Forsetakosningar 2004

Forsetakosningar fóru fram þ. 26. júní. Þrír voru í framboði; Ástþór Magnússon, undirritaður Baldur Ágústsson og sitjandi forseti, Ólafur Ragnar Grímsson.
Kosningarnar einnkenndust af dræmri kjörsókn og því hve margir skiluðu auðu.

Frambjóðendur í sjónvarpi kvöldið fyrir kosningar


Kosningabaráttan hvarf að miklu leiti í skuggann af umræðum um meintan ágreining milli forseta og stjórnmálamanna og fjarveru hans á sérstökum fundi vegna 100 ára afmælis heimastjórnar. Þá sleppti forseti því að fara til Danmerkur í konunglegt brúðkaup vegna “nauðsynlegrar veru á Íslandi”, en Alþingi var þá að fjalla um frumvarp ríkisstjórnarinnar til fjölmiðlalaga. Alþingi samþykkti frumvarpið en forseti synjað hinum nýju lögum staðfestingar. Orsakaði það mikið uppnám og umræður um hvernig standa skyldi að stjórnarskrárbundinni þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Allt dró þetta úr umræðum um kosningarnar sjálfar sem voru á næsta leiti. Ekki bætti það úr að forseti gaf ekki kost á sér í þeim umræðum sem fjölmiðlar þó stóðu fyrir, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir Ástþórs Magnússonar og óskir fjölmiðlanna sjálfra - ef frá eru taldir tveir sjónvarpsþættir kvöldið fyrir kosningar.

Ólafur Ragnar Grímsson lagði því ekki fram stefnu eða skoðanir um embætti forseta, vikurnar fyrir kosningar, en kvað þjóðina þekkja verk sín. Hann kvaðst ekki hafa haft sig í frammi til að gefa mótframbjóðendum sínum betri kost á að kynna sig.

Ástþór Magnússon setti, sem fyrr, friðarmál á oddinn og vildi að aðsetur alþjóðlegs friðargæsluliðs yrði á Keflavíkurflugvelli. Það sagði hann mundu meira en bæta upp það atvinnuleysi sem fyrirsjáanlegt væri á Suðurnesjum þegar bandaríski herinn færi þaðan. Þá lýsti hann því yfir að Ólafur Ragnar hefði svikið gefin loforð um að láta til sín taka á sviði heimsfriðar.

Merki og kjörorð framboðsins.


Þegar tilkynnti ég ákvörðun mína um að fara fram lýsti ég þeirri skoðun minni að brýnt væri að hefja embætti forseta til fyrri virðingar sem hefði glatast í átökum pólitískra andstæðinga. Embættið væri eign þjóðarinnar en ekki þeirra manna sem í því sætu á hverjum tíma. Þá kvað ég forseta hafa verk að vinna hér heima. Verk sem væru brýn og hægt væri að vinna án þess að fara inn á verksvið ríkistjórnar og Alþingis.

Markmið mín með forsetaframboðinu voru meðal annars:

... að endurvekja virðinguna fyrir embætti forseta Íslands.

... að vera sameiningartákn þjóðarinnar allrar.

... að styðja við markaðssókn Íslendinga erlendis.

... að vekja athygli á skuldasöfnun ungs fólks og hvetja til kennslu í fjármálum.

... að beita mér fyrir bættri þjónustu við sjúka, aldraða og öryrkja.

... að styðja við baráttuna gegn fíkniefnum og glæpum.

... að efla vináttutengsl við aðrar þjóðir og auka samskipti við þær á sviði menningarmála.

... að efla virðingu fyrir landinu og stuðla að skynsamlegri nýtingu náttúruauðlinda.

... að reka forsetaembættið innan ramma fjárlaga.


Að kosningum loknum er mér efst í huga þakklæti til allra þeirra sem studdu framboð mitt með ráðum og dáð. Ég er þakklátur og snortinn yfir því trausti sem meira en þrettán þúsund kjósendur sýndu mér. Af því má ótvírætt ráða að stór hluti þjóðarinnar vill sjá breytingar og telur að í embætti forseta eigi að sitja einstaklingur sem þar vill leggja hönd á plóg. Einstaklingur sem ekki á að baki feril í stjórnmálum eða tengsl við þau og hefur því hefur engum greiða að gjalda eða harma að hefna.

 

Kær kveðja,
Baldur Ágústsson