Ríkið, þjóðkirkjan og önnur trúarbrögð.
24-07-2012
Ríkið, þjóðkirkjan og önnur trúarbrögð.
Öðru hvoru kemur upp umræða um aðskilnað ríkis og kirkju. Margháttuð rök eru leidd að því að hér eigi ekki að vera þjóðkirkja sem starfi undir verndarvæng ríkisins. Óeðlilegt sé t.d. að ríkið beri kostnað af kirkjum sem aðeins hluti þjóðarinnar noti. Eðlilegast sé að þeir sem trúaðir eru byggi sjálfir sínar kirkjur og borgi prestinum. Ekki sé heldur æskilegt að ríkið sem vinni eftir hefðum stjórnmálanna við veraldlega ákvarðanatöku og framkvæmdir sé að vasast í trúmálum.
Undirritaður vill hinsvegar færa rök fyrir því að ríki og kirkja verði ekki skilin að. Það er alveg rétt að fólk notar kirkjur og þjónustu þeirra mismikið, en það á við um margt annað. Ríkið reisir td. söfn, styður við margskonar listastarfsemi og byggir og rekur sjúkrahús. Fjöldi fólks fer sjaldan á söfn, hefur lítinn áhuga á listum og á ekki erindi á sjúkrahús áratugum saman. Samt þykir okkur öllum sjálfsagt að þessar stofnanir og þjónusta sé fyrir hendi. Á sama hátt á að tryggja stöðu kirkjunnar, þannig að hún sé til staðar fyrir þá sem vilja og þurfa.
Þetta er þó ekki nema hluti málsins. Allt okkar þjóðfélag er byggt á kristnum gildum. Þetta endurspegla lögin, þetta endurspeglar dagleg hegðun okkar og gildismat. Við erum kristin þjóð með kristin viðhorf. Þess vegna eigum við að styðja kirkjuna þannig að hún sé ávallt til staðar, fastur punktur í tilverunni og vitni þess að okkur sem þjóð er annt um hvern einstakling í blíðu og stríðu.
Auðvitað ætlumst við ekki til að ráðherra kirkjumála leysi trúarleg deilumál eða túlki Biblíuna fyrir okkur, til þess höfum við biskup. En við leggjum til hið veraldlega svo hann og landsins klerkar geti einbeitt sér að sóknarbörnum sínum, velferð þeirra og vellíðan.
Forfeður okkar á Alþingi árið 1000 stóðu frammi fyrir tillögu um að kristni skyldi koma í stað Ásatrúar sem þjóðtrú Íslendinga. Ekki náðist samkomulag um það og skiptust menn í fylkingar. Allir gerðu sér ljóst að miklu skipti að þjóðin væri einnar trúar, ... höfum allir ein lög og einn sið sagði Þorgeir Ljósvetningagoði. Það mun verða satt , er vér slítum í sundur lögin, að vér munum slíta og friðinn. Þingheimur kom sér saman um að fela einum manni að taka ákvörðun sem allir gengust undir að hlíta. Eins og allir vita var þessi maður einmitt Þorgeir Ljósvetningagoði. Eftir að hafa legið undir feldi var úrskurður hans, og þar með Alþingis, að kristni skyldi vera þjóðtrú Íslendinga.
Alþingi í dag gerði vel í að endurtaka það og lýsa því yfir að Ísland sé kristilegt lýðveldi. Í raun á slík yfirlýsing að vera í Stjórnaskránni.
Þorgeir gerði sér ljóst að ekki myndu allir taka hinn kristna sið, a.m.k ekki strax. Því leyfði hann iðkun Ásatrúar á laun. Þarna kom enn í ljós hve vís og virtur hann var: Þetta gekk eftir og trúarskiptin fóru fram án blóðsúthellinga. Hvergi annarstaðar í heiminum er trúarlegur ágreiningur leystur með þessum hætti, heldur grípa menn til vopna og eru óvægnir.
Þessi stund og gjörningur á Þingvöllum árið 1000 ber Ásatrúarmönnum þess tíma fagurt vitni.
Önnur trúarbrögð.
Í dag stöndum við frammi fyrir svipuðu vandamáli: Stöðugt fjölgar innflytjendum sem aðhyllast aðra trú en kristni. Fólki sem margt hvert hefur aðra sýn á lífið, fólki sem telur fyrirmæli og kennisetningar trúarrita sinna æðri kristnum viðhorfum og jafnvel lögum landsins. Þeirra fyrsta skylda er hlýðni við Guð sinn, eins og prestar þeirra í gamla heimalandinu túlka trúarritin. Auðvitað er ekki hægt að alhæfa og segja þetta eiga við um alla, en af erlendum fréttum þar sem við sjáum óeirðir og róstur, er ljóst að múgæsing og jafnvel manndráp eru algeng. Jafnvel í löndum sem skotið hafa skjólshúsi yfir þessa einstaklinga eru uppi hótanir og óeirðir ef þeir telja sig eða trú sína sæta móðgun. Um þetta eru skýr nýleg dæmi td. frá Frakklandi og Danmörku. Ljóst er að kristnir vestur Evrópubúar eiga í raun ekki samleið með sumu af þessu fólki, svo ólík er lífssýn þeirra og hegðun. Sem þjóðir og sem trúfélög er þetta fólk að ganga í gegnum önnur þroskastig en kristnir Evrópubúar. Hvort það er á undan okkur eða eftir skal ósagt látið. Undirritaður er ekki að lýsa andstöðu við trú þeirra, hana ber að virða - í upprunalöndum þeirra.
Hitt verður ekki þolað að þeir grípi til hótana og jafnvel vopna ef þau lönd sem hafa veitt þeim heimili og öryggi, atvinnu og menntun, eiga að fara að breyta venjum sínum og lífsmynstri eftir fyrirmælum þessara gesta sinna. Ekki fremur en við eigum að leggja leið okkar til þeirra fyrri heimalanda og gera kröfur um að þeir lifi skv. kristnum gildum og siðum okkar. Tími krossferða er liðinn.
Hvað Ísland varðar höfum við í raun ekki skyldum að gegna við framandi þjóðflokka og trúflokka. Við höfum ekki haft nýlendur eða flutt inn þræla svo til vansa sé í dag. Sjálfsagt er að rétta hjálparhönd, en það á að gerast í heimalöndum þessa fólks og af fullri virðingu fyrir trú þeirra og siðum þar.
Árekstrar menningarheima.
Allir sem hyggjast flytja til Íslands verða að hafa það á hreinu og gangast undir - að þeir koma hingað til að verða Íslendingar, virða siði okkar, lög og trú, læra málið og sýna landi og þjóð fulla virðingu og hollustu í orði og verki. Þeir eru ekki komnir til að búa á Íslandi, sem hópar útlendinga með eigin reglur og siði. Fjölmenningarsamfélög ganga einfaldlega ekki eins og fram kemur víða um heim. - Athyglisverða frétt um þetta flutti Rúv 11.2.2004. Fréttin er frá Hollandi sem í 30 ár hefur hvað mest lagt í að láta fjölmenningarsamfélag heppnast. Fréttina má lesa á www.landsmenn.is þar sem hún er í efnisyfirliti GREINASAFNS. Einnig fylgir hún þar greininni Opið bréf til Alþingismanna - afrit til þjóðarinnar.
Vert er að minnast þess að fyrir nokkrum árum leyfðu Norðmenn byggingu mosku í Osló sem sætti mikillar óánægju í borginni, ekki síst þegar þaðan fóru að berast bænaköll úr hátalölurum oft á dag. Þá er það vitað að sum lönd vernda eigin trú og leyfa td. ekki kristnar kirkjur eða kristniboð. Saudi-Arabía hefur td. verið nefnd í þessu sambandi. Við því er að sjálfsögðu ekkert að segja, þetta er þeirra land. Við megum á sama hátt ráða trúmálum og framkvæmd þeirra á Íslandi.
Við Íslendingar verðum að gera okkur ljóst að tunga okkar og menning glatast með árunum ef við höldum ekki vöku okkar. Sama gildir um hið örugga og friðsæla þjóðfélag sem við höfum lengst af búið í. Í trúmálum gerum við best í að fylgja Þorgeiri Ljósvetningagoða: Þjóðtrúin er kristni. Þeir sem kjósa önnur trúarbrögð geta iðkað þau hver innan veggja síns heimilis. Þeir boða ekki trú sína með neinum hætti, þeir byggja ekki samkomuhús af neinu tagi og bera ekki neinskonar klæði eða tákn um trú sína. Þeirra réttindi og skyldur miðast alfarið við íslenskt, kristið samfélag. Engin sérréttindi vegna trúar eða uppruna. Um leið hvílir sú skylda á okkur að hver slíkur einstaklingur sem við bjóðum búsetu í þjóðfélagi okkar, njóti að sjálfsögðu fullra réttinda og viðmóts sem innfæddur væri.
Þetta kann að hljóma harðneskjulega, en allt annað er að fylgja öðrum Evrópuþjóðum á óheillabraut þeirra, sem við sjáum flest kvöld í sjónvarpinu. Sjálfsagt getum við orðið sammála, lesandi góður, um að það sé sorglegt að hinn viti borni maður geti ekki búið saman í sátt og samlyndi staðreynd er það eigi að síður, sem okkur er best að fara að horfast í augu við.
Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstjóri og
frambjóðandi í forsetakosningum 2004
baldur@landsmenn.is