Áróðurinn gegn Íbúðalánasjóði heldur áfram með auknum þunga. Sérfræðingar ýmissa fjármálastofnana, innlendra sem erlendra koma fram í fjölmiðlum og hamra á því að starfsemi Íbúðalánasjóðs “hamli virkni peningamálastefnu Seðlabankans”. Íbúðalánasjóður er gerður einn aðal meinvætturinn í íslensku efnahagslífi og verðbólguvaldur. Höfuðeinkenni þessa málflutnings fulltrúa fjármálastofnananna er að engin rök fylgja fullyrðingum þeirra um skaðsemi Íbúðalánasjóðs. Engin lýsing kemur fram á því hvernig skaðsemi lánastarfsemi sjóðsins er háttað umfram lánastarfsemi bankanna. Aðeins er vitnað með óljósum hætti í skýrslur eins og Seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hverjir eru að skaðast á starfsemi Íbúðalánasjóðs? Hverjir eru græða minna en ella vegna lánastarfsemi sjóðsins? Eru það ekki bankarnir?

Hvaða ráð hafa svo þessir sérfræðingar og fjármálastofnanir til að auka “virkni peningamálastefnu Seðlabankans?” Ráð þeirra er að gera Íbúðalánasjóð að einkareknum heildsölubanka. Og hvað er það sem breytist við það að Íbúðalánasjóður verði einkarekinn heildsölubanki? Jú það að þá fá bankarnir að lána almenningi þá peninga sem sjóðurinn lánar nú milliliðalaust. Það verður til milliliður sem krefst aukins kostnaðar fyrir lántakandann í hærri vöxtum og þjónustugjöldum. Og hluthafar bankanna krefjast arðsemi af starfsemi þeirra.

 

Íbúðalánasjóður er hins vegar rekinn þannig að hann standi aðeins undir rekstarkostnaði. Við boðaða breytingu yrði fákeppni og kostnaður aukin á íbúðalánamaraði. Eru það hagsmunir almennings að svo sé að málum staðið? Hvað segja launþegar um það? Ráð áðurnefndra sérfræðinga og stofnana eru einnig þau að hækka beri stýrivexti Seðlabankans sem nú eru 13% Slík ráðstöfun drægi eitthvað úr eftirspurn eftir lánum, sem þýddi aðeins það í raun að bankarnir tækju eitthvað minna af erlendum lánum á lágum vöxtum til að endurlána hér á háum vöxtum. En stýrivaxtahækkun þýddi aðallega almenna vaxtahækkun á lánum sem þegar hafa verið tekin. Sem aftur þýðir aukinn hagnað lánveitenda – bankanna úr vasa skuldaranna í landinu. Þannig yrði enn frekari tilfærsla á fjármunum frá þeim til bankanna. Ráð innlendu og erlendu fjármálasérfræðinga miða þannig öll að því að þjarma að almenningi í þágu auðugra fjármálastofnana.

Íbúðalánasjóður hefur það sem af er þessu ári lánað um 15 miljörðum minna en á sama tímabili í fyrra en heildarútlán bankanna hafa aukist á sama tíma. Af hverju skýra sérfræðingarnir ekki hversvegna lán Íbúðalánasjóðs eru meiri skaðvaldur í efnahagslífinu en lán bankanna? Það er einfaldlega vegna þess að rök þeirra standast ekki. Málflutningur þeirra er áróður fyrir hagsmunum bankanna gegn hagsmunum almennings. Þeir eru starfsmenn fjármálastofnananna. Hvað gengur þeim stjórnmálamönnum til sem lepja athugasemdalaust upp “fræði” fjármálastofnananna? Þeir verða að gera almenningi grein fyrir því hvers vegna þeir virða hagsmuni bankanna meir en hagsmuni almennings. Frá stjórnmálamönnum hefur ekkert heyrst annað en bergmál af hrópum bankanna

 

Árni Þormóðsson