Þann 28. sl. mánaðar var Mbl. svo vinsamlegt að birta grein mína sem bar sama nafn og þessi. Hana má lesa á greinasafni www.landsmenn.is en þar er einnig að finna góðar greinar um sama efni td. eftir Ragnar Önundarson og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur. Frá því að ég skrifaði grein mína hefur ríkistjórnin, sérfræðingar hennar og stærstu bankarnir tekið þrefalt heljarstökk. Bankarnir því miður afturábak en ríkisstjórnin áfram – eða það skulum við amk. vona að komi í ljós.

 

Öllum er ljóst að mikil vinna hefur farið í að finna lausnir og taka ákvarðanir í þessu stóra máli og með litlum fyrirvara. Ég minni samt á að þó að leitað sé að stóru lausninni – og hún jafnvel finnist – léttir það ekki ekki þrengingar almennings strax. Ég leyfi mér því að benda á þær hugmyndir sem ég setti fram í fyrri grein minni þó þær virðist ekki stórar miðað við td. fundi í Moskvu og Alþjóðabankanum svo eitthvað sé tínt til. Í bráð þarf að leysa mál fólks sem er skuldsett, horfir jafnvel fram á að missa heimili sitt og þarf að velta hverri krónu fyrir sér. Hugmyndir mínar í fyrri greininni voru ekki hugsaðar sem allsherjar lausn á banka- og fjárhags-vanda þjóðfélagsins heldur viðbrögð sem hrinda mætti í framkvæmd strax án mikils undirbúnings eða kostnaðar.

 

Þegar fólk er nú að átta sig á stærð “þjóðarvandans” vakna óhjákvæmilega vonbrigði en líka spurningar og hugmyndir sem etv. eru enn í fullu gildi þó að stefnan virðist hafa verið mörkuð.

 

Til dæmis . . .

 

. . . Ef vitað var að við bærum áfram ábyrgð á bönkunum til hvers var þá verið að einkavæða þá? – Sleppa stjórn þeirra en vera samt í ábyrgð ! Skuldir bankanna nema, að sagt er, tólf-faldri þjóðarframleiðslu okkar. Þetta mun vera uþb. sex sinnum meira en eðlilegt er skv. góðri hagfræði. Hvernig gat þetta gerst? Átti ekki fjármálaeftirlitið og fjármálaráðherra að fylgjast með og kippa í taumana ? Er þetta ekki svipað og vélstjóri á skipi líti ekki á mælana í vélarrúminu og hrökkvi svo upp við að vélin er ónýt?

 

. . . Ráðamönnum ber að takmarka tjón ríkisjóðs. Ákvarðanir ber að taka með það eitt í huga og láta ekki undan þrýstingi erlendra viðskiptavina bankanna eða stjórnmálamanna.

 

Lítið fé hefur enn verið látið úr ríkissjóði í þessa hít sem fer sívaxandi eftir því sem málin eru skoðuð betur. Þekkt er í viðskiptum þegar fyrirtæki er selt að kaupandi greiðir fyrir vörur, vélar, viðskiptavild, innréttingar og húsnæði ef um slíkt er að ræða. Það þykir hinsvegar óvarlegt að yfirtaka fyrirtæki “í heilu” þar sem lengi geta verið að koma fram kröfur og skuldbindingar sem hinum nýja eiganda er ekki kunnugt um. Þetta er athugunarefni þegar aðkoma ríkissjóðs að bankamálinu er ákveðin.

 

. . . Nú er talað um að þjóðin taki lán hvar sem þau fást, greiði skuldir bankanna og etv. hjálpi þeim að hefja starfsemi aftur. Til hvers? hvað svo? Af hverju ber þjóðin ábyrgð á bönkunum frekar en öðrum einkafyrirtækjum ss. verslun, bílaleigu eða trésmiðju ? Ef - og ég ítreka ef - við hinsvegar berum ekki raunverulega ábyrgð á þeim, hlýtur að koma til athugunar að láta þá fara í gjaldþrot og byggja upp einn traustan ríkisbanka – það nægir þrjúhundruðþúsund manna þjóð. Nóg húsnæði er til um allt land, stórhýsi og lítil útibú sem taka má upp í skuldir. Innréttingar, tæknibúnaður og gott starfsfólk “fylgir með”. Nú er ekki tími til að hygla með ofurkaupi, kaupréttarsamningum, fínum bílum, starfslokasamningum eða öðru slíku. Borga þarf góðu starfsfólki gott kaup, innan velsæmismarka.

 

. . . Sé ofangreind leið farin, lágmarkar það útgjöld ríkissjóðs. Þá er og hægt með nákvæmni að reikna út töp “venjulegra” sparifjáreigenda” og starfsfólks sem verður illa úti vegna atvinnumissis. Fyrir þetta fólk er þá auðvelt og sjálfsagt að stofna “bjargráðasjóð” sem greiðir eðlilegan sparnaðarmissi, launaleysi, glötuð lífeyrisréttindi og inneignir í lífeyrissjóðum. Þetta er væntanlega mun ódýrari leið en að styrkja bankana til að standa straum af ýmsum “kostnaði og skuldbindingum” þeirra – sem ekki sér fyrir endann á. Það er svo td. Ríkissaksóknara eða Hæstaréttar að ákveða hvort frysta þurfi eigur stjórnenda bankanna, hér og erlendis. Einnig hvort þeir eigi að sæta farbanni eða gæsluvarðhaldi vegna gruns um misferli meðan mál þessi eru rannsökuð.

 

. . . Mikið er búið að biðja þjóðina að standa saman – og það gerum við. Má þjóðin treysta því að ráðamenn leggi til þann tíma og þá vinnu sem þarf til að finna bestu lausnir – fjárhagslegar og mannúðlegar?

 

Svör við ofangreindum spurningum og hugmyndum blasa sjálfsagt við þeim sem best þekkja til. Almenningur á hinsvegar erfitt með að skilja þetta stóra mál til hlítar; hvað gerðist, hvað eru “skuldirnar” miklar, hverjar eru ábyrgðir þjóðarinnar og byggðar á hverju – ekki átti hún bankana. Ríkisstjórnin gerði vel í að svara þessum spurningum í skipulega uppsettri dagblaðsauglýsingu þannig að allar upplýsingar séu almenningi aðgengilegar á einum stað.

 

Veislulok

 

Eitt er víst: Ballið er búið. Gullkálfurinn er farinn og bankarnir hættir að leika fyrir dansi. Eftir situr þjóðin og þarf að taka til. Við þurfum líka að endurskoða verðmætamat okkar. Hvað færir okkur sanna hamingju, gerir líf okkar þess virði að lifa því: Dýri jeppinn eða samverustundir með fjölskyldunni? Verslunarferð til útlanda eða ferðalag um óspillta náttúru Íslands? Víst var okkar freistað, jafnvel blekkt en eins og trúhneigðir segja: \"Guð gaf okkur frjálsan vilja\". Veljum það sem við viljum - veljum það sem skiptir máli.

 

Baldur Ágústsson Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningunum 2004

baldur@landsmenn.is

www.landsmenn.is

Birt í Mbl. 16.10.2008