Brynja Björg Halldórsdóttir, laganemi:

 

\"Ástæðurnar fyrir því að ganga ekki í ESB eru svo margar og veigamiklar að hvorki evrurökin, lág skólagjöld né loforð jafnaðarmanna um ódýrar kjúklingabringur duga til að réttlæta aðild.\"

 

ÉG HEF lengi átt bágt með að sjá hvers vegna ungt fólk ætti að vilja ganga í Evrópusambandið og hvað það hefur að sækja þangað. Því meira sem ég les um ESB, því erfiðara á ég með að sjá að sambandið þjóni hagsmunum ungs fólks sérstaklega. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að það skipti afar litlu máli hvað maður er gamall, það er alltaf jafnömurlegt að búa í ríki innan ESB.

Fyrir tilviljun rakst ég á grein um daginn, undir fyrirsögninni „ESB fyrir unga fólkið“. Undir þessa grein skrifa Sema Erla Serdar og Ingvar Sigurjónsson en þau eru formaður og varaformaður ungra Evrópusinna. Ég las þessa grein í von um að þau Sema og Ingvar gætu svarað spurningunni minni – hvers vegna í ósköpunum ungt fólk ætti að vilja ganga þarna inn?

 

Því miður var fátt um svör. Þau minntust á Ungmennaáætlun Evrópusambandsins – sem við erum reyndar þegar þátttakendur í – og svo lægri skólagjöld. Ekki er fleiri rök að finna í þessari grein.

 

Og fyrst lág skólagjöld eru efst í huga ungra Evrópusinna, mætti í því samhengi rifja upp að Ísland myndi alltaf borga meira til samneyslu og styrkjakerfis ESB en það fengi frá ESB, væri Ísland þar inni. Þetta er vegna þess að framlög miðast við þjóðartekjur á mann – og á Íslandi eru þær langt yfir meðallagi innan ESB.

 

Ef við ætlum að niðurgreiða skólagjöld íslenskra námsmanna í útlöndum – væri þá ekki vel til fundið, þegar við réttum úr kútnum að íslenska ríkið styrkti íslenska stúdenta til náms erlendis? Það væri að minnsta kosti miklu hagkvæmara en að greiða ESB morð fjár til þess svo að niðurgreiða nám fyrir íslenska stúdenta.

Ég hef endrum og sinnum velt því fyrir mér hvernig það væri að búa á Íslandi ef sjónarmið Evrópusinna verða ofan á og við hreinlega göngum inn í ESB.

 

Lítum aðeins til framtíðar, kannski tíu, tuttugu ár fram í tímann og ímyndum okkur Ísland innan ESB.

 

Hversu miklu þurftum við að fórna fyrir inngönguna í „fyrirheitna landið“ sem Eiríkur Bergmann og félagar lofuðu okkur? Fiskurinn í sjónum er ekki lengur okkar – heldur kvóti í eigu sjómanna í Bretlandi, Portúgal, Spáni og víðar, allar landbúnaðarvörur koma aðsendar frá Evrópu því það eru engir bændur á Íslandi lengur, Alþingi er að mestu leyti valdalaust og við erum ennþá að bíða eftir evrunni þar sem við uppfyllum ekki ennþá Maastricht-skilyrðin. Og hvað fengum við í staðinn?

 

Unga fólkið greiðir lægri skólagjöld en áður en það skiptir engu máli því það fær enga vinnu. Atvinnuleysið er 8,3%, tvöfalt hærra hjá ungu fólki en samt er það undir meðaltali innan Evrópusambandsins. Við eigum þrjú atkvæði af 350 í ráðherraráðinu sem er innan við 1% og 5 atkvæði af 750 á Evrópuþinginu í Brussel sem er um 0,6% atkvæða. Við erum langminnsta ríkið í Evrópufjölskyldunni – en við erum ekki einu sinni litli bróðir heldur bara litli puttinn á litla bróður.

 

Við hugsum kannski oft til þess hvernig það væri að vera komin út úr sambandinu en leiðin þangað út er svo torveld og löng að við nennum því ekki. Að auki hefur ríki sem segir sig úr sambandinu enga milliríkjasamninga og það tekur mörg ár að koma þeim á aftur. Við einfaldlega þorum ekki.

 

Hver er svo staðan í dag? Það er staðreynd að fjöldi ungs fólks íhugar landflótta – ef það er ekki farið nú þegar. Með öðrum orðum er gríðarlegur spekileki yfirvofandi. Ef þetta burðuga unga fólk flýr land í unnvörpum er okkur mikill vandi á höndum.

 

Til eru stjórnmálamenn – æðstu ráðamenn þessa lands – sem halda því fram að aðild að Evrópusambandinu sé lausnin á vandamálum okkar og muni tryggja að unga fólkið haldist heima. Þeir ýta undir ýmsar mýtur sem eiga sér litla stoð í raunveruleikanum.

 

Þeir vilja halda því fram að Ísland muni ná góðum samningum við sambandið – að viðræðurnar verði bara eins og hlaðborð sem hægt er að velja girnilegustu réttina og sleppa hinum. Í sögu ESB hefur engin þjóð hlotið heiðursaðild að bandalaginu nema kannski gamla Kola- og stálbandalagið (sem við tilheyrum að sjálfsögðu ekki).

 

Engin smáríki hafa fengið að beygja, hvað þá brjóta reglur ESB og það er óskhyggja að halda að Ísland fengi varanlegar undanþágur frá sameiginlegu fiskveiðistefnunni, landbúnaðarstefnunni, tollastefnunni eða öðru reglugerðafargani. Það verður ekki samið – ESB er heilsteyptur pakki sem þjóðir taka við í heild sinni eða sleppa með öllu.

 

Ástæðurnar fyrir því að ganga ekki í ESB eru svo margar og veigamiklar að hvorki evrurökin, lág skólagjöld né loforð jafnaðarmanna um ódýrar kjúklingabringur duga til að réttlæta aðild.

 

Erum við virkilega tilbúin að fórna fullveldinu, fæðuöryggi, samningsfrelsi og umráðum yfir auðlindunum fyrir þetta ? Ég á mjög bágt með að trúa því.

Ef það er einlægur ásetningur ráðamanna okkar að ganga inn í Evrópusambandið, myndi ég heldur vilja vera níræð en nítján ára svo ég þyrfti að horfa sem styst upp á Ísland sem sjávarþorp í Evrópu.

 

Framundan er löng og ströng barátta. Lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar kusu að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þvert á þjóðarvilja; við töpuðum kannski orrustunni en stríðið en ennþá í fullum gangi. Sjáum nú til þess að þjóðin kjósi rétt loksins þegar samningurinn verður lagður fyrir hana. Það gerum við með upplýstri umræðu því vel upplýst þjóð kýs gegn ESB-aðild. Gerum það fyrir unga fólkið og komandi kynslóðir því það eru þau sem erfa landið.

 

Höfundur er laganemi .

Brynja Björg Halldórsdóttir, laganemi