Æviágrip

Baldur Ágústsson er fæddur í Reykjavík 16. september 1944. Hann telst því Reykvíkingur, en rétt eins og flestir borgarbúar rekur hann ættir sínar vítt og breitt um landið. Faðir Baldurs var Ágúst Sigurðsson, kennari, námsbókahöfundur, upphafsmaður fullorðinsfræðslu á Íslandi, stofnandi og skólastjóri Námsflokka Reykjavíkur. Hann var frá kirkjustaðnum Lundi í Lundareykjardal í Borgarfirði þar sem faðir hans Sr. Sigurður Jónsson var prestur eftir að hafa áður þjónað að Þönglabakka í Fjörðum við Skjálfanda.

Móðir Baldurs hét Magga Alda Eiríksdóttir, Einarssonar bónda á
Vatnsleysuströnd og í Réttarholti skammt austan Reykjavíkur. Hún fórst í hörmulegu slysi þegar Baldur var þriggja ára og hún sjálf aðeins 24 ára gömul. Faðir Baldurs kvæntist aftur og urðu systkinin alls fimm. Seinni kona hans er Pálína Jónsdóttir fyrrum kennari og leiðsögumaður. Hún hefur setið í stjórn og starfað mikið fyrir samtök eldri borgara.

Baldur hefur hin síðari ár stundað fasteignaviðskipti í Bretlandi„Að móðurmissinum frátöldum, átti ég góða æsku og unglingsár. Framan af var ég í sveit á sumrin en síðar vann ég milli skólavetra hefðbundin sumarstörf svo sem byggingavinnu, í 

frystihúsi og var til sjós. Á þessum tíma og fram undir tvítugt starfaði ég mikið í skátahreyfingunni. Síðast sem erindreki Bandalags íslenskra skáta. Þar kynntist ég fyrri konu minni Björk og áttum við saman eina dóttur, Dögg, sem nú er rétt þrítug, býr í London og rekur þar eigið fyrirtæki.

Að loknu Landsprófi fór ég í Loftskeytaskólann og útskrifaðist þaðan 1963, 19 ára gamall. Ég var loftskeytamaður á skipum í nokkra mánuði en réðist síðan til Flugmálastjórnar Íslands þar sem ég lærði flugumferðarstjórn, bæði hér heima og í Bandaríkjunum. Ég vann hjá stofnuninni í rúm tuttugu ár. Síðustu sjö árin sem varðstjóri í aðflugs- og vallarstjórn Reykjavíkurflugvallar. Eins og flestir aðrir vaktavinnumenn á þeim tíma þurfti ég á aukavinnu að halda og varð það til þess að ég stofnaði eigið fyrirtæki, fyrstu íslensku öryggisþjónustuna, Vara. 

Vari gekk vel og störfuðu um 30 manns hjá fyrirtækinu þegar mest var.

Við fylgdumst vel með tækniþróun og innleiddum margar nýjungar þ.á.m. neyðarhnappa fyrir heimabúandi sjúklinga. Starfið hjá Vara var lærdómsríkt.
Eigin rekstur og sú ábyrgð sem slíku fylgir er alltaf þroskandi. Nám í öryggisfræðum og síðan mikil ferðalög og samskipti við erlenda framleiðendur öryggistækja reyndu á viðskiptavit mitt, tækniþekkingu og málakunnáttu. Ferðalögin juku víðsýni mína og kynntu mig fyrir nýjum menningarheimum í vestri og austri. Síðast, en ekki síst, kynntist ég fjölda góðra manna um allt land sem sýndu þessum unga manni með nýstárlegar hugmyndir mikinn skilning og traust sem ég verð alltaf þakklátur fyrir.

Þegar ég lít yfir farinn veg, er ég ánægður með þá reynslu og þroska sem hin ýmsu störf hafa fært mér. Ég fékk að spreyta mig á undirstöðuatvinnuvegum til sjós og lands. Ég var opinber starfsmaður í krefjandi ábyrgðarstarfi í tvo áratugi og stofnaði og rak í aldarfjórðung farsælt fyrirtæki þar sem ég þurfti að standa á eigin fótum. Þannig hef ég verið opinber starfsmaður og starfað í einkageiranum - bæði verið launþegi og atvinnuveitandi.

Í allmörg ár bjó ég erlendis og það var góður skóli. Ég kynntist þjóð- og stjórn-málum og rak viðskipti með fasteignir. Fyrir mig hefur verið athyglisvert að búa erlendis og fylgjast með breskum þjóðmálum. Hvaða vandamál koma upp þegar þjóðfélag þróast, og hvernig reynt hefur verið að leysa þau, og hvaða lærdóm má draga af því hvernig til tókst í hinum ýmsu tilfellum. Þar hefur enn aukist víðsýni mín og bæst í reynslusjóðinn.

Ég hef lengi haft áhuga á þjóðfélagsmálum. Ég hef hins vegar aldrei verið í stjórnmálaflokki heldur reynt að meta hvert mál út frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Ég trúi því einlægt að ef við erum öll fyrst og fremst í þjóðfélaginu og horfum meira á hagsmuni heildarinnar en sérhagsmunahópa eða stjórnmálaafla, þá getum við byggt upp betra, öruggara og traustara þjóðfélag, öllum til heilla. Ég er hér ekki að gera lítið úr stjórnmálaflokkum - síður en svo. Stjórnmálaflokkar hafa sitt hlutverk, stórt hlutverk í lýðræðislegu þjóðfélagi eins og við höfum valið okkur - og ábyrgð þeirra er mikil. En sem einstaklingar hlýtur hollusta okkar að vera hvert hjá öðru sem manneskjum, hjá bræðrum okkar og systrum í víðum skilningi. Ísland og samhygð okkar sem þjóð er það besta sem við eigum.