STYRMIR GUNNARSSON

 

HJÁLPUÐU ÞEIR OKKUR? NEI, þeir töluðu . . .

 

Á fundi Norðurlandaráðs, sem hér hefur staðið, hafa forsætisráðherrar Svía og Noregs haft orð á því hvað Íslendingar hafi náð miklum árangri í uppbyggingu eftir hrun og hvað Norðurlandaþjóðirnar hafi hjálpað okkur mikið.

 

Er það svo?

 

Hverjir gengu einna harðast fram í því á eftir Bretum og Hollendingum að halda því fram, að okkur Íslendingum bæri skylda til skv. EES-samningunum að greiða Icesave? Það voru ekki sízt Danir og Svíar.

 

Í nóvembermánuði 2008 áttu íslenzkir sendimenn fund með fulltrúum Dana og Svía hjá Evrópusambandinu, sem töluðu með augljósum hætti niður til Íslendinganna. Í skýrslu þeirra um fundinn sagði m.a.: „

 

.....fyrst yrðum við að viðurkenna greiðsluskyldu okkar. Þetta hefði mikil neikvæð áhrif á trúverðugleika okkar nú og til framtíðar. Sagði danski sendiherrann, að þeir væru að gefa okkur ráð, sem við ættum að fara eftir svo að við gætum haldið andlitinu. Það væri bezt fyrir Ísland.“

 

Í desember sama ár sagði Jan Henriksson, Svíi, sem þá átti sæti í stjórn Alþjóða gjaldeyrissjóðsins fyrir hönd Norðurlanda, að Norðurlöndin mundu engin lán veita til Íslendinga nema þeir viðurkenndu skyldu sína til að borga Icesave.

 

Það hefði verið gagnlegt ef sænski forsætisráðherrann hefði notað tækifærið og útskýrt fyrir okkur Íslendingum hvers vegna Svíar gerðu þessar kröfur á hendur okkur í máli, sem sjálf framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur viðurkennt að við bárum enga ábyrgð á.

 

Ein Norðurlandaþjóðanna veitti okkur ótvíræðan stuðning. Sú fátækasta (fyrir utan okkur Íslendinga). Færeyingar sýndu okkur einstæðan drengskap. En það sama verður ekki sagt um Svía og Dani. Norðmenn fóru með löndum en hölluðu sér frekar í hina áttina en til okkar.

 

Hvernig stendur á því, að enginn íslenzkur þingmaður á þingi Norðurlandaráðs hafði dug í sér til þess að vekja athygli á þessum staðreyndum?

 

Halda hinar Norðurlandaþjóðirnar virkilega að þetta sé gleymt? Halda þær að afstaða þeirra muni engin áhrif hafa á samstarf okkar við þær á næstu árum? Það er mikill misskilningur.

 

Eða það skyldi maður ætla.

 

Er kannski enginn þingmaður á Alþingi, sem er tilbúinn til að standa upp á alþjóða vettvangi og verja málsstað sinnar eigin þjóðar?

 

Styrmir Gunnarsson

Leturbr. og myndaval, ritstj.