Reynir Jóhannesson skrifar um ESB:
Það eru alltaf jafn miklar deilur á milli þeirra sem vilja og þeirra sem vilja ekki fara inn í Evrópusambandið. En þriðji hópurinn, Íslendingar sem segjast vera alveg hlutlausir í þessu máli, er einnig nokkuð stór. Það er ekkert mál að vera hlutlaus, en ég get sagt þér það að ég ætla mér ekki að vera það.
Ég er nýfluttur heim til Íslands eftir að hafa átt heima í Noregi síðustu ellefu árin. Þar tók ég virkan þátt í stjórnmálum og fékk oft þá spurningu hvort Noregur ætti að ganga í ESB. Ég var þó aldrei viss um hvaða afstöðu ég ætti að taka í þeim málum og var aldrei öruggur um hvert ætti að stefna. En varðandi Ísland og ESB er ég hins vegar alveg öruggur um hvert eigi að stefna. Ísland hefur náð einu sem mörg smáríki í heiminum eru að reyna að afreka, sem er gott og öflugt efnahagskerfi.
Í síðustu viku voru aðilar frá Suður-Afríku í opinberri heimsókn á Íslandi, og ég var staddur á fyrirlestri í Háskóla Íslands þar sem þeir voru að kynna sín mál og hugsanleg markmið með þessari heimsókn. Þeir sögðust ekki hafa vitað mikið um Ísland áður en þeir báðu sína starfsmenn um að rannsaka landið aðeins, og gefa þeim kynningarskýrslu. Eftir að hafa kynnst Íslandi sögðust fyrirlesararnir ætla að nota velgengni okkar sem módel fyrir smáríki í Afríku sem eru í mikilli uppbyggingarstarfsemi. Kannski má segja að þetta sé ekki alveg sambærilegt þar sem Ísland er við norðupólinn og Afríka með sínar eyðimerkur. En samt eiga smáríki oft sambærileg vandamál og þá sérstaklega á efnahagsviðinu.
Meginmarkmið Evrópusambandsins er að efla og einfalda efnahagskerfi Evrópu til að geta farið í samkeppni við stóra markaði eins og Asíu. Fyrst og fremst til að vernda sig gegn hraðvaxandi mörkuðum í heiminum. Þegar við lítum á stöðuna eins og hún er í Evrópu í dag þá er hún ekki glæsileg. Við vitum að það er allt frá 10-20% atvinnuleysi í Frakklandi og Þýskalandi. Atvinnuleysið er þó aðeins brot af þeim vandamálum sem finna má í Evrópu í dag. Margar leiðir hafa verið reyndar innan ESB til að sporna við þessum vandamálum.
Ein af þeim er meðal annars hin svokallaða Lissabon áætlun og þar ætlaði Evrópusambandið að leggja meiri áherslu á frjálslyndisvæðingu og að létta regluverkið. Gera Evrópu að sterkara efnahagssvæði og skapa meira jafnvægi. Þetta hefur allt verið á nokkurn veginn réttri leið, alveg þangað til að sumir sáu að þetta gekk allt of hægt og var allt of erfitt. Þannig að staðan í dag er einhvern veginn á þessa leið:
· Þjóðverjar og Frakkar eru byrjaðir að vernda sitt og sína með því að hætta við og tefja áætlanir Evrópusambandsins.
· Spánverjar eru stressaðir á að missa sína styrki þegar Austur-Evrópa kemur á fullu inn í sambandið
· Hollendingar eru ekki ánægðir og sögðu t.d. ,,nei,takk þegar var kosið um stjórnarskrána.
· Það sama gerði fólkið í Frakklandi.
Af hverju eigum við að reyna að festa okkur svo við Evrópu og Evrópusambandið þegar markaðir í Bandaríkjunum og Asíu eru þeir sem fara hvað mest stækkandi? Það er nú ekki alveg hægt að segja að Evrópusambandið eigi heiðurinn á allri velgengninni á Íslandi. Það er alltaf talað um Evrópusambandið eins og það sé eitthvað sem á að koma og bjarga öllum. Raunin er þó sú að Evrópusambandið er orðið yfirfullt af vandamálum. Því er hægt að spyrja sig hvort við eigum að taka þátt í því að leysa öll þessi vandamál. Mér finnst að Ísland eigi nokkuð lítið fram að færa og við eigum mjög erfitt með að fá einhverja styrki frá sambandinu til að byggja upp nýja starfsemi á Ísland. Fyrir því þarf nefnilega að uppfylla sérstök markmið, sem eru:
-------------------------------------------
(Sótt af heimasíðu forsætisráðuneytisins)
Uppbyggingarstyrkir
Fjórir sjóðir veita styrki á grundvelli uppbyggingarstefnu Evrópusambandsins: Evrópski þróunarsjóðurinn, Landbúnaðarsjóðurinn (uppbyggingarhlutinn), Sjávarútvegssjóðurinn og Félagsmálasjóður Evrópu. Styrkjum úr öllum þessum sjóðum er úthlutað eftir þremur markmiðum eða málaflokkum, sem eru:
1. Aðstoð við svæði sem dregist hafa aftur úr efnahagslega. Miðað er við svæði samkvæmt NUTS II skilgreiningunni sem hafa þjóðarframleiðslu undir 75% af meðaltali ESB. Svæði með færri en 8 íbúa á ferkílómetra í Austurríki, Svíþjóð og Finnlandi falla einnig undir 1. markmið. Um 70% af fjármunum uppbyggingarstefnunnar fer til að uppfylla þetta markmið.
2. Stuðningur við efnahags- og félagslega endurskipulagningu svæða sem eiga við kerfisbundin atvinnuleysisvandamál að stríða. Um 11,5% af fjármunum uppbyggingarstefnunnar fara til þessa markmiðs.
3. Almennur stuðningur við vinnumarkaðsverkefni, s.s. starfsþjálfun. Svæði sem falla undir 1. markmið hafa ekki rétt á styrkjum samkvæmt þessu markmiði. Um 12,3% af fjármunum uppbyggingstefnunnar fara til þessa markmiðs. Til viðbótar styrkir Samstöðusjóðurinn (e. cohesion fund) sérstök umfangsmikil uppbyggingarverkefni fyrst og fremst í samgöngumálum í fátækustu ríkjum sambandsins.
-------------------------------------------
Eins og sést í greinargerð Hagstofu Íslands sem var skrifuð að beiðni forsætisráðherra árið 2002, þá á Ísland kannski möguleika varðandi markmið eitt. Til að uppfylla þessi markmið ESB þurfum við að fá leyfi til að skipta höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni í tvö NUTS II svæði. Þannig getum við mögulega reynt að sýna fram á erfiðleikana úti á landi og fengið stuðning til að koma einhverjum tillögum á framfæri. Við erum ekki með slæmt efnahagskerfi, erum ekki fátæk og við erum ekki í efnhags- og félagslegum endurskipulagningum eða í kerfisbundum atvinnuleysisvandamálum. Varðandi þriðja markmiðið, þá erum við Íslendingar að reyna fjölga meistara- og doktorsnemendum, þannig að við erum nokkuð langt frá þessu líka.
En af hverju erum við að eltast við þetta? Með því að fara inn í Evrópusambandið þurfum við einnig að loka á EFTA samninginn, lækka alla tolla og gefa Evrópusambandinu 90% af öllum tollartekjum sem eru í dag næstum því 3000 milljónir. Við þurfum einnig að borga sérstakt sykurgjald til sambandsins og eigum hættu á því að missa vald okkar á fiskveiðum. Er Evrópusambandið virkilega þess virði? Eigum við að eltast við Evrópu sem bara er í einhverri fýlu og öfundsýki út í okkur Íslendinga (þetta eru kannski bara Danir) eða fara og skoða heiminn í heild sem bara bíður eftir að fá að heyra í okkur Íslendingum?
Við erum sjálfstætt fólk og eigum heima í sjálfstæðu landi, og með sjálfstæðum flokki í forystu eigum við alveg að geta staðið okkur vel eins og við höfum gert hingað til, jafnvel bara ennþá betur!
Reynir Jóhannesson