FRÉTT RÍKISÚTVARPSINS :
On Miðvikudagur, feb 11, 2004, at 15:09 Atlantic/Reykjavik, Sunna Mímisdóttir wrote:
Inngangur:
Þrjátíu ára tilraun stjórnvalda í Hollandi til að skapa fjölmenningarsamfélag þar sem innflytjendur úr ýmsum löndum byggju með þeim sem fyrir væru, í sátt og samlyndi, fór út um þúfur.
Meginmál:
Þetta er niðurstaða þingnefndar sem skipuð var í fyrra til að kanna samskipti Hollendinga og innflytjenda, en frá skýrslu hennar er sagt í dagblaðinu Politiken í dag. Hvergi hafa stjórnvöld lagt á sig jafn mikla fyrirhöfn vegna innflytjenda og í Hollandi, enda streymdu þeir til landsins. Á þessu varð þó breyting fyrir nokkrum árum, þegar innflytjendalöggjöfin var þrengd. Þannig fengu 9 þúsund manns landvistarleyfi í Hollandi 1996, en aðeins 219 árið 2001. Flestir innflytjendur eru frá Marokkó, Tyrklandi, Súrínam í Suður-Ameríku og Antillaeyjum á Karíbahafi. Obbi innflytjenda frá íslömsku löndunum, Marokkó og Tyrklandi, býr í sérstökum hverfum í stórborgum, þar sem hættir og venjur gamla landsins ríkja enn í lokuðum samfélögum. Í Rotterdam hefur slegið í brýnu með hollenskum ungmennum og arabískum múslímum frá Marokkó. Ýmsir andlegir leiðtogar múslíma grafa undan hollensku samfélagi í málflutningi sínum, reka til að mynda hatramman áróður gegn jafnrétti kynjanna, umburðarlyndi í garð samkynhneigðra, frjáslyndi í kynferðismálum og öðrum einkennum nútímans í Hollandi. Föðurveldi ríkir hjá múslímum frá Marokkó, og ungir karlar í þeirra röðum leita sér kvonfangs í gamla landinu. Í skýrslu þingnefndarinnar er varað við þessu, sífellt fjölgi ungum eiginkonum sem ekki kunni hollensku, enga menntun hafi og engan skilning á hollensku lýðræði og réttarfari. Fyrir vikið séu stjórnvöld fjær því en nokkru sinni að koma á fót fjölmenningarsamfélagi þar sem gagnkvæmur skilningur og samúð ríki á grundvelli menntunar og umburðalyndis. Kristófer Svavarsson sagði frá.
Kveðja,
Sunna Mímisdóttir,
Söludeild RÚV