Baldur Ágústsson:

 

ENN ÞARF FORSETI AÐ LEGGJAST UNDIR FELD ÞEGAR

 

Ólafur Ragnar Grímsson synjaði Icesave-lögunum staðfestingar hlýddi hann kalli þjóðarinnar og reyndist með sanni vera sá öryggisventill sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir. Aðdragandi áskorana og reiði almennings hefur átt sér um tólf mánaða sögu. Þegar fyrst fór að krauma í þjóðinni var það vegna þess að hún ætti að bera ábyrgð á starfsemi einkafyrirtækja, vegna upphæða krafna erlendis frá og ekki síður krafna um óheyrilega vexti og greiðslu kostnaðar hinna erlendu ríkisstjórna við fyrirhugaða samningagerð. Þá voru hryðjuverkalög sett á okkur.

 

Í vitund almennings og umræðu síðustu mánaða hefur vægi vaxta og kostnaðar minnkað en þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að Íslendingum beri yfirhöfuð ekki skylda til að greiða neitt vegna Icesave – hvorki höfuðstól, vexti né kostnað.

 

Þessi skoðun er ekki úr lausu lofti gripin. Fjöldi sérfræðinga hefur bent á að skylda íslenskra yfirvalda skv. reglum Evrópusambandsins hafi einungis verið að tryggja stofnun svonefndra tryggingarsjóða bankanna. Það var gert og að mati fjölda innlendra og erlendra sérfræðinga var reglunum með því fullnægt og ábyrgð okkar þar með úr sögunni. Meðal þeirra eru lögfræðingar, hagfræðingar, ráðgjafar, prófessorar og sjálfmenntaðir leikmenn auk sérfræðings að nafni Alain Lipietz sem vann við að semja reglur Evrópusambandsins um fjármálamarkaði og sagði nýlega: „Íslendingar skulda ekkert“.

 

Þá hefur það enn ýtt undir þessa skoðun að hvorki Hollendingar né Bretar voru tilbúnir að leita úrskurðar dómstóls.

 

Sumir hafa meira að segja bent á greinar í evrópsku reglunum sem hreinlega banna að ríkisstjórnir einstakra ríkja styrki eða gangi í ábyrgð fyrir tryggingasjóðina. Það er í samræmi við þær ströngu reglur sem gilda í ESB um niðurgreiðslur og styrki.

 

Synjun og þjóðaratkvæði

 

Nú mætti þjóðin ætla að eftir að alþingi hefur sent lög til forseta og hann vísað þeim til þjóðarinnar yrði hætt að reyna að semja við hina erlendu kröfuhafa. Að stjórnvöld héldu að sér höndum a.m.k. fram yfir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Sú er hinsvegar ekki raunin. Flogið er milli landa og fundað sem aldrei fyrr. Markmiðið virðist vera að finna ástæðu til að fresta eða falla frá fyrirhugaðri atkvæðagreiðslu. Mörgum finnst í þessu felast viss vanvirðing við þjóðina og forsetann, þótt e.t.v. sé þetta ekki ólöglegt. Ríkisstjórnin var og enda marg-búin að lýsa því yfir að betri samningum yrði ekki náð! Hvers vegna, spyrja menn, er þá farið í frekari viðræður ? Nokkrar ástæður eru nefndar.

 

Í fyrsta lagi er áhugi stjórnvalda okkar á að innlima Ísland í ESB slíkur að engu er hlíft: Ósannaðar Icesave-greiðslur skulu koma úr sjóðum þjóðarinnar með dýrum lánum. Þá hefur verið ákveðið með naumum meirihluta á alþingi að spyrja þjóðina ekki hvort hún vill að sótt verði um aðild að ESB og að þjóðaratkvæðagreiðsla um innlimun verði ekki bindandi fyrir stjórnvöld sem þannig geta tekið einhliða ákvörðun í þessu mikilvæga máli.

 

Loks myndi það gleðja suma stjórnarmenn að geta grafið undan áhrifum forsetans sem þeir töldu sig hafa í vasanum.

 

Hér fara hagsmunir Hollendinga, Breta, ESB og íslenskra stjórnvalda saman: Ríkisstjórnin bætir Icesave-skaðann gegn loforði um að Ísland verði tekið inn í ESB með hraði – væntanlega vel fyrir lok þessa kjörtímabils. ESB er einnig meinilla við að þjóðaratkvæðagreiðslan fari fram. Það hentar ekki stjórnarháttum sambandsins. Hin erlendu stjórnvöld geta svo sagt kjósendum sínum að þau hafi unnið sigur á Íslendingum og þannig náð sér í nokkur atkvæði. Íslendingar yrðu þannig peð í refskák tilfinningalausra stjórnmálamanna.

 

Þrátt fyrir misvísandi skilaboð frá ráðamönnum ESB er dagljóst að þeir vilja fá Ísland inn. Örþjóð sem yrði valdalaus á þingum Evrópu og býr yfir gnægð fiskjar, vatns og orku yrði himnasending fyrir ESB. Það sem nú er, eða getur verið, arðbær útflutningsvara íslendinga hirðir ESB með einu pennastriki – ef ekki nú þá síðar. Icesave-greiðslurnar hjálpa til að koma okkur á knén og gera eftirleikinn auðveldari.

 

Enn reynir á forsetann.

 

Í ljósi þess sem sagt var hér í upphafi, um sívaxandi efasemdir almennings og fræðimanna um ábyrgð á Icesave, snýst málið e.t.v. ekki lengur um hvaða kjör við getum samið um heldur hvort við eigum yfirhöfuð að borga nokkuð – hvort íslenska ríkinu og þjóðinni komi þetta mál nokkuð við!

 

Sem fyrr er það forseti þjóðarinnar sem getur komið til bjargar. Ef ríkisstjórnin kemur nýjum samningi gegnum alþingi getur forseti sent hann – og aðra slíka – í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá greiðir þjóðin atkvæði um hvort borga skuli Icesave eða ekki. Ekki aðeins greiðslukjör. Forseti hefur einnig fleiri ráð í hendi sér.

 

Það má ekki gerast að við bindum okkur og afkomendum okkar skuldabagga sem við ekki eigum. Ef við látum undan ósönnuðum kröfum erlendra þjóða og handrukkara þeirra er stríðið tapað. Áður en það gerist þarf að skipta hershöfðingjunum út fyrir aðra kjarkmeiri – menn og konur sem þora að segja nei á útlensku.

 

Nú snúum við bökum saman og byggjum upp landið okkar. Það verður nokkur vegferð og stundum á brattann að sækja – en sú ferð verður ekki metin til fjár. Hún verður heldur ekki erfiðari en það sem bíður okkar ef við fjölgum skuldaböggunum og jafnvel afsölum okkur fullveldinu.

 

Allar ferðir hefjast á einu skrefi. Fyrsta skref okkar nú er að fara öll á kjörstað á laugardaginn og setja kross við nei.

 

baldur@landsmenn.is

www.landsmenn.is

Höfundur er fv. forstj. og frambjóðandi í forsetakosningunum 2004.