Það er erfitt fyrir fólk að lifa í fátækt í landi þar sem flestir virðast lifa í allsgnægtum. Fólk sem lendir í fátækragildru af ýmsum ástæðum er útilokað frá venjulegu lífi og jafnvel brotin á því mannréttinddi. Sumir sérfræðingar halda því fram að hægt sé að vinna sig útúr fátækt ef vilji er fyrir hendi, jafnvel halda því fram að fátækt fólk eigi það skilið að standa í basli, en málið er það að lenda í fátækt er mjög auðvelt. Fullfrískt fólk í dag getur orðið öryrkjar á morgun af ýmsum ástæðum og hvernig á þá að standa í skilum með öll lán og skuldbindingar á rúmum 80.ooo kr frá tryggingastofnun. Því miður fer þessi hópur vaxandi sem hvorki getur fætt sig né klætt í velferðaþjóðfélaginu.

 

Það er því skylda ríkis og sveitafélaga að sjá til þess að fátæklingar á Íslandi hafi þau laun að geta lifað mannsæmandi lífi,geta veitt sér nauðsynlega læknisþjónustu, séð börnum sínum farborða á sómasamlegan hátt, eins og nesta þau upp fyrir skólann,staðið undir nauðsynlegum kostnaði við íþróttaiðkanir o.fl.

 

Það ætti ekki að líðast hér í velferðaríkinu að fólk þurfi að vera rekið grátandi út frá félagsmálastofnun og þurfa að beygja sig í duftið til að þiggja einhverja ölmusu frá góðgerðastofnunum. Til þess að breyta þessu þurfa laun öryrkja og ellilífeyrisþega að hækka upp í 150.000 kr. lágmark eftir skatta. af minni upphæð lifir engin.

 

Í dag er öryrkjum og ellilífeyrisþegum gert að flagga allskyns skírteinum sem sanna að þeir eru annars flokks þegnar, m.a. í apótekum ,strætó, hjá heilbrigðisstofnunum þar sem staða þessa fólks er kyrfilega merkt. Þetta er niðurlæging. Dæmi eru um að fólk hafi orðið fyrir aðkasti vegna þessa.

 

Eins og greinilegt er lifa 3 stéttir í landinu. sú sem er mest áberandi eru ungir jakkafataklæddir menn, sem fjölmiðlar hossa í öllum fréttatímum og fáum við alltaf nákvæmar upplýsingar um fjármálaafrek þeirra út í heimi. Laun þeirra eru talin í milljónum á mánuði.Lítið ber á konum í þessum hóp,enda passa þær varla í illa sniðin jakkafötin.

 

Svo er það millistéttin sem er að reyna lifa íslenska góðærið akandi um á glæsijeppum sem flestir eru á bílaláni. Búið að taka 100% íbúðalán eða skuldbreyta til að kaupa plasmasjónvörp upp á 1/2 milljón. Eru með 3-4 kreditkort upp á vasann, fara 3-4 á ári til útlanda og eru sífelt að hrósa sér yfir \"eignunum\" og hafa engar áhyggjur af gluggapóstinum. en hin gullna skuldasnara hangir yfir þeim til framtíðar.

 

Það er því skýlaus krafa nýstofnaðra \"samtaka um velferð\" að lífskjörin verði jöfnuð í þjóðfélaginu og það er pólitísk ákvörðun sem hvílir á öllum stjórnmálamönnum að leiðrétta þessi mál. því má ekki gleyma að þeir eru í vinnu hjá okkur, borgurum þessa lands.

 

Haraldur P. Sigurðsson

Stofn. samtaka um velferð

netfang: harpsig@yahoo.com