Í MORGUNBLAÐINU síðastliðinn mánudag er vitnað í ræðu Páls Skúlasonar, rektors Háskóla Íslands, við brottskráningu kandidata frá Háskólanum.

Blaðið hefur eftir rektor að í opinberri umræðu á Íslandi bæri miklu meira á tilraunum til að koma höggi á andstæðing en viðleitni til að skilja hvað fyrir honum vakti. Fleira sagði rektor í þessu sambandi sem vert er að lesa en verður ekki endurtekið hér. Þetta eru athyglisverð orð þegar litið er til væntanlegra forsetakosninga og þjóðaratkvæða-greiðslu um fjölmiðlafrumvarpið. Hafa kjósendur áhuga á að ná

forsetaembættinu út úr því stjórnmálakarpi sem varpað hefur skugga á virðingu þess, eða á að kjósa Ólaf Ragnar vegna þess að hann kom bragði á Davíð með því að synja um staðfestingu fjölmiðlafrum-varpsins? Ætla menn svo að fella frumvarpið vegna innihalds þess, eða bara til að sýna Davíð að hann ræður ekki öllu? - Eða samþykkja það til að koma Ólafi Ragnari í klípu?

 

Rektor Háskólans vekur með orðum sínum athygli á því að okkur kjósendum hættir stundum til að horfa á stjórnmál sem "skemmtiatriði", glímu eða hnefaleika. Hver "malaði" hvern er oft umræðuefnið, ekki um hvað var fjallað og mikilvægi þess fyrir þjóðina. Það gleymist stundum að "boltinn" í kappleik stjórnmálamanna er oft fjöregg þjóðarinnar og hefur djúp áhrif á líf okkar, velgengni og hamingju. Það er eins og við höfum varpað frá okkur ábyrgðinni á eigin lífi.

 

Ég hef undanfarna mánuði átt tal við fjölda manns um stöðu

forsetaembættisins og komandi kosningar. Alltof víða virðast ríkja

viðhorf eins og: "Ólafur virðist eiga þetta, ég sit bara heima." Jafnvel sumir þeirra sem ákveðið vilja breytingu á Bessastöðum eru vondaufir, telja úrslit sjálfgefin - sem þau ekki eru. Þetta er einskonar uppgjöf eða flótti.

 

 

"Við eigum landið"

Árið 1989 þegar kommúnismi Austur-Evrópu riðaði til falls barst þaðan

lítil en athyglisverð saga: Austur-Þjóðverjar, sem höfðu ferðafrelsi innan kommúnistaríkjanna, fréttu að Ungverjar væru hættir að hefta för yfir landamærin til Vestur-Þýskalands - það var komin glufa í járntjaldið! Þúsundum saman lögðu Austur-Þjóðverjar af stað til Ungverjalands til að sleppa yfir til Vestur-Evrópu. Í öllu umferðaröngþveitinu tóku menn tal saman: Af hverju erum við að flýja? Við erum þjóðin - þetta er okkar land.

Bílalestirnar sneru við og héldu til baka. Skömmu síðar féll

Berlínarmúrinn. Austur-Þjóðverjar höfðu endurheimt land sitt og frelsi til að stjórna því á lýðræðislegan, réttlátan hátt.

 

Við Íslendingar eigum líka okkar land og rétt til að velja okkur

lífshætti, stjórnarfar og forystumenn. Við erum þjóðin.

 

Þessi réttur er ekki sjálfgefinn. Við þurfum að halda honum við, ákveða

hvað við viljum og fylgja því eftir, t.d. í kosningum. Ekki sitja heima eða

skila auðu, heldur taka virkan þátt með því að kjósa.

 

 

Við eigum val Í komandi forsetakosningum stendur valið um að draga embættið meira og meira inn í dægurþras stjórnmálanna eða að endurreisa virðingu þess líkt og var á dögum frú Vigdísar og Kristjáns Eldjárns. Virðingu sem byggðist á hógværð og hlutleysi, laust við prjál, sýndarmennsku og pólitíska refskák. Þar sem forsetinn var heilt sameiningartákn allrar þjóðarinnar.

 

Ég býð mig fram í þessum kosningum til að endurheimta virðingu

embættisins og til að styðja gott fólk til góðra verka, s.s. að vinna gegn vaxandi glæpum og fíkniefnaböli, auka umhyggju og virðingu fyrir öldruðum og til að hvetja til lífsmenntunar ungs fólks, t.d. í fjármálum. Allt að sjálfsögðu innan þess ramma sem embættinu er settur og í góðri samvinnu við hlutaðeigandi valdastofnanir og Alþingi. Við þurfum að ganga til bjartrar framtíðar, fylgja breyttum tímum en halda í heiðri gömul gildi - það sem best hefur reynst okkur á liðnum árum.

 

Lesandi góður; í komandi kosningum er ekkert sjálfgefið. Þitt atkvæði

skiptir máli.

 

Endurreisn virðingar forsetaembættisins og þær endurbætur sem við viljum gera á þjóðfélaginu okkar vinnast ekki af einum manni á einum degi. Þær eru ferðalag okkar allra saman í átt til öruggara þjóðfélags og betra lífs.

 

Allar ferðir hefjast á einu skrefi. Ég vil biðja þig að stíga þetta

fyrsta skref með mér á kjördag.

 

 

Baldur Ágústsson