

Nú, eigum við ekki að ræða launin líka? Laun hér á landi eru mun hærri en gengur og gerist í Evrópusambandinu. Þarf ekki að finna einhverjar leiðir til að lækka þau líka? Af hverju fjalla þessir sömu aðilar ekki um það hvernig fyrirtæki gætu sparað sér mikinn kostnað ef þau myndu borga „ESB-laun“ en ekki séríslensk himinhá laun? Það hentar kannski ekki í umræðunni?

 

Það virðist vera svo að menn taki meðaltal af Vestur- og Austur- Evrópu og ætlist til þess að Ísland geti og eigi að vera einhvers staðar þar á milli.

 

Og af hverju er því aldrei haldið á lofti að ríkustu þjóðir Evrópu eru allar utan ESB?

Þetta er auðvitað einföld útgáfa á umfangsmikilli umræðu. En svo að ég vitni nú í eina vinsælustu íslensku sjónvarpssetningu síðasta árs, „eigum við að ræð’etta eitthvað?

 

Gísli Freyr Valdórsson

_________________________________________

Birtist í Viðskiptablaðinu þann 16. maí 2008.