Guðjón Rúnarsson, framkv.stj. framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja skrifa grein í Mbl. 5. sept. sl. þar sem hann er að reyna að andmæla staðreyndum í grein sem starfsmenn Íbúðalánasjóðs skrifuðu í Mbl. 31. ágúst sl. Margt er undarlegt í grein framkvæmdastjórans og virðist markmiðið vera að villa um fyrir lesendum varðandi starfsemi Íbúðalánasjóðs. Til að mynda gerir hann lítið úr þeirri staðreynd að innkoma bankanna á íbúðalánamarkaðinn, sem hrein viðbót við Íbúðalánasjóð og lífeyrissjóði, hafi átt mikinn þátt í aukinni verðbólgu frá þeim tíma. Þó segir framkvæmdastjórinn að ekki sé um það deilt að lækkaður fjármagnskostnaður húsnæðis hafi átt sinn þátt í að auka verðbólguþrýsting.
Í upphafi samkeppninnar við Íbúðalánasjóð buðu bankarnir að lána allt að 100% kaupverðs/matsverðs íbúðar með 4,15% sem voru svipaðir vextir og Íbúðalánasjóður bauð. Engin takmörk voru á lánsfjárhæð hjá bönkunum. Bankarnir lánuðu einnig veðlán með þessum kjörum án þess að viðskipti færu fram með íbúðir. Margir greiddu upp íbúðalánasjóðslán sín og tóku verulega hærri lán í bönkunum og mismunurinn fór til neyslu. Þetta stóraukna aðgengi að lánsfé, sem varið var til annars en íbúða var aðalástæða aukinnar verðbólgu.
Það að stjórnvöld boðuðu 2004 hækkun veðhlutfalla Íbúðalánasjóðs úr 66% í 90% með þröngum skilyrðum um hámark lánsfjárhæðar við 18 milj. og bindingu láns við kaup eða byggingu íbúðar vega lítið í verðbólgumyndun og stuðluðu ekki að henni. Þá segir framkvæmdastjórinn um boðaða hækkun lána Íbúðalánasjóðs: Slík niðurgreidd ríkiskjör skyldu opin öllum og óháð félagslegum þáttum.
Það er algerlega rangt að lán Íbúðalánasjóðs séu á nokkurn hátt niðurgreidd af ríkinu. Ríkið leggur ekkert fé til niðurgreiðslu lánskjara hjá Íbúðalánasjóði. Ríkið hefur engan kostnað af Íbúðalánasjóði. Ríkissjóður hagnast á sjóðnum og hjá honum er stöðug eignaaukning. Það er því sérkennilegur misskilningur hjá framkvæmdastjóranum að ríkið greiði lán sjóðsins niður.
Til glöggvunar fyrir framkvæmdastjórann eru það niðurgreiðslur á vöru og þjónustu þegar að framleiðanda/seljanda er greitt með vörunni eða þjónustunni þannig að neytandinn greiðir ekki framleiðanda/seljanda fullt verð fyrir. (Ýmsar landbúnaðarvörur eru t.d. niðurgreiddar)
Í þessu sambandi er rétt að geta þess að Íbúðalánasjóður fjármagnar starfsemi sína með lánsfjárútboðum á innlendum markaði. Markaðsvextir sem Íbúðalánasjóður er að greiða eru hærri en vextir sem viðskiptabankarnir eru að greiða af þeim erlendu lánum sem þeir hafa tekið að undanförnu til að fjármagna og endurfjármagna sína lánastarfsemi. Framkvæmdastjórinn segir: Íbúðalánasjóður brást við samkeppninni með því að gerast leiðandi í lækkun vaxta af íbúðalánum sem aftur jók á þenslu og þar með verðbólgu. Í þessu sambandi verður að geta þess að Íbúðalánasjóður lánar aðeins út á íbúðir sem lántaki er að kaupa eða byggja. Það gerðu bankarnir ekki. Þeir lánuðu þeim sem höfðu gott veð og eins og áður sagði fór verulegur hluti lána þeirra í aðra neyslu. Þess vegna hafa Íbúðalánasjóðslán mun minni verðbólguáhrif en lán bankanna. Átti Íbúðalánasjóður að hafa samráð við bankana um vextina? Þarna kemur fákeppnisstefna bankanna vel fram. Fulltrúi bankanna segir í raun: Íbúðalánasjóður heldur niðri vöxtunum.
Eru það ekki augljósir hagsmunir almennings að halda áfram starfsemi Íbúðalánasjóðs til að verjast vaxtaokri? Er ekki augljóst að komist bankarnir yfir starfsemi Íbúðalánasjóðs hækka vextir? Þá segir framkvæmdastjórinn: Húsnæðislán eru áhættuminnstu lán sem veitt eru og mikilvægt fyrir alhliða fjármálafyrirtæki að hafa þau í eignasafni sínu til að dreifa áhættu.
Þarna gerir framkvæmdastjórinn ljósar aðalástæður þess að bankarnir sækja svo fast að hrifsa til sín Íbúðalánasjóð. Þarf frekari vitna við um það hverra erinda þeir stjórnmálamenn ganga sem hafa lýst því yfir að þeir vilji leggja niður starfsemi Íbúðalánasjóðs í núverandi mynd og gera hann að þjónustustofnun fyrir bankana. Um þetta þarf almenningur að hugsa nú í aðdraganda kosninga.
Árni Þormóðsson
Birt í Mbl. 19.09.06