Hver á sér meðal þjóða þjóð,

er þekkir hvorki sverð né blóð

en lifir sæl við ást og óð

og auð, sem friðsæld gaf?

Við heita brunna, hreinan blæ

og hátign jökla, bláan sæ,

hún unir grandvör, farsæl, fróð

og frjáls - við ysta haf.

 

Svo hljómar annað erindi “Hver á sér fegra föðurland” sem flestir kunna.

Svo sannarlega er ástæða til að fagna í dag, og alla daga, frelsi, friði og farsæld þjóðarinnar. Einangrun landsins hefur átt stóran þátt í að tryggja okkur frið, frelsi fengum við 1918 og fullveldi 1944. Uppúr því og ekki síst hina síðustu áratugi, hefur farsæld aukist amk. ef miðað er við lífsgæði og fjárhag. Að stórum hluta er það að þakka dugnaði og stórhug þjóðarinnar sem oft hefur með samhug og djörfung lyft Grettistaki. Þessu getum við fagnað og verið stolt af. Við getum líka verið þakklát fyrir landið okkar. Margar þjóðir búa við þurrka eða flóð sem eyðileggur uppskeru og eignir. Hvirfilbylir sem leggja heilar borgir í eyði eru óþekktir hér. Þar að auki höfum við jarðhita og gnægð vatns bæði til neyslu og raforkuframleiðslu. Náttúrufegurð er í senn einstæð og sérstæð.

 

Ef við lítum til annarra landa blasa við vandamál sem við höfum sloppið við: Trúarbragðadeilur, ættbálkaerjur, landamæradeilur og kynþáttaóeirðir svo eitthvað sé nefnt. Við höfum að mestu tekið því sem sjálfsögðum hlut að slíkt gerist ekki hér. Það skýrist af sögu okkar og fjarlægð frá öðrum þjóðum. En rétt eins og við trúðum því fyrir um 30 árum að fíkniefnavandi myndi aldrei berast til Íslands, getur slíkt gerst. Við verðum að læra af sögunni og öðrum þjóðum.

 

Nú þegar heimurinn er að breytast getum við ekki lengur tekið frið og frelsi sem sjálfgefnu ástandi. Við höfum látið hafa okkur út í þátttöku í stríðsrekstri – þannig getur friður glatast. Sumir ráðamenn þjóðarinnar svo og hagsmunaaðilar, róa að því öllum árum að við göngum í ESB – þannig glatast sjálfstæðið. Lífsgæði eru að breytast. Þeir ríku verða ríkari og þeir fátæku fátækari – þannig glatast farsæld þjóðarinnar. Við skulum renna augum yfir ljóðlínurnar hér að ofan og finna hvað skiptir mestu – hvað hjartað kallar á.

Um leið skulum við hafa hugfast að við erum okkar eigin gæfu smiðir. Lærum af fortíð og nútíð og mótum síðan framtíðina - hún er á okkar ábyrgð. Okkar er valið.

 

En það er sérstök ástæða til að gleðjast í dag.

Við höfum það enn umfram aðrar Evrópuþjóðir að hafa ekki bundið okkur á klafa ESB – og getum þess vegna hafnað því. Við búum ekki við trúarbragða og kynþáttadeilur – og getum enn stýrt því að svo verði ekki. Farsæld, jafnrétti, réttlæti og jöfnun þjóðarauðs er í okkar höndum – og við getum því enn mótað þá þætti þjóðfélagsins. Hér er með öðrum orðum ekkert að sem ekki má laga.

Lýðveldið Ísland er 62 ára í dag. Fögnum því frelsi að öll þessi mál eru enn í okkar höndum, og látum hendur standa framúr ermum – það er verk að vinna. Lýðveldi þýðir einmitt það; þjóðin ræður. Fögnum því í dag og alla daga.

 

Lesum þriðja erindi “Hver á sér fegra föðurland” og spyrjum okkur aftur: Hvað skiptir okkur mestu, hvernig þjóðfélag viljum við og hvernig viljum við skila af okkur til barna okkar og barnabarna.

 

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,

um eilífð sé þín gæfa tryggð,

öll grimmd frá þinni ströndu styggð

og stöðugt allt þitt ráð.

Hver dagur líti dáð á ný,

hver draumur rætist verkum í

svo verði Íslands ástkær byggð

ei öðrum þjóðum háð.

Svo aldrei framar Íslands byggð

sé öðrum þjóðum háð.

 

Gleðilega þjóðhátíð.

 

Baldur Ágústsson

baldur@landsmenn.is