Horfi maður á myndir frá Hubble sjónaukanum og sér þangað sem sólirnar fæðast , þá getur maður eiginlega fundið til stolts yfir því að tilheyra mannkyninu. Þessum örsmáu lífverum í risavöxnum geimnum, sem vita um þetta og sjá. Hugsanir mannsins og tiltektir á vísindasviðinu eru furðuverk, sem gætu fyllt hvern mann stolti. Það eru tiltölulega fáir einstaklingar, sem hafa skipt einhverju meginmáli fyrir mannkynið. Einn af þeim var Einstein og hugmyndir hans um himngeiminn. Maðurinn á kannske ekki sameiginlegt nema nafnið, þó aðrar skoðanir séu í tízku.
Það er önnur hlið á þessu mannkyni, sem lætur mann efast um að þetta sé í raun sama dýrategundin. Einstein skrifaði með öðrum vísindamönnum bréf til Bandaríkjaforseta í byrjun heimstyrjaldar, að ráðast mætti í smíði sprengju eftir jöfnunni um orkuna, massann og ljóshraðann í öðru veldi. Sprengjan varð þó líklega til þess að 3. heimstyrjöld hefur ekki brotist út enn, þó að manndráp gangi víðast hvar alveg þokkalega án atómsins.
Mikill hluti mannkyns játast undir fornaldarkenningar, sem boða heilög stríð gegn vantrúuðum. Nú láta réttrúaðir austur í Iran vinna að bombusmíði fyrir sig samkvæmt jöfnum Einsteins, Þá vantar hvorki sannfæringuna né réttlætinguna fyrir beitingu slíkra meðala svo að féndur þeirra megi öðlast eilífa virðingu fyrir hinni helgu bók.
Hvar fær vísindaleg hugsun hæli ef mannkynið verður ofurselt alræði og ólæsi Ayjatollanna í Iran eða Talibananna í Afganistan ? Er furða þó einhverjir velti vöngum yfir gagnsemi trúarbragða fyrir mannkynið yfirleitt ?
Einskonar hugsanalögregla virðist hindra hér umræður um innflytjendamál. Sá sem lætur uppi ákveðnar skoðanir sínar í kynþáttamálum er hýddur af dómstólum landsins. Er ekki tjáningarfrelsið í raun takmarkað hér eins og Íran ? Enginn ritstjóra íslenzkra blaða hefur birt myndirnar úr Jyllandspóstinum, þó þeir skrifi langt mál um nauðsyn tjáningarfrelsisins ? Skaðaðu ei skálkinn svo hann skemmi þig ekki er auðvitað skynsamleg afstaða.
Þær tölur heyrðust frá Bretlandi, að þeir telja að 17 % þarlendra múslima séu strangtrúarmenn. 4 % þeirra séu reiðubúnir til að deyja í stríði gegn óvinum Islams. Sé þetta rétt tölfræði þá getur hver hugsað sitt. Múhameðsfólki frá suðlægum ríkjum virðist líka gjarnt að lifa fremur eftir framandi venjum sínum en landslögum fósturlandsins
Ísland siglir nú hraðbyri til hins opna fjölmenningarsamfélags, sem enginn vill þó kannast við að hafa markmiðssamþykkt. Nýinnfluttar eiginkonur verða vandamál þjóðarinnar ef sambúðin slitnar. Útlendir eiturlyfjasalar yfirfylla fangelsin okkar en hið forna útlegðarhugtak virðist hafa týnst í áranna rás. Mætti ekki nýta byggingar á Keflavíkurflugvelli til að bæta úr aðkallandi skorti á fangelsaplássi ?
Mörgum finnst ofbeldi of útbreitt í íslenzku þjóðfélagi og að misyndismönnum sé of oft sleppt út að morgni. Sálarlíf gerendanna virðist stundum vekja meiri athygli en fórnardýranna. Eitthvert kristilegt umburðarlyndi, opin fangelsi og skilningur til handa hinna agalausu virðast eiga að koma í stað beinna refsinga. Af hverju skyldi þá ekkert eiturlyfjavandamál vera til í Singapúr meðan það vex hér ?
Munu trúflokkar fara brátt að hafa áhrif á Alþingi Íslendinga ? Einhver vill kannske velta því fyrir sér hvernig Iran fór að því að breytast úr hugsanalega frjálsu framþróunarsamfélagi undir keisaranum í miðaldaríki réttrúnaðar ? Hvernig þriðjaríki Hitlers varð til í landi Göthes og Einsteins ?
Andvaraleysi getur haft ófyrirséðar afleiðingar. Þjóð, sem leiðir sífellt hjá sér óþægilega hluti, getur vaknað við vondan draum. Hvernig skyldu menn sjá framtíð Íslands þegar hér verða þúsundir súnní-og sjítamúslima, auk annarra þúsunda fólks af framandi kynstofnum ? Erum við ekki þegar búin að opna landamæri okkar öllu meira en sumar nágrannaþjóðirnar ? Getur sundurlynd þjóð verið andlega viðbúin innrás ? Fengist þjóðin núna í nýtt landhelgisstríð fyrir kvótagreifana ? Munum við eiga eitthvað sameiginlegt þjóðerni að verja ?
Það blasir við örbirgðarfólki heimsins, að hér er feitt land, sem innfæddir virðast ekki láta sér sérlega annt um. Þegar ýmsum forystumönnum þess virðist meira að segja liggja beinlínis á að afhenda landið vaxandi straumi óflokkaðra innflytjenda, þá er skiljanlegt að biðraðirnar lengist. Og þó að margir innflytjenda okkar séu til muna betri en ýmsir þeirra sem fyrir eru, þá telja margir ekki liggja svona mikið á., Hvernig skyldi innflytjendamálum annars vera háttað í Lichtenstein ?
Hverskonar þjóð kýs til Alþingis í vor ? Um hvað verður kosið ? Hverskonar þjóð eru eiginlega Íslendingar ?
Halldór Jónsson verkfræðingur.