Hjörleifur Guttormsson

 

Frá því að grein mín með gagnrýni á Schengen-aðild Íslands birtist í Morgunblaðinu 23. apríl sl. hefur margt komið fram sem rennir enn frekar stoðum undir að Íslendingar eigi sem fyrst að losa sig úr viðjum Schengen-aðildar. Æ fleiri eru að átta sig á að eftirlitslaus umferð yfir landamæri á Schengen-svæðinu er himnasending fyrir skipulögð glæpagengi sem hagnast ótæpilega á eiturlyfjasmygli, þjófnaði og mansali. Hér verða rakin dæmi um aðvörunarorð sem borist hafa nýverið úr ýmsum áttum en sem lítið heyrist um í íslenskum fjölmiðlum.

 

Norðurlönd og Eystrasaltsríkin

 

Fyrir viku sendi Arne Johannessen formaður Landssambands lögreglumanna í Noregi og varaformaður Sambands norrænna lögreglumanna opið bréf til Knut Storberget, dómsmálaráðherra Noregs með kröfu um að tekin verði hið fyrsta upp vegabréfaskoðun gagnvart Eystrasaltsríkjunum. Í erindi sínu segir þessi trúnaðarmaður norrænna lögregluþjóna að 80% utanaðkomandi glæpastarfsemi á Norðurlöndum eigi upptök sín í þessum löndum. Geri yfirvöld í Eystrasaltsríkjum ekki gangskör að því að uppræta hjá sér glæpagengin hljóti að verða að endurskoða Schengen-sáttmálann frá grunni. Arne Johannessen er þekktur fyrir einarðan málflutning og hann er eins og norski dómsmálaráðherrann félagi í Verkamannaflokknum.

 

Hvað segir Europol um Balkanríkin?

 

Miðvikudaginn 4. maí sendi Europol, lögreglustofnun ESB, frá sér skýrslu um skipulagða glæpastarfsemi með sértöku tilliti til fyrirhugaðrar aðildar Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen. Sem flestir ættu að kynna sér þessa skýrslu Europol sem er vægast sagt afhjúpandi fyrir afleiðingar þess að afnema landmæraeftirlit. Þar er rakið hvernig þrælskipulagðir glæpahópar nýta sér óhindrað ferðafrelsi innan Schengen-svæðisins í samspili við frjálst vöruflæði og samskiptamöguleika á Netinu.

 

Balkanlöndin eru í sívaxandi mæli notuð til eiturlyfjasmygls í stórum stíl, m.a. á kókaíni frá Rómönsku-Ameríku. Aðild Búlgaríu og Rúmeníu að Schengen myndi stækka til muna landamæri svæðisins í austurátt með auknum möguleikum á hverskyns smygli og mansali. Tengsl á milli glæpahópa hafa styrkst til muna að undanförnu og þeir nýta sér allar finnanlegar smugur í auðgunarskyni.

 

ESB í miklum vandræðum

 

Í vikunni brást framkvæmdastjórn ESB við sívaxandi gagnrýni innan aðildarríkja á Schengen-kerfið vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og flóttamannastraums. Sænski kommissarinn Cecilia Malmström sendi frá sér skýrslu 4. maí þar sem settar eru fram hugmyndir um viðbrögð við kröfum margra um breytingar á Schengen-samningnum. Samkvæmt gildandi ákvæðum geta aðildarríkin aðeins gripið til eftirlits á innri landamærum ef mikil hætta er talin á ógnun við almannareglu (public order). Aðeins örfá dæmi eru um slík inngrip og framkvæmdastjórn ESB reynir að halda í slíkt sem algjöra undantekningu og að tilskilið sé samþykki hennar fyrirfram. Jafnframt er rætt um að efla gæslu á ytri landamærum svæðisins og sá möguleiki nefndur að koma upp blandaðri löggæslu manna frá ýmsum aðildarríkjum. Gert er ráð fyrir að afstaða verði tekin til þessara tillagna á leiðtogafundi ESB í lok næsta mánaðar.

 

Hver er afstaða íslenskra stjórnvalda?

 

Það voru mikil mistök frá upphafi að binda Ísland við Schengen-samninginn, ekki síst eftir að hann varð órjúfanlegur hluti af ESB. Sem eyland höfum við ekkert nema skaða af því að bindast þessu regluverki meginlandsríkja og halda hér uppi landamæravörslu fyrir Evrópusambandið. Aðvaranir og kröfur Sambands norrænna lögregluþjóna eru orð í tíma töluð og er þó aðstaða Skandínava með samliggjandi landamæri önnur en okkar. Íslensk stjórnvöld geta ekki dregið það lengur að kveða upp úr um afstöðu sína til Schengen-aðildar. Þar stendur valið milli öryggishagsmuna íslensks almennings eða að halda áfram sem fjarstýrður tengivagn ESB-kerfisins.

 

Hjörleifur Guttormsson, náttúrufræðingur.