Það eru forréttindi að fæðast sem Íslendingur, að hafa nægt landrými, hreint loft og vatn; búa á landi sem er svo gjöfult af náttúruauðlindum að það getur brauðfætt okkur öll.

 

Vissulega höfum við ástæðu til að bera virðingu fyrir náttúruöflunum, enda hafa þau oft leikið okkur grátt. Við höfum upplifað tjón og mannskaða á landi og á sjó, en staðið saman og stutt hvert annað þegar hafið hefur tekið sinn toll. Við höfum sameinast í máttvana sorg þegar snjóflóð hrifsuðu frá okkur varnarlaust fólk. Við höfum barist fyrir lífi og limum í jarðskjálftum og eldgosum og oft haft sigur. Við ættum ekki að þurfa að óttast stríðsátök eða aðrar hörmungar orsakaðar af mönnum. Þær efnahagshamfarir sem nú hafa dunið á okkur eru þó af manna völdum, en einnig þeim má sigrast á. Þó þarf að byrja á því að tryggja öryggi heimilanna - svo að við sjáum tilganginn með því að halda baráttunni áfram, til þess við viljum búa hér áfram, átt viðskipti við innlend fyrirtæki og stofnað ný.

 

Vöknum til vitundar um hvað við getum gert.

Efumst um allan málflutning, einnig þennan.

Leitum sjálf upplýsinga frá fleiri en einum aðila um öll mál.

Tökum upplýsta ákvörðun um hvað við viljum.

Aðhaldið er okkar.

Vöknum til vitundar. 

 

Lög manna eru engin náttúrulögmál. Lög manna eiga að vera til hagsbóta fyrir alla, svo til að mynda skipting fjármagns sé sanngjörn – svo við getum lifað í sátt við hvert annað og auðlindir jarðar.

 

Útrásarlögmálin segja að viðskiptavild og orkuver séu jafngild, að krosseignatengsl séu eðlilegur hluti viðskiptafrelsis. Í fyrirtækjarekstri virðist stefna undanfarinna ára hafa verið skjótfenginn gróði, með því að nota hverja glufu í ófullkomnu regluverki, óháð hugmyndum um siðferði eða jöfnuð. Nú er staða fólksins í landinu, sem er hinn raunverulegi auður efnahagskerfisins, vægast sagt slæm. En hvað er til ráða? Hvað viljum við gera?

 

Huglægur auður efnahagskerfisins.

 

Meira en 50% af skuldum gömlu bankanna hafa verið afskrifaðar. Flestar tengjast afskriftirnar bönkunum sjálfum og öðrum fyrirtækjum sem rekin voru án fyrirhyggju, með stefnu á skyndigróða. Eigið fé og varasjóðir vék fyrir tækifærinu til að mergsjúga hagnað úr raunverulegri atvinnustarfsemi með tilfærslu eigna og hárri skuldsetningu. Lánsfé var margfaldað í sýndarviðskiptum, gegnum leppfyrirtæki, eignarhaldsfélög og kauphallir.

 

Eftir afskriftir á skuldum gömlu bankanna við erlenda lánadrottna, tóku nýju bankarnir við eftirstöðvunum. Þar á meðal eru erlendar húsnæðisskuldir heimilanna – en þær á þó að innheimta að fullu hjá þjóðinni. Þessu þarf strax að breyta, ásamt því að skera af þá gervihækkun húsnæðislána sem átt hefur sér stað með glórulausri verðtryggingu innlendra húsnæðislána. Stöðva þarf misréttið sem felst í að ábyrgð lánadrottna sé engin, en ábyrgða skuldarans 150%. Þetta má gera með því að takmarka ábyrgð við þann hlut sem settur er að veði og að einungis saknæmt athæfi veiti lánadrottnum rétt til að ganga að öðrum eigum viðkomandi, eða að gera hann gjaldþrota. Gætið að því, að þjóðin – þeir sem velja að vera hér áfram - þurfa einnig að taka á sig stórfelldar skerðingar á þjónustu, ógnvekjandi verðbólgu og þungar byrðar vegna skulda óreiðumanna.

 

Tökum upplýsta ákvörðun.

 

Byggja þarf upp traust í samfélaginu og trúverðugleika íslensks hagkerfis. Slíkt traust fæst ekki með því að ganga í ESB. Með því að ganga í ESB er markmiðið að fá skjól og öryggi hjá traustu og vel reknu hagkerfi. Eins og staðan er nú er það skammgóður vermir og hefur ekkert að gera með traust á okkar markmiðum og úrvinnslu. Í besta falli erum við að fá traust ESB að láni. Ef við tökumst á við okkar vandamál sjálf, þá skapast raunverulegt traust. Fara þarf varlega í að hleypa erlendum fjárfestum í fyrirtækin okkar og bankakerfið sem þjóðin var að fá í fangið. Svo er algjör óþarfi að kynna Ísland markvisst sem fjárfestingakost, sérstaklega þar sem nú þegar eru komnir hingað kænir peningamenn að kynna sér brunaútsölurnar. Við þurfum að róa kerfið, gefa landsmönnum kost á að fjárfesta sjálfir og byggja upp fyrirtæki um eigin auðlindir og fullvinna vörur á Ísland.

 

Aðhaldið er okkar.

 

Við þurfum heiðarlegar leikreglur og meira traust á umboðsmönnum okkar, þeim sem eru á launum við að vinna að allra heill. Núna þurfum við á skynsemi og heiðarleika að halda, en líka hvatvísi. Það þarf djörfung og dug. Við þurfum að standa saman um að setja nýjar leikreglur og kveikja ljós til framtíðar.

 

Allir landsmenn þurfa að nýta lýðræðislegan rétt sinn til að breyta og bæta í komandi alþingiskosningum og um alla framtíð. Nú er að beita öllu okkar viti, dug og afli til að ná fram úrbótum. Það áform mun takast með því að koma á virku lýðræði.

 

Ragnheiður Fossdal

Höfundur er líffræðingur, frambjóðandi fyrir Borgarahreyfinguna

Ragnheiður Fossdal, líffræðingur