Nýlega voru kveðnir upp tveir dómar í héraði er vörðuðu framkomu við opinbera starfsmenn, annarsvegar sýslumann hinsvegar lögregluþjón. Í öðru tilfellinu stjakaði maður við sýslumanni og brá fyrir hann fæti þannig að við lá að hann missti jafnvægið. Í hinu ók ölvaður ökumaður á lögregluþjón og sló hann að auki í kviðinn. Dómari taldi að með þessu hefði ökumaðurinn stefnt lífi lögregluþjónsins í hættu. Rétt er að taka fram að undirritaður þekkir ekki sjálfur smáatriði þessara mála heldur byggir alfarið á blaðafréttum sem hann sér ekki ástæðu til að rengja.
Athyglisvert er að bera saman hvaða dóm þessir tveir brotamenn hlutu. Sá sem stjakaði við sýslumanni var dæmdur í 6 mánaða fangelsi óskilorðsbundið. Sá sem sló lögregluþjóninn í kviðinn og ók á hann, var dæmdur í 4 mánaða fangelsi skilorðsbundið. Hann var einnig dæmdur til að greiða lögregluþjóninum kr. 190.000 í bætur og auk þess sviptur ökuréttindum í 2 ár, enda ölvaður.
Landssamband lögreglumanna hefur þegar bent á ósamræmi þessara dóma og hversu lítill fælingarmáttur gegn árás á þá felst í dómi af þessu tagi. Með honum eru brotamönnum send þau skilaboð að lítil viðurlög séu við því að ráðast á verði laganna. Þetta blasir við og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.
Hinn dómurinn er ekki síður athyglisverður. Hann sýnir að dómstólar geta verið hallir undir ríkisvaldið, a.m.k. þegar um hátt setta embættismenn er að ræða. Nú mælir undirritaður því að sjálfsögðu ekki bót að stjakað sé við sýslumönnum eða brugðið fyrir þá fæti, alls ekki. Þeir eru allrar virðingar verðir. Hinsvegar er með þessum dómum dregin enn ein línan milli hástétta og lágstétta í þjóðfélaginu og spurningarmerki sett við hlutleysi dómstóla því miður ekki í fyrsta skipti.
Lögregluþjónar vinna gott starf, oft við erfiðar og hættulegar aðstæður. Við getum ekki ætlast til að þeir gæti öryggis okkar ef lögin og dómstólarnir veita þeim ekki þá vernd sem hægt er.
Nýleg Gallup könnun sýnir að 79% þjóðarinnar treystir lögreglunni. Nú reynir á Alþingi, sem löggjafann og fulltrúa þjóðarinnar, að sýna að lögreglan geti treyst okkur.
Baldur Ágústsson