Kveðja til sjómanna.

Það hefur sjálfsagt ekki farið fram hjá sjómönnum fremur en öðrum að í yfirstandandi umræðu um synjunarvald forseta Íslands, hefur undirritaður líkt þessu ákvæði við björgunarbát. Nauðsynlegt tæki í neyðartilfellum en að öðru leiti ekki til að leika sér að.

 

Nú hef ég í áratugi verið “landkrabbi” og fór því að velta því fyrir mér hversvegna mér hefði dottið í hug þessi samlíking en ekki eitthvað nærtækara - eitthvað í landi.Eftir nokkra umhugsun varð mér ljóst að minn stutti ferill sem sjómaður á enn svo sterk ítök í mér að reynsla mín og hugtök af sjónum eru mér töm á tungu - einhvernveginn jafn sjálfsögð og ég hefði alið þar allan minn aldur. Allt í einu upplifði ég þessa tilfinningu sem mér var sagt frá ungum; Að þegar maður hefur einu sinni unnið á sjó þá kallar hafið alltaf á mann.

 

Sem “messagutti” og síðar loftskeytamaður var ég kannske ekki í erfiðustu verkunum um borð en ég sá vinnuskilyrðin, lenti í vondum veðrum og sá verðmæti dregin úr sjó. Ég minnist þess enn er ég tók á móti afmælisskeyti til gamals háseta og ákvað að klifra niður í lest til að gleðja hann með skeytinu, frekar en að bíða eftir því að hann kæmi upp í messa í kvöldmat. Þarna stóð hann með skóflu í hönd, í fiski og ís uppfyrir hné, í kulda og veltingi - vinnuaðstöðu sem þýddi líklega ekki að bjóða mörgum í landi.

 

Ég var ekki lengi á sjó en síðan hef ég oft hugsað með virðingu til skipsfélaga minna og annarra sjómanna sem við hættur og erfiðar aðstæður draga fisk úr hafi eða flytja björg í bú yfir úfin höf.

 

Ég óska ykkur öllum ánægjulegs sjómannadags og öruggrar heimkomu úr öllum ykkar ferðum.

Án ykkar væri Ísland fátækara.

 

 

Baldur Ágústsson