Baldur Ágústsson:

OPIÐ BRÉF TIL FORSÆTISRÁÐHERRA

 

Forsætisráðherra,

 

á undanförnum tólf mánuðum hef ég undirritaður skrifað yður allmörg bréf, en engin svör fengið. Á þessum erfiðu tímum í þjóðfélaginu hefur undirritaður boðið aðstoð, spurt spurninga og óskað upplýsinga – allt án árangurs eða svars. Fullvíst má telja að fjöldi einstaklinga, félaga og fyrirtækja hafi sömu sögu að segja. Vitað er að ráðherrann hefur á þessum tíma oft verið önnum kafinn en á móti kemur að hann hefur aðstoðarfólk. Tæpast verður önnum því um kennt. Hvað veldur veit ráðh. sjálfur en undirritaður leyfir sér að vísa til laga um upplýsingaskyldu stjórnvalda Undirritaður setur nú fram hér í Mbl., í opnu bréfi, spurningar og óskir um upplýsingar sem stór hluti þjóðarinnar vill fá. Svara, innan ramma fyrrnefndra laga, er óskað í sama blaði.

 

Lagaleg skylda ?

 

Hér er vísað til kröfu annarra þjóða um greiðslu svonefndra Icesave skulda.

 

Allan þann tíma sem þetta mál hefur staðið yfir hefur vaxandi fjöldi innlendra og erlendra sérfræðinga lýst því yfir að skylda íslendinga hafi eingöngu verið að stofna tryggingasjóði er lúta reglum ESB. Þetta hafi verið verið gert og því sé ábyrgð íslendinga nú engin. Þessir sérfræðingar hafa komið frá ýmsum löndum og úr mörgum fræðigreinum er mál af þessu tagi snerta.

 

Einn þeirra, bandarískur prófessor Michael Hudson, hefur kallað samningagerð stjórnvalda við erlend ríki “ótrúlegt afsal á fullveldi” og hefur áhyggjur af sjálfstæði Íslands (Silfur Egils & DV.IS 19.6.2009). Fjölmargir íslenskir fræðimenn hér og erlendis - eru á sama máli. Loks má nefna evrópumanninn Alain Lipietz - einn þeirra sem sömdu reglur ESB um fjármálamarkaði – en hann segir um þetta: “Íslendingar skulda ekkert” (Mbl. 12.2.2010)

 

Undirritaður spyr: Er forsætisráðherra fullviss um að lagaleg ábyrgð íslendinga sé til staðar og slík að um málið þurfi að semja ? Jafnframt óskast þær lagagreinar, á frummálinu og íslensku, settar í svar ráðherra sem að hans mati staðfesta ábyrgðina og réttlæta tilraunir ríkistjórnarinnar til samninga við hina erlendu kröfuhafa.

 

Undirritaður spyr: Hefur ríkisstjórn Íslands einhverjar aðrar ástæður til samningaumleitana en lagalegar – og þá hverjar ?

 

Undirritaður spyr: Eru nokkur tengsl – bein eða óbein – milli icesave málsins og áhuga stjórnarinnar á að innlima Ísland í ESB ?

 

Kúba norðursins:

 

Stjórnin og þingmenn hennar hafa oft látið heyrast að semjist ekki um icesave verði Ísland “Kúba norðursins”. Gefin er í skyn útilokun á samstarfi íslendinga við aðrar þjóðir, fátækt, einangrun og örbirgð.

 

Undirritaður spyr: Nákvæmlega hvernig sér ríkisstjórnin fyrir sér að þetta muni gerast ?

 

Undirritaður spyr: Hafa einhverjar þjóðir hótað að einangra okkur svo hætta stafi af, eða að beita sér með þeim hætti að fátækt og örbirgð gangi yfir íslenska þjóð ? Óskað er eftir lista yfir þessar þjóðir svo og skjölum – á frummáli og íslensku - er sanna þessar hótanir.

 

Kostnaður ?

 

Ljóst er að þó nokkur kostnaður hefur þegar hlotist af samningaumleitunum vegna icesave. Hér koma a.m.k. til ferðalög, símakostnaður, þýðingar, yfirvinna starfsmanna, aðkeypt þjónusta erlendra og íslenskra sérfræðinga og fundasetur.

 

Undirritaður spyr: Hversu mikill er þessi kostnaður orðinn alls ? Óskað er eftir sundurliðun skv. ofannefndum þáttum og öðrum er málið snerta.

 

Undirritaður spyr: Í ljósi þess að reikningur fyrir þjónustu bresku lögfræðistofunnar Mishchon de Reya fyrr í vetur var u.þ.b. tífalt hærri en búist hafði verið við, eða 25 milljónir, óskast upplýsingar um hvernig samið hefur verið við aðra erlenda aðila um ráðgjafarstörf þ.m.t. kanadíska aðila sem fréttir hermdu að fengnir hefðu verið til starfa fyrr í vetur. Taxtar og annar kostnaður óskast sundurliðaður í íslenskum krónum og viðmiðungargengis getið.

 

Umboð ?

 

Eftir að þjóðin hafnaði icesave samningunum, hefur ríkistjórnin og sendimenn hennar haldið áfram samningaumleitunum við hina erlendu kröfuhafa.

 

Undirritaður spyr: Telur forsætisráðherra að hann eða ríkisstjórnin hafi til þess umboð ? Og þá þá frá hverjum ? Eða telur forsætisráðherra sig ekki þurfa umboð, td. frá alþingi. Óskað er eftir rökstuðningi við svar ráðherra.

 

Verkefni hér heima.

 

Umræða almennings á Íslandi er mikið á þá lund að ekki sé nóg gert fyrir íslendinga sjálfa. Um það vitna að vissu marki lokanir fyrirtækja, uppboð á húsnæði fjölskyldna, atvinnuleysi, landflótti, bótalækkanir og skattahækkanir.

 

Undirritaður spyr: Telur ráðherra að vinna við icesave samninga hafi tafið eða dregið úr þeim úrræðum sem hægt væri að bjóða íslendingum ?

 

Undirritaður spyr: Telur ráðherra að nú hafi allt verið gert sem hægt er til hjálpar heimilum og fyrirtækjum ? Tímasetninga og lýsinga á hinum ýmsu hjálpar-úrræðum er óskað – bæði liðnum og þess sem fyrirhugað kann að vera.

 

Undirritaður spyr: Er það á stefnuskrá ríkisstjórnar og alþingis að leggja niður verðtryggingu á Ísland, og þá hvenær ?

 

Undirritaður spyr: Hafa einhverjum fyrirtækjum verið gefnar eftir skuldir, beint eða óbeint á kostnað ríkissjóðs sl. 2 ár – og þá með hvaða hætti ? Nöfn og dags. óskast.

 

Baldur Ágústsson