Agnes Bragadóttir á lof skilið fyrir hugmynd sína um kaup almennings á Símanum. Hún sameinar krafta almennings og gerir einstaklingum þannig kleift að eignast hlut í þessu fyrirtæki sem gegnum árin hefur skilað drjúgum arði í ríkissjóð. Jafn grátbroslegt og það er að almenningur kaupi eigið fyrirtæki af sjálfum sér þá er ljóst að meðan fram fer sem horfir um sölu Símans og annars ríkisreksturs þá er framtak Agnesar og félaga hennar á sinn hátt tilraun til að bjarga því sem bjargað verður. Það sem ekki er þó minna virði: Þetta framtak vekur upp umræðu um réttmæti einkavæðingar yfirleitt. 

 

Allt frá stofnun Símans snemma á síðustu öld höfum við - þjóðin öll - átt þetta “fyrirtæki”. Síminn, eða “Póst og símamálastofnunin” var sameign þjóðarinnar, byggð af þörf, bjartsýni og fyrir almanna fé. Sama gilti um margt annað sem nauðsynlegt var ss. banka, heilbrigðiskerfi, skóla og samgöngumannvirki, svo eitthvað sé nefnt. Að selja þessar eigur okkar til að við getum síðan leigt af þeim afnot frá “fjárfestum” - innlendum eða erlendum - er í meira lagi vafasöm ráðstöfun. Ef raunveruleg ástæða er til að taka td. símann úr ríkisrekstri, væri þá ekki eðlilegra að senda hverjum Íslendingi hlutabréf sem nemur hlutfallslegri eign hans, frekar en að falbjóða hana “utanaðkomandi” aðilum ?

 

 

Er einkavæðing þjóðarhagur ?

Stjórnvöld hafa undanfarin ár gengið hart fram í einkavæðingunni eða “einkavinavæðingunni” eins og sumir kalla það - vonandi aðeins í gríni. Þannig hefur hverri stofnuninni eftir aðra verið breytt í hlutafélög “til að undirbúa sölu” eða “einfalda eignarhald” - sem síðan hefur endað í sölu. Þannig hefur farið úr þjóðareign: Lyfjaverslun ríkisins, nokkrir bankar, verksmiðjur ofl. ofl. Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum hafa þessi fyrirtæki eða stofnanir, innan mjög fárra ára, orðið margfalt meira virði en þær voru seldar á og mala gull fyrir hina nýju eigendur. Þetta hlýtur að kalla á þrjár spurningar: Hvernig var staðið að rekstrinum áður en selt var ? Hvernig var staðið að sölunni ? Og - hvernig á að bæta ríkissjóði þær tekjur sem hann áður hafði, en eftir sölu renna í vasa nýrra eigenda ? 

 

Síminn er ekki það síðasta sem á að selja. Landsvirkjun er komin á blað, Ríkisútvarpið hefur verið nefnt og fleira mun finnast. Þar getur því miður komið, innan fárra ára, að Ísland verði nútíma lénsveldi. Flest sem gerir okkur að sjálfstæðri þjóð í eigin landi verður í eigu fjármálafyritækja, íslenskra eða erlendra, sem hafa öll tögl og haldir. Almenningur á í besta falli íbúð og bíl - og skuldir. Þetta hentar fjármálafyrirtækjum og sumum stjórnmálamönnum vel. Okkur hinum, þorra þjóðarinnar, hentar þessi þróun alls ekki. Hún verður hinsvegar aðeins stöðvuð af okkur sjálfum.

 

Undirritaður er ekki einn um að efast um gagnsemi og réttmæti einkavæðingar. Sífellt fjölgar þeim sem blöskrar hvernig fjármagn og eignir þjóðarinnar færast á færri og færri hendur. Dæmi um það er stutt grein eftir Albert Jensen - “Hver hefur það gott” - sem birtist í Mbl þ. 30. mars sl. og einnig má finna í greinasafni hér á vefsetri undirritaðs; www.landsmenn.is

 

 

Frestum sölunni - skoðum málið. 

 

Ég geri það að tillögu minni að sölu Símans og annars ríkisreksturs verði frestað fram yfir næstu alþingiskosningar. Tíminn þangað til verði notaður vel til að skoða þá einkavæðingu sem þegar hefur farið fram og það rannsakað af hlutlausum aðilum hvort viðskiptalegra hagsmuna þjóðarinnar hafi verið gætt. Hvort það hafi yfirleitt verið þjóðarhagur að selja og hvernig að því var staðið í hverju tilfelli. Niðurstöðurnar þarf að kynna vel og allir stjórnmálaflokkar að lýsa afstöðu sinni til einkavæðingar afdráttarlaust - eins og til annarra stórmála í þjóðfélaginu. Þá fyrst geta kjósendur ákveðið hverjum þeir gefa atkvæði sitt.

 

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is

 

Höfundur er fyrrverandi forstjóri og 

frambjóðandi í forsetakosningum 2004.

 

 

Birt í Mbl. 6. 5. 2005 - án mynda