Nýlega komu heim frá Afganistan þrír, særðir, íslenskir friðargæsluliðar af mörgum sem þar starfa á vegum utanríkisráðuneytisins og í tengslum við NATO.

 

Nú er það svo að jafn fallega og orðið “friðargæsla” hljómar þá er sá friður sem gætt er, ekki friður allra. Friðargæslan er á vegum þess sem sigrar í átökum og víða leynast þeir sem ekki telja átökum lokið enda friðurinn svo brothættur að hans gæta menn, gráir fyrir járnum. Við þessar kringumstæður er ekki óalgengt og ekki óeðlilegt að einhver meiði sig eða falli í valinn. Það ætti ekki að koma neinum á óvart.

 

Full ástæða er fyrir okkur Íslendinga að velta því fyrir okkur hvort við sem þjóð viljum dragast inn þau átök sem óhjákvæmilega koma upp við slíkar og aðrar hernaðarlegar aðstæður

Einhvern daginn mun það nefnilega gerast að einhver þessara starfsmanna utanríkisráðuneytisins banar manni. Sjálfsagt í sjálfsvörn eða til að bjarga öðrum. Sjálfsagt undir þeim kringumstæðum sem eðlilegar teljast í hernaði. 

En þá mun ljóminn fara af friðargæslunni og heimsfréttir segja: "Íslenskur hermaður drap . . . ". Þá verður ekki spurt um aðstæður eða verkinu lýst sem friðargæslu.

Og hið vopnlausa Ísland verður skotmark þeirra sem telja sig eiga harma að hefna. Auðvelt skotmark. Mjög auðvelt.

 

 

Alþjóðasamfélagið

 

Hástemmdar yfirlýsingar um að maður bregðist ekki vinum sínum og að við séum ábyrgir meðlimir í fjölskyldu þjóðanna, sveipa óraunsæjum ljóma um þá hættu sem við stefnum í. Herveldi geta talað svona, ekki síst ef þeim hefur verið ógnað. Við erum hinsvegar ekki herveldi - og okkur hefur ekki verið ógnað. Því skyldum við fara út í heim í leit að fólki til að verða óvinir okkar ? Það eru næg verkefni fyrir hjálpsamar hendur án þess að blanda sér í hernaðardeilur. Ef hvatinn að friðargæslunni er löngun til að láta gott af okkur leiða, að leggja okkar af mörkum í fjölskyldu þjóðanna, eru til þess mörg tækifæri. Tækifæri sem ekki leiða hættu yfir Ísland og Íslendinga sem þrá það heitast að búa hér í friði, sem lengst frá “heimsins vígaslóð”.

 

 

Fleiri falla fyrir hungri og sjúkdómum en byssukúlum

 

Víða í heiminum - á friðarslóðum - er brýn þörf fyrir aðstoð okkar og þekkingu. Þangað getum við sent lækna og lyf, verkfræðinga og tæknibúnað, sjómenn og skip, kennara og bækur. Fólk sem kennir íbúum annarra landa að bjarga sér og styður það fyrstu sporin. Fólk sem ekki þarf að bera vopn. Fólk sem ekki þarf að taka afstöðu í deilum sem byggja á trúarbrögðum sem við ekki skiljum eða deilum sem stundum eiga rætur að rekja aftur fyrir daga Íslandsbyggðar. Deilum sem ekki er okkar verk að leysa eða gerast dómarar í. Það er verk hverrar þjóðar að þroskast og siðvæðast á sínum hraða og á sinn hátt.

 

 

Ekki í mínu nafni

 

Ég skil vel að sumir einstaklingar vilja hafa beinni og ákveðnari afskipti en felast í að grafa brunna eða bólusetja börn. Um það eiga þeir við eigin samvisku og fjölskyldu sína. Þannig hefur það alltaf verið. Hingað til hafa þeir hinsvegar gengið í heri annarra þjóða ss. bandaríska herinn eða frönsku útlendingahersveitina - og getið sér gott orð þar. Um hæfni þeirra efast ég ekki. Það er hinsvegar alvarlegt mál þegar vopnlaus smáþjóð segir herveldi stríð á hendur, líkt og gerðist í raun fyrir innrásina í Afganistan og Írak og fylgir því síðan eftir með vopnaburði í landi annarrar þjóðar.

 

Ég tel nauðsynlegt - áður en í óefni er komið - að íslenska þjóðin taki afstöðu til þess hvort við viljum eiga vopnaða menn á erlendri grund undir íslenskum fána. Það er alvarlegt mál - dauðans alvara.

 

Baldur Ágústsson

fv. forstj. og forsetaframbjóðandi 2004

 

Birt (án myndar) í Mbl. 6. 11. 2004

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Baldur Ágústsson