Nýverið hefur mikið borið á fréttum af skorti á fangelsisrými í landinu. Svo langt gengur þetta að dæmdir menn þurfa að bíða, jafnvel í mörg ár, eftir að geta setið af sér dóma.

 

Höf. man eftir svipuðu tilfelli fyrir allmörgum árum þar sem ungur maður beið í ein þrjú ár en var þá orðinn gerbreyttur maður. Á meðan hann beið sneri hann frá villu síns vegar, fékk fasta vinnu og eignaðist fjölskyldu. Svo bankaði lögreglan uppá! Nú skilst manni að svipuð biðstaða sé að koma upp. Fangelsin yfirfull og jafnvel imprað á að sumstaðar verði að hafa tvo í sama klefa. Sér er nú hver gestrisnin!

 

Lausnin, er sagt, á að felast í að byggja, eða leigja hentugt húsnæði undir fangelsi.

 

Skoðum fleiri hliðar þessa máls:

Í mörgum tilfellum er dvöl refsivist til að sannfæra hinn brotlega um að afbrot borgi sig ekki og hann skuli ekki brjóta af sér aftur, það sjónarmið á etv. rétt á sér þegar um Íslendinga er að ræða. Það sem breyst hefur í áranna rás er hinsvegar það að eitt af hverjum fjórum fangarýmum er notað fyrir erlent fólk. Fólk hefur í vaxandi mæli nýtt sér hina landamæralausu Evrópu til að bregða undir sig betri fætinum, flest í ferðamannahópum vopnað myndavél og áhuga á framandi menningu okkar sem betur fer. En misjafn sauður leynist í mörgu fé. Sumir hinna erlendu ferðalanga hafa í pússi sínu, hnífa, hnúajárn og fíkniefni. Þeir hafa lítinn áhuga á lopapeysum, fallhæð Dettifoss eða hvernig skyr er búið til. Þeir eru hér í öðrum erindagjörðum.

 

Hluti þessara manna næst og þeir taka nú upp fjórðung fangelsisrýmis á Íslandi. Og nú á þjóðin að nota meira af peningunum sem hún ekki á, til að fjölga gistirýmunum.

 

Af hverju þessi fjöldi ?

 

Sagt er að auðvelt sé að fá austur Evrópubúa til að smygla fíkniefnum til Íslands. Þar og víðar, ss. suður í Ameríku, eru fangelsisyfirvöld ekki haldin íslenskri gestrisni. Klefi sem smíðaður var fyrir fjóra hýsir auðveldlega tuttugu. Einhverjum “mat” er sjálfsagt gaukað að föngunum þegar kokkurinn er í stuði, en líka heyrist af því að fangarnir veiði sér til matar í klefunum; t.d. kakkalakka. Þetta er jú allt prótín! Nú er rétt að taka skýrt fram að undirritaður er ekki að mæla með betrunarvist af þessu tagi. En fyrr má nú rota en dauðrota. Það er alvitað í austur Evrópu að vist í íslensku fangelsi er á við hóteldvöl: Hlý einmenningsherbergi, sjónvörp, tölvur, læknisheimsóknir og ágætur heitur matur nokkrum sinnum á dag. Launuð vinna fyrir þá sem það vilja og oft nám fyrir aðra. Í stuttu máli sagt: Dvöl í íslensku fangelsi er langtum betri en í austur Evrópu. Jafnvel betri en á eigin heimili þar – allavega ódýrari!

 

Fyrir margt austur evrópskt fólk sem býðst að flytja fíkniefni til Íslands er valið einfalt: Ef smyglið heppnast er það vel borgað – ef ekki, bíður þess ókeypis “hóteldvöl” við leik og störf á Íslandi. Er nokkur furða að fátækir atvinnuleysingjar sjái þetta sem tækifæri – ekki áhættu. Við verðum að miða afstöðu þessa fólks við aðstæður þess.

 

Þessu ástandi, sem setur börn okkar og unglinga í sívaxandi hættu, mun ekki linna fyrr en við fyrr en við breytum þeim móttökum sem þessir sölumenn dauðans – og glæpagengi – fá hér á landi.

 

Lausnin.

 

Hluti vandans liggur í opnum landamærum, en það er útaf fyrir sig er efni í heila grein – grein sem undirritaður reyndar skrifaði í Mbl. fyrir tíu árum.

 

Erlendum smyglurum og glæpamönnum á að snúa við ef þeir þekkjast við komuna til landsins. til baka til lögreglu síns heimalands með skilaboðum um að þeim sé um alla framtíð óheimilt að koma til Íslands. Þeir sem sleppa gegnum flugvöllinn en nást við iðju sína í landinu skulu strax færðir til dómara og eftir athæfi sínu sendir úr landi án tafar – engar flóttamannabúðir eða áfrýjanir – eða vistanir í fangelsi hér.

 

Þá erum við komin að fangelsisskortinum. Þeir íslensku brotamenn og útlendingar sem sem stunda ofbeldisglæpi og eitra fyrir æsku landssins með fíkniefnum eiga ekki að búa í “hótel-fangelsum”. þeim skal finna annan stað – og hann er til og nær tilbúinn.

 

Upp á hálendi Íslands, skammt frá Kárahnjúkavirkjun, standa vinnubúðir sem ríkið á. Þessar búðir sem töldust nógu góðar fyrir erlenda verkamenn í hundraða tali, eru vissulega meira en nothæfar fyrir ótýnda glæpamenn.

Það þarf að styrkja læsingar, girða svæðið eða hluta þess og hafa þar nokkra vopnaða fangaverði. Engin sjónvörp, engar tölvur, engin þægindi – aðeins það lífsnauðsynlegasta. Matargerð, þrif og þvotta annast fangarnir sjálfir undir vopnuðu eftirliti. Þetta ætti að losa mörg afplánunarpláss í venjulegum fangelsum og þar með útrýma hinum ósanngjörnu biðlistum.

 

Fari hrollur um einhvern og detti honum í hug Sovéska Gulagið, þá skal minnt á til hvers þessir brotamenn komu hingað. Lögum og erlendum samningum sem kunna að standa í vegi fyrir þessari framkvæmd á að breyta eða segja sig frá.

 

Númer eitt er að vernda land okkar og þjóð. Endurhæfa þá Íslendinga sem hægt er, halda hinum frá almenningi og senda útlendinga í “gúlagið” og síðan heim, vitandi að ísl. fangelsi eru ekki eftirsóknarverðir dvalarstaðir.

 

Baldur Ágústsson

Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningunum 2004.

baldur@landsmenn.is

www.landsmenn.is