TRYGGVI HJALTASON:

 

HERVÆÐING EVRÓPUSAMBANDSINS.

 

\"Evrópusambandið hefur verið í farvegi hervæðingar í nokkurn tíma. Umræða um ESB hér á landi þarf að taka mið af þessari þróun.\"

 

Umræðan um hernaðarlegt eðli Evrópusambandsins er lífleg þessa daganna og birtist grein eftir Semu Erlu Serdaroglu í Morgunblaðinu hinn 14. júlí sem ber heitið „ESB – hernaðar- eða mannúðarsamband?“ þar sem lítið var gert úr hervæðingu Evrópusambandsins og talið ólíklegt að sameining herafla ESB-ríkja myndi nokkurn tímann eiga sér stað. Evrópusambandið (ESB) hefur hins vegar verið í farvegi hervæðingar í dágóðan tíma. Miðað við eðli sambandsins og vilja þess til aukins áhrifamáttar í heimsmálum kemur sú þróun sem farið verður yfir hér að neðan ekki á óvart.

Áhrifamiklir menn innan ESB hafa margsinnis viðrað opinberlega þá hugmynd að sambandið kæmi sér upp evrópskum her. Gott dæmi er yfirlýsing Franks-Walters Steinmeier, þá utanríkisráðherra Þýskalands, um að stefna ætti að sameiningu herafla ESB-ríkja í einn Evrópuher. Rökstuðningur Walters var sá að slíkur her yrði sá „annar öflugasti í heiminum“ og þar af leiðandi öflugt „pólitískt stjórntæki“. En kanslari Þýskalands Angela Merkel, forseti Frakklands Nicolas Sarkozy, utanríkisráðherra Ítalíu Franco Frattini og fyrrum forsætisráðherra Belgíu Guy Verhofstadt hafa öll opinberlega lýst yfir áhuga á sameiginlegri varnarstefnu fyrir ESB.

Frakkar hafa stungið upp á sameiginlegri flugmóðurskipadeild ESB og var hvítskýrsla Frakka um varnarmál mjög skýr í þeim efnum að stefna ætti á sameiginlegar Evrópuhersveitir innan ESB. Þá hafa Frakkar einnig rætt mikilvægi þess að sameina vopnaiðnað Evrópuríkja. Loks eru í gangi mörg verkefni sem snúa að þessari þróun og má þar m.a. benda á evrópsku þungalyftu-áætlunina (European heavy lift program). Skýrasta dæmið um þá undirbúningsvinnu sem er nú í fullum gangi við hervæðingu ESB er þó vafalaust Lissabon-sáttmálinn. Greinar 27 og 28 í sáttmálanum leggja grundvöll að því að koma á fót Evrópuher. Þá leggur Lissabon-sáttmálinn einnig línurnar að þróun sameiginlegrar varnarmálastefnu fyrir Evrópusambandið.

 

Í dag kristallast þessar greinar í 42. grein sáttmálans um Evrópusambandið (Treaty of European Union). Hér hafa aðeins verið tínd til nokkur dæmi er snúa að hervæðingu Evrópusambandsins. Í dag samanstendur ESB af 27 aðildarríkjum sem árið 2007 vörðu samanlagt 308 milljörðum dollara í varnarmál skv. tölum frá Evrópsku varnarmálastofnuninni. Á eftir Bandaríkjunum eru þetta næsthæstu útgjöld í heiminum til hernaðarmála en þrátt fyrir þetta ber Rússland meiri hernaðarþunga á alþjóðavettvangi heldur en ESB. Ein lykilástæða þess er sú að framlögum til hernaðarmála í sambandinu er skipt á 27 vegu sem eru hvorki skipulögð né undirbúin sameiginlega nema að örlitlu leyti. Þetta er veikleiki fyrir Evrópu þegar kemur að varnarmálum og þýðir að samlegðaráhrif allra þessa útgjalda verða í raun í lágmarki og er mikill fjölverknaður stundaður í evrópskum varnarmálum. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt fyrir samband eins og Evrópusambandið að stefna að heildstæðari og sameiginlegri hernaðaráætlun sem kæmi m.a. fram í sameiginlegum her.

 

Grunnvinnan fyrir þetta ferli er langt á veg komin. Grein Semu fór ekki yfir þá þróun sem bent er á hér að ofan en tók hins vegar fram að ESB væri t.d. öflugt í þróunarverkefnum. Það má vel vera en það breytir því ekki að ESB er í sinni núverandi mynd að stefna að því að gera sig meira gildandi á hernaðarsviðinu. Þess vegna á undirritaður erfitt með að skilja hvernig hægt er að halda öðru fram þegar fyrirliggjandi gögn eru skoðuð.

 

Íslendingar munu vissulega þurfa að taka afstöðu til þessa málaflokks eins og annarra þegar kemur að því að vega og meta kosti og galla Evrópusambandsaðildar.

 

Höfundur er öryggismála- og greiningarfræðingur.

Eftir Tryggva Hjaltason