NÝLEGA hafa komið út fróðlegar upplýsingar um þróun margskonar fíkniefnanotkunar á Íslandi allt fram til loka sl. árs.

Bak við vandaðar tölfræðilegar upplýsingar og vel upp sett súlurit má glöggt sjá hvernig sá harmleikur sem fíkniefnanotkun er, eykst að umfangi og leggur fleiri og fleiri að velli. Einnig að sífellt lækkar aldur þeirra sem eru í hættu að byrja notkun. Sláandi er, svo aðeins eitt dæmi sé tekið, að frá 1986 til 1995 tengdust 153 sjálfsvíg notkun vímu og fíkniefna - eða helmingur allra sjálfsvíga í landinu á þeim tíma. Ef við gefum okkur að þetta hlutfall hafi staðið í stað - og varla hefur það lækkað - þýðir þetta að í hverjum mánuði - ég endurtek í hverjum mánuði - fellur amk. einn einstaklingur fyrir eigin hendi vegna fíkniefnanotkunar. Auðvelt er að geta sér þess til að hverjum einstaklingi sem kemst á blöð svona skýrslna fylgi 10, 20 eða 30 vinir og ættingjar sem harmi lostnir finna til ótta og vanmáttar. Opinberir fjármunir sem eðlilega er varið í að verjast þessum vágesti eru miklir - en samt of litlir. Stríðið heldur áfram, en er að smátapast. Föllnum fjölgar. Syrgjendahópurinn stækkar.

 

 

Réttum þeim hönd

 

Ég ætla að ganga svo langt að segja: "Þetta þarf ekki að vera svona á Íslandi". Alls ekki. Það er ekkert lögmál að Íslenskt þjóðfélag þurfi að verða eins og sum erlend þar sem menn hafa hreinlega gefist upp við að koma böndum á bölið. Þar sem fíkniefni eru tekin af fíkniefnaskrá og teljast þannig ekki lengur vandamál. Þar sem lögreglan lætur suma fíkniefnasala óáreitta því "annars flytja þeir sig bara um set". Þar sem vændi, rán, morð og margskonar ofbeldi tengt fíkniefnum, telst ekki lengur fréttnæmt.

Eins og ég hef stundum sagt áður í greinum mínum getum við búið okkur og afkomendum okkar betra þjóðfélag þar sem ríkir meira öryggi, samhygð og heilbrigt þjóðarstolt. Þjóðfélag þar sem ótti á ekki heima. Þar sem sjúkir vita að meðferðarstofnanir og lyf eru til reiðu ef þörf er - burtséð frá aldri og efnahag. Þar sem þau ungu vita að þeirra bíða skólar, atvinnutækifæri og fyrirgreiðsla þegar að því kemur að stofna heimili - ekki vonleysi og slæpingur.

 

Mig dreymir um þjóðfélag þar sem foreldrar þurfa ekki að lifa í ótta við fíkniefnasala. Þessa sölumenn dauðans, sem í raun sitja um líf barnanna okkar. Sölumenn, sem í miskunnarlausri gróðafíkn sinni draga einstaklinga og fjölskyldur niður í svartnætti örvæntingar og vonleysis þar sem ungir karlar og konur falla fyrir eitrinu, eða eigin hendi, þegar öll sund virðast lokuð.

 

 

 

 

Glansmyndin

 

Við Íslendingar höfum margt til að vera stolt af. Þetta tal fellur því etv. ekki að þeirri glansmynd sem við gerum okkur stundum af þjóðfélaginu okkar. En þetta er samt hluti af henni. Þetta er bakhliðin á glansmyndinni.

Staðreyndin er að fíkniefni og allt sem þeim fylgir, hefur áhrif á líf okkar, gleði og sorg - hvar sem við annars stöndum í þjóðfélaginu. Hvaða skoðun sem við höfum á fiskveiðistjórnun og landbúnaðarmálum, jarðgöngum og orkuveitum. Fíkniefnavandinn er mál okkar allra. Hann þarf að ræða opinskátt og hispurslaust. Og ekki bara sem tölfræði, súlurit og samanburðarlínur, heldur sem tilfinningar, tár, sársauka, vonleysi, óþarfan ástvinamissi og glötuð mannslíf. Þetta eru þjóðarmein sem varða okkur öll. Þjóðarmein sem grafa um sig og stækka. Enginn veit hver er næstur: Sonur minn, barnabarnið þitt? Bróðir þinn, systir þín?

Hér er ekki verið að sakast við lögreglu, tollgæslu og meðferðaraðila, síður en svo. Þeir gera sitt besta, staðreyndin er bara sú að það dugir ekki til. Og árangur er það sem við þurfum - ekki bara viðleitni.

Það vantar stuðning, fjármagn, skipulag og hvatningu. það vantar ákvörðun. Stórauka þarf samstarf almennings og yfirvalda. Látum lögregluna vita, þegar tilefni er, að við treystum þeim til að taka á einstökum málum. Sem kjósendur þurfum við að segja alþingi og ríkisstjórn umbúðalaust að þetta hafi forgang fram yfir veisluhöld og gæluverkefni. Síðast en ekki síst: Hvetjum ættingja neytendanna til að gefa sig fram, hreinlega segja okkur frá vanlíðan sinni. Sýnum þeim skilning, hlýju og aðstoðum þau eins og við á í hverju tilfelli.

Foreldrar þurfa að eyða meiri tíma með börnum sínum: Sýna þeim ást, umhyggju og aðhald. Byggja upp trúnaðarsamband og gagnkvæmt traust. Opinberlega þarf að auka fræðslu og forvarnir. Það þarf að fjölga meðferðarstofnunum og beita þar nýjustu þekkingu og lyfjum.

Það þarf að stórherða landamæragæslu og þyngja refsingar fyrir innflutning og sölu fíkniefna. Fíkniefni drepa. Innflutning þeirra ber að líta á sem tilraun til manndráps og meðhöndla sem slíkt af lögreglu og dómstólum. Ef það kallar á lagabreytingar á það að fara á forgangslista alþingis - ekki næsta haust, eða þar næsta - heldur strax!

 

 

Við getum þetta

 

Við Íslendingar erum sterk og dugmikil þjóð. Það er fátt sem stoppar okkur þegar við erum einhuga og vinnum saman og erum tilbúnir að fara okkar eigin leiðir. Það höfum við margsýnt. Við getum lyft Grettistökum.

 

Hér er mannauður, hugmyndaauðgi og djörfung sem stórþjóðir gætu verið stoltar af. Beitum þessu öllu í þágu betra mannlífs - fyrir okkur öll. Setjum fíkniefnavandann í forgang, setjum börn okkar og barnabörn í fyrsta sæti. Við erum svo heppin að vera fámenn þjóð með mikla þekkingu, góð innbyrðis tengsl og einhver bestu landamæri í heimi. Setjum metnað okkar og samhygð sem þjóðar í að útrýma ósómanum.

Guð gefur hverju okkar ekki nema nokkra áratugi til að lifa hér á jörðinni. Með hans hjálp skulum við snúa bökum saman og stuðla að öryggi, gleði og hamingju hvers annars. Það er lykillinn að okkar eigin hamingju og velferð. Þegar upp er staðið erum við Íslendingar ein fjölskylda með ein örlög.

 

Baldur Ágústsson

fv. forstjóri og

frambjóðandi í 

forsetakosningum 2004