AF FORSETA
LENGI hef ég verið þeirrar skoðunar að óheppilegt sé að í embætti forseta Íslands veljist einstaklingur úr röðum stjórnmálamanna. Við kjósum forseta í beinni kosningu; ekki eftir kjördæmum, ekki eftir flokkslistum heldur sem eitt kjördæmi, ein þjóð. Í embættið þarf því að veljast einstaklingur sem við getum öll virt og litið upp til hvar í flokki sem við annars stöndum. Forseti þarf að vera sjálfstæður og yfir flokkapólitík hafinn. Hann má ekki vera bundinn af vináttu samherja úr einum flokki eða mótherjum úr öðrum sem hann hefur eldað grátt silfur við á sviði stjórnmálanna. Hvorttveggja er hefting. Greiða þarf að gjalda, harma að hefna.
Gæslumaður lýðræðisins
Oft er sagt að forseti sé valdalaus og fyrst og fremst til skrauts. Látið hefur verið að því liggja að embættið megi leggja niður og skipta störfum forsetans á milli td. forsætisráðherra og forseta Alþingis. Það yrði mikið ógæfuspor.
Forseti er hluti af sögu okkar. Hann er ópólitískt sameiningartákn sem við eigum að geta litið til og treyst þegar okkur finnst afgreiðsla og ákvarðanataka þings og ríkisstjórnar ráðast af sérhagsmunum frekar en þörfum þjóðarinnar. Meðal verka forseta er að staðfesta ný lög frá Alþingi. Sjái hann meinbug á þeim eða telji að þau þjóni ekki hagsmunum heildarinnar getur hann neitað að staðfesta þau, sem leiðir til þjóðaratkvæðagreiðslu. Sama gildir ef hann telur hugsanlegt að meirihluti kjósenda sé andvígur hinum nýju lögum. Forseti er þannig "gæslumaður lýðræðisins", nokkurskonar öryggisventill eins og það hefur stundum verið kallað. Verði staðfesting laga sett í hendur forsætisráðherra eða forseta Alþingis er í raun enginn öryggisventill lengur. Þeir báðir eru nær undantekningarlaust oddamenn þingmeirihlutans sjálfs.
Við, þjóðin öll, skiptumst stundum í hópa þegar stórmál eru uppi s.s. ákveðnar framkvæmdir, byggðamál, náttúruvernd og fiskveiðistjórnun. Þegar svo ber við er ekki aðeins æskilegt heldur beinlínis nauðsynlegt að hafa forseta sem ekki er bundinn af pólitískri fortíð. Forseta sem ekki er undir flokksaga og ekki hefur harma að hefna eða greiða að gjalda.
Forseta sem við öll vitum að er frjáls að því að fylgja sannfæringu sinni með heill þjóðarinnar eina að leiðarljósi. Frjáls að fela þjóðinni allri að taka ákvörðun um lög sem hafa áhrif á framtíð okkar og lífshætti.
Virðing fótum troðin
Í tíð núverandi forseta hefur komið fram og kristallast sá vandi sem fylgir setu stjórnmálamanns að Bessastöðum. Leynt og ljóst hafa pólitískir andstæðingar forsetans dregið úr virðingu hans og um leið embættisins sjálfs. Þá hefur hann sjálfur gefið höggstað á sér.
Skrifstofa forseta var með hraði flutt úr stjórnarráðinu og töldu margir að með því væri verið að koma í veg fyrir "sambúðarvanda". Það hefur þó ekki alls kostar tekist eins og sést hefur frá upphafi á orðaskiptum og aðfinnslum sem gengið hafa á víxl - nú síðast vegna ríkisráðsfundar á aldarafmæli heimastjórnar. Hér skal ekki tekin afstaða til þess máls. Ekki sagt hver hefði átt að vera heima, ekki heldur hver átti að tilkynna hverjum hvað, og með hversu miklum fyrirvara. Þetta einstaka tilfelli eru smámunir hjá kjarna málsins: Stjórnmálamenn reyna að koma höggi hver á annan. Það gleymist í hita leiksins að embættin, sem þeir um leið svipta virðingu, eru ekki eign þeirra sjálfra heldur þjóðarinnar. Þeir skipa embættin sem trúnaðarmenn okkar allra.
Skattfrelsi forseta var afnumið. E.t.v. má segja að ekki sé ósanngjarnt að hann greiði skatt eins og aðrir. Laun forseta voru hinsvegar um leið hækkuð sem skattinum nam, svo að í raun greiðir þjóðin skatta hans. Í skattleysi forseta fólst ákveðinn virðingarvottur sem með þessu sjónarspili var af honum tekinn.
Þegar forseti fer úr landi færist vald hans og ábyrgð til forseta Hæstaréttar, forsætisráðherra og forseta Alþingis. Sameiginlega gegna þeir starfi hans sem handhafar forsetavalds. Í tíð fyrri forseta fylgdu handhafarnir þrír forsetanum jafnan til skips eða flugvélar og kvöddu hann. Þetta var sýnileg staðfesting á mikilvægi embættisins og um leið virðingarvottur við forseta sjálfan. Þessi athöfn var snemma í tíð núverandi forseta lögð niður.
Allt þetta og fleira svipað er til þess eins fallið að gera lítið úr sitjandi forseta og draga um leið úr virðingu embættisins. Þeirri virðingu sem ég hygg að við öll viljum geta borið fyrir forsetanum á hverjum tíma. Embætti forseta lýðveldisins er rúið virðingu í skollaleik pólitískra andstæðinga.
Fjármál embættisins fara oft úr böndum svo að til vansa er. Alþingi þarf að tryggja embættinu eðlileg fjárráð og forseti sjálfur að sýna það aðhald sem þarf til að útgjöld séu innan ramma fjárveitingar og rekstur embættisins til fyrirmyndar. Bruðl á ekki heima að Bessastöðum.
Grátt gaman
Í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins er nú skopast að forseta þess.
Í áramótaskaupum, spaugstofum og skrípateikningum eru orð hans og athafnir orðin aðhlátursefni. Það er ekki við hæfi að fjölmiðlar geri slíkt og það er algjörlega óviðunandi að forseti sjálfur, eða aðrir ráðamenn, gefi tilefni til slíks.
Í daglegu vafstri stjórnmálamanna megum við oft horfa upp á valdatafl og hrossakaup. Greiðar eru goldnir og harma hefnt - oft á kostnað þjóðarinnar. En þegar embætti forseta, virðing þess og gildi er gert að peði í hráskinnaleik stjórnmálamanna er of langt gengið. Það er alvörumál sem snertir hjarta þjóðarinnar og kjarna lýðræðisins.
Baldur Ágústsson