Eftir Sigurð Oddsson:

 

Þeir sem komnir eru yfir miðjan aldur muna þá tíð er verðgildi krónu lækkaði stöðugt um nokkur % á mánuði. Það var kallað gengissig. Innflutt vara hækkaði með hverri nýrri sendingu. Þeir sem stóðu t.d. í byggingaframkvæmdum leituðust við að kaupa strax eftir útborgun. Ástandið fór stöðugt versnandi fram að þjóðarsátt. Þá tók við tímabil, sem fólk gat sparað og gert áætlanir fram í tímann.

 

Bankarnir eyðilögðu þjóðarsáttina með sömu okurvöxtum og fyrir sátt. Líka eftir að búið var að ná tökum á verðbólgunni. Má segja að bankarnir hafi ekki tekið þátt í sáttinni, sem var réttlætt með því, að þeir hefðu tapað svo miklu á útlánum fyrir þjóðarsátt. Tapið var mest á fyrirtækjum, sem þeir settu sjálfir á hausinn með okurlánum. Stjórnvöld vildu fylgja þjóðarsátt eftir með því að selja banka útlendingum og ganga í ESB. Almenningur vonaðist til, að með sölunni yrðu vextir eins og í nágrannalöndunum. Bankarnir voru loks seldir innfæddum fjármálasnillingum, sem svo keyptu banka í útlöndum og tóku lán í gjaldeyri, sem þeir lánuðu á Íslandi með hærri vöxtum. Það fór, eins og það fór. Nú eru bankarnir komnir í eigu útlendra brasksjóða og eflaust margir innlendir hrægammar meðal hluthafa.

 

Í dag búa launþegar við sama ástand og var fyrir þjóðarsátt. Innlánsvextir eru margfalt lægri en útláns-okurvextir. Bankainnstæður rýrna og í bónus er fjármagnstekjuskattur á vexti. Mest fæst fyrir krónuna með því að eyða henni strax og er sparnaður launþega í samræmi við það.

 

Fyrir kosningar var yfirlýst stefna þeirra sem stóðu að fyrri stjórn að afnema verðtrygginguna. Heilt kjörtímabil fór að mestu í tilraunir til að nauðga þjóðinni í ESB og borga Icesave. Samfylkingin trúir enn, að allt lagist með inngöngu í ESB og krónunni verði kastað fyrir evru. Í því felst að við getum ekki stjórnað okkur sjálf og værum betur sett, sem angi af ESB fyrst við vorum svo vitlaus að slíta sambandinu við Dani.

 

Nýja stjórnin vill hætta með verðtryggingu og halda krónunni. Ýmsir aðrir telja krónuna bölvald. Kenna henni um illa stjórnun efnahagsmála síðustu áratugina og vilja taka upp einhverja aðra mynt. Seðlabankinn rannsakaði hvað hentaði okkar best og gaf út mikla ritgerð. Gallinn var að bankinn gaf sér að niðurstaðan væri evra, áður en lagt var upp í leiðangurinn. Ekki er mikið gefandi fyrir slík vísindi.

 

Ég hefi oft hugsað þessi mál og sé lausn, sem tryggir verðgildi krónu án þess að eyða henni strax eftir útborgun. Það er einfaldlega þannig að launþegum gefist kostur á að fá hluta launa sinna greidd í $ eða inn á gjaldeyrisreikning. Á meðan við búm við gjaldeyrishöft væru úttektir í íslenskum krónum á því gengi sem er við úttekt, t.d. til greiðslu eða afborgunar á láni. Við þetta myndi sparnaður í landinu aukast og þrýstingur á að halda verðbólgu í skefjum margfaldast. Seðlabanki yrði að lækka stýrivexti til samræmis við það, sem er í öðrum löndum. Hjól atvinnulífsins færu þá að snúast til aukins hagvaxtar og kaupmáttar. Við afléttingu gjaldeyrishafta myndum við halda óbreyttu kerfi að því leyti, að í verslunum mætti greiða með krónum eða í erlendri mynt líkt og er í Sviss. Þar má borga í verslunum og veitingahúsum, hvort heldur sem er í svissneskum frönkum eða evrum.

 

Sparifjáreigendur réðu í hvaða myntum þeir geymdu sparnað sinn. Þannig væri tryggt að þeir yrðu ekki rændir með breytingum á gengi krónu.

Höfundur er verkfræðingur.