Enn rennur upp 17. júní, fæðingardagur Jóns Sigurðssonar og þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Í dag minnumst við frelsisbaráttunnar og fullveldis frá 1944. 

 

Á þessum tíma hefur margt gerst; lífsgæði vaxið, tækniframfarir verið hreint ótrúlegar og mannfjöldi tvöfaldast. Samanborið við önnur lönd getum við verið stolt af vandaðri samfélagsþjónustu ss. menntakerfi,

sjúkraþjónustu og samgöngum - þó alltaf megi gera betur. Það á etv. sérstaklega við um aldraða, öryrkja og svo unga fólkið sem stundum skrikar fótur þegar það leggur út í lífið. 

Í samfélagi þjóðanna njótum við virðingar og leggjum okkar af mörkum til hjálpar þeim sem minna mega sín; td. þeim sem stríða við hungur og sjúkdóma. Hætt er við að staða okkar væri önnur ef við lytum enn valdi erlends ríkis. Í dag fögnum við sjálfstæði sem ekki var auðfengið og ekki er sjálfgefið. Sjálfstæði og frelsi til að vera okkar eigin gæfu smiðir - með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.

 

Oft erum við í fréttum minnt á þjóðir sem glata sjálfstæði sínu eða afsala sér því að hluta eða fullu. Blóðugar byltingar eru gerðar og mismunandi kynþættir, ættflokkar og trúflokkar berast á banaspjótum. Einræðisherrar kúga þjóðir sínar þannig að þó þær séu að nafni til sjálfstæðar er raunverulegt frelsi einstaklinganna ekki til staðar.

Evrópusambandið ESB, sem byrjaði sem fríverslunarsvæði, er óðum að taka á sig mynd stórveldis - Bandaríkja Evrópu. Sífellt fleiri ákvarðanir eru teknar af ESB - sem ræður, ef þær stangast á við lög og reglur aðildarríkjanna. Fróðlegt er í þessu sambandi að lesa grein Ragnars Arnalds fyrrum þingmanns og ráðherra sem birtist í Mbl 27. maí sl. (Grein hans - "Drög að stjórnarskrá ESB minnka áhrif smáríkja" - má einnig finna í greinasafni á vefsetri undirritaðs www.landsmenn.is).

 

Hátíðahöld okkar í dag eru allt í senn: Minning um sjálfstæðisbaráttuna, gleði yfir því frelsi sem við búum við á hverjum degi og staðfesting vona okkar um framtíð lands og þjóðar. 

Við hugsum líka með þakklæti til landsins fagra sem hefur mótað okkur, ekki síður en við það.

 

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,

um eilífð sé þín gæfa tryggð,

öll grimmd frá þinni ströndu styggð

og stöðugt allt þitt ráð.

Hver dagur líti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð.

Svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð.

 

 

Gleðilega þjóðhátíð !

 

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is

 

Höfundur er fyrrv. forstjóri og 

frambjóðandi í forsetakosningum 2004

 

 

Birt í Mbl. 17. júní 2005 - án myndar.