Áróðurinn gegn Íbúðalánasjóði heldur áfram með auknum þunga. Sérfræðingar ýmissa fjármálastofnana, innlendra sem erlendra koma fram í fjölmiðlum og hamra á því að starfsemi Íbúðalánasjóðs hamli virkni peningamálastefnu Seðlabankans. Íbúðalánasjóður er gerður einn aðal meinvætturinn í íslensku efnahagslífi og verðbólguvaldur. Höfuðeinkenni þessa málflutnings fulltrúa fjármálastofnananna er að engin rök fylgja fullyrðingum þeirra um skaðsemi Íbúðalánasjóðs. Engin lýsing kemur fram á því hvernig skaðsemi lánastarfsemi sjóðsins er háttað umfram lánastarfsemi bankanna. Aðeins er vitnað með óljósum hætti í skýrslur eins og Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Íbúðalánasjóður er hins vegar rekinn þannig að hann standi aðeins undir rekstarkostnaði. Við boðaða breytingu yrði fákeppni og kostnaður aukin á íbúðalánamaraði. Eru það hagsmunir almennings að svo sé að málum staðið? Hvað segja launþegar um það? Ráð áðurnefndra sérfræðinga og stofnana eru einnig þau að hækka beri stýrivexti Seðlabankans sem nú eru 13% Slík ráðstöfun drægi eitthvað úr eftirspurn eftir lánum, sem þýddi aðeins það í raun að bankarnir tækju eitthvað minna af erlendum lánum á lágum vöxtum til að endurlána hér á háum vöxtum. En stýrivaxtahækkun þýddi aðallega almenna vaxtahækkun á lánum sem þegar hafa verið tekin. Sem aftur þýðir aukinn hagnað lánveitenda bankanna úr vasa skuldaranna í landinu. Þannig yrði enn frekari tilfærsla á fjármunum frá þeim til bankanna. Ráð innlendu og erlendu fjármálasérfræðinga miða þannig öll að því að þjarma að almenningi í þágu auðugra fjármálastofnana.