AGALEYSI hefur verið til umræðu síðustu vikur í fjölmiðlum. Er ef til vill ákveðið agaleysi í íslensku þjóðinni? Margir líta á aga sem eitthvað vont og skelfilegt, en agi er mörk, agi er gæska og kærleikur og það þurfa allir einhver mörk í lífinu.
Reglur um útivistartíma barna og unglinga er hluti af þeim mörkum sem sett eru, en of margir virða ekki þessi mörk. Hvað með hraðatakmarkanir á götum borgarinnar það eru mörk en hvað hefur verið að gerast nú í sumar, alltof margir virða ekki þessi mörk, oft með skelfilegum afleiðingum. Það er merkilegt að fólk skuli ekki geta virt þau mörk sem sett eru.
Við skulum athuga það að við fullorðna fólkið erum fyrirmyndir barna og unglinga, við skulum vera jávæðar fyrirmyndir og fara eftir ríkjandi reglum, ef við brjótum þær erum við ekki góðar fyrirmyndir. Foreldrar eiga að setja börnum og unglingum mörk. Allir þurfa mörk í lífinu bæði börn og fullorðnir. Ef ekki væru sett mörk væri hér hálfgert villimannasamfélag. Hver og einn gerði bara það sem honum sýndist. Það er ekki samfélag sem við kjósum að búa í. Við viljum að allir fari eftir þeim reglum sem settar eru og við viljum einnig geta verið örugg í þjóðfélaginu. Við eigum að geta gengið á götum úti óáreitt.
Börn og unglingar eru yndislegar mannverur. Við megum ekki veita þeim sjálfstæði sem þau ráða ekki við. Það er engum hollt að vera sjálfstæður of snemma í lífinu allra síst unga fólkinu okkar í dag. Foreldrar verða að vita hvar börnin þeirra eru, með hverjum þau eru og hvað þau eru að gera, það eru jú foreldrarnir sem bera ábyrgðina á uppeldi barna sinna. Það verður að setja börnum mörk. En hvaða mörk eru sett börnum sem allt niður í 13 ára eru drukkin niður í bæ hvort heldur sem er á menningarnótt, verslunarmannahelgi eða um aðrar helgar, ráfandi um göturnar langt fram eftir nóttu. Hvar eru foreldrar þessara barna? Hvernig stendur á því að foreldrar leyfa börnum að fara með vinum sínum á útihátíð eins og á Akureyri? Ég sá með eigin augum börn sem voru fermd í vor og aðeins eldri, útúrdrukkin og nokkur augsýnilega í öðrum efnum, reikandi um miðbæ Akureyrar. Þetta var skelfileg sjón, ég spurði mig oft hvar eru foreldrar þessara barna. Hvað er í gangi, þetta eigum við ekki að líða, þetta er ekki komið til að vera, ég samþykki það aldrei. Ég hef horft upp á unglinga verða áfengi og eiturlyfjum að bráð og það er skelfilegt. Mig svíður að heyra fólk tala um að líklega sé þetta bara svona, unglingar eru farnir að drekka svo snemma, aldurinn er alltaf að færast niður. Nei, þetta á enginn að sætta sig við.
Styðjum og styrkjum börnin okkar og verum með þeim, forðum þeim frá neyslu áfengis og/eða annarra vímuefna, freistingarnar eru alls staðar, því miður.
Það er sama hversu lítill hópurinn er sem hér um ræðir einn eða tuttugu, hver og einn einstaklingur er svo dýrmætur. Hvetjum börnin okkar og segjum þeim hversu mikið við elskum þau og verum með þeim, börnin eru það dýrmætasta sem við eigum.
Höfundur er móðir og skólastjóri Brúarskóla.