NÝLEGA var gerð skoðanakönnun á því hvernig standa bæri að stjórnun fiskveiða við Ísland. Sýndist sitt hverjum: Vildu sumir halda óbreyttu kerfi, aðrir gefa fiskveiðar frjálsar og enn aðrir hölluðust að ýmsum útfærslum á gömlum aðferðum. Eitt erum við þó öll sammála um – a.m.k. í orði kveðnu – Íslendingar allir eiga fiskinn í sjónum.

 

Skoðanakannanir eru af því góða – og mættu vera fleiri og markvissari – en í leit okkar að lausnum þeirra vandamála sem þær draga fram, hættir okkur til að „ganga afturábak inn í framtíðina“: þ.e. skoða hvað við höfum gert hingað til og reyna að lappa uppá það, laga að hverju því sem ráðamönnum finnst vera réttlátt, sanngjarnt, arð- bært eða atkvæðavænt. Þessi aðferð, ásamt margs- konar sérhagsmunagæslu, stendur stundum í vegi fyrir því að nýjar hugmynd- ir verði til eða séu skoðaðar með opnum huga.

 

Mig langar til að varpa fram minni hugmynd að skiptingu og meðferð þeirrar auðlindar sem fiskimið okkar eru. Ég geri mér ljóst að ýmsir munu finna henni allt til foráttu og jafnvel að sér vegið. Það er að sjálfsögðu ekki tilgangur minn, heldur aðeins að eignarhald þjóðarinnar allrar verði staðfest með ótvíræðum hætti. 

Ég geng út frá þeirri forsendu að þjóðin öll, þeir Íslendingar sem landið byggja á hverjum tíma, eigi beina og jafna hlutdeild í grunnverðmæti sjávarfangs og eigi að njóta hennar jafnt og beint. Einnig, af virðingu og umhyggju fyrir afkomendum okkar, viljum við meðhöndla auðlindina þannig að komandi kynslóðir njóti hennar eftir að við sem nú byggjum landið erum horfin af sjónarsviðinu.

 

Staðan í dag

Sá tími er liðinn að allir megi veiða eins mikið og þeir vilja og geta, eins og tíðkaðist fyrir nokkrum áratugum. Þrátt fyrir að við höfum að mestu bægt erlendum veiðiskipum frá fiskimiðum okkar, stækkað landhelgina og nýtum nú fleiri fisktegundir en áður var – þola fiskistofnar okkar einfaldlega ekki að veiðigeta nútímafiskiskipa Íslendinga sé fullnýtt. Þetta er almennt viðurkennt og fiskveiðistjórnun því talin nauðsynleg.

Ýmis stjórnunarkerfi hafa verið reynd og ýmist tekið mið af eldri aflatölum, byggðasjónarmiðum eða hefðum og „sanngirni“ af hverju því tagi sem hentar að vísa til hverju sinni. 

 

Fiskifræðingar – sem flestir eru varkárir vísindamenn – leggja til aflahámark. Útgerðarmenn – í leit að sem mestum hagnaði – telja oftast að meira megi og þurfi að veiða, enda „sé afkoma atvinnugreinarinnar í húfi“. Lestina reka svo stjórnmálamenn, sem vilja sýna stjórnsemi og ekki láta almenning standa sig að of miklu ábyrgðarleysi. Þeir virðast þó, því miður, stundum hafa það helst að leiðarljósi að styggja ekki þau fjármálaöfl sem eiga rætur í sjávarútvegi og að lenda ekki í ónáð í þeim byggðarlögum sem telja tilveru sinni ógnað fari kvótinn úr plássinu. Þetta er ekki auðveld staða fyrir þá sem eiga að gæta hagsmuna okkar allra. Þarna hefst því mikill línudans sem snýst um ólíka, en þó samtvinnaða, hagsmuni. Hagsmuni sem eiga sér einn samnefnara: Peninga. Og þar sem peningar ráða ferðinni víkur flest annað – réttlætið fyrst.

 

Það er eðli allra fyrirtækja að stefna að sem mestum hagnaði, eigendum sínum til handa. Útgerð og fiskvinnsla eru þar engin undantekning. Því er sala kvóta svo og sameining eða sala fyrirtækja í fiski algeng. Markmiðið er arður sem fæst með hagræðingu af ýmsu tagi. Hagræðingu sem skilar peningum í vasa hinna nýju „eigenda“ fisksins en skilur stundum eftir sig slóð óréttlætis og vandamála hjá öðru fólki. 

Þegar minnst er á að útgerðir greiði fullt verð fyrir fiskinn er það ekki til umræðu, enda staða sjávarútvegsfyrirtækja slík að greiðslugeta er ekki til staðar – eða svo er sagt.

Ef horft er á veiðar og þeim tengda framleiðslu á matvöru sem heild, má segja að þessi iðngrein fái hráefni sitt fyrir það eitt að sækja það. Aðrar framleiðslugreinar verða að greiða fullt verð fyrir sitt hráefni og standa sig samt fjárhagslega.

 

Í rauninni mætti skrifa sérstaka grein um stöðu útgerðarinnar, skuldsetningu og þá miklu hættu sem stafar af „þörf“ hennar nú fyrir erlenda fjárfesta. Það verður að bíða um sinn. Í annarri grein mun ég hins vegar fjalla um nýja nálgun í fiskveiðistjórnun.

 

 

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is.

 

 

Höfundur er fyrrv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004.