Margrét Sverrisdóttir: Fyrir tæpum fjórum árum fór þverpólitískur hópur fólks að koma reglulega saman til að ræða nauðsyn þess að stofna samtök velunnara Ríkisútvarpsins. Ástæðan fyrir tilurð þessa hóps voru m.a. hugmyndir um að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Lögð var áhersla á að snúa vörn í sókn og efla Ríkisútvarpið til að gegna því hlutverki sem það hefur skv. núgildandi lögum, svo það mætti áfram vera ríkisútvarp í almannaeign og hornsteinn menningar og lýðræðis í landinu. Þessi hópur stofnaði síðan samtökin Hollvinir Ríkisútvarpsins haustið 2002 á fjölmennum fundi í Norræna húsinu.

 

Lýðræðisleg skylda RÚV

Mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins er í þágu lýðræðisins, sem endurspeglast í því að Ríkisútvarpinu ber samkvæmt lögum að gæta óhlutdrægni, vernda skoðanafrelsi og halda uppi fjölbreyttum skoðunum. Um lögbundið hlutverk stofnunarinnar segir svo í 3. gr. Laga um Ríkisútvarp:

Ríkisútvarpið skal leggja rækt við íslenska tungu, sögu þjóðarinnar og menningararfleifð. Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Það má eflaust deila um það hvort Ríkisútvarpið leitast ávallt við að rækja þessa skyldu. Hins vegar er óumdeilanlegt að fjölmiðlar í einkaeigu hafa engar slíkar skyldur. Þeir ákveða sjálfir hverjir fá að tjá sig og þeir geta birt efni að eigin geðþótta.

Það er óhætt að fullyrða, að enginn ljósvakafjölmiðill stendur Ríkisútvarpinu framar hvað varðar fjölþætta og vandaða dagskrárgerð. Hugmyndir um einkavæðingu hefðu það líklega í för með sér að þetta vandaða efni hyrfi að mestu, vegna þess að það er ekki nógu ,,markaðsvænt\" í augum eigenda á frjálsum markaði. Markmið einkareksturs er nefnilega aðeins eitt: Að skila eigendunum fjárhagslegum hagnaði.

 

Sporin hræða

Erfitt hefur reynst að fá gild rök fyrir því að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag.

Þó hafa þær röksemdir heyrst að stofnunin þurfi að geta brugðist skjótt við í samkeppni og verið skjót til ákvarðana. Hvað er því til fyrirstöðu að stofnun sé breytt þannig að hún bregðist skjótt við samkeppni þó svo að hún sé ekki gerð að hlutafélagi? Í hlutafélagi felst hins vegar að til greina kæmi að selja það hlutafélag. Það er óhætt að segja að sporin hræði ef um væri að ræða hlutafélag í eigu ríkisins, því hingað til hafa slík hlutafélög undantekningarlaust verið seld. Minnsta vísbending í þá átt er að mati okkar sem stöndum að Hollvinasamtökum RÚV beinlínis hættuleg fyrir íslenska menningu, fyrir öryggi landsmanna og ekki síst fyrir fjölmiðla landsins með tilliti til ríkjandi samþjöppunar í þeim geira. Lýðræðisþróun í landinu er hætta búin ef frjálst Ríkisútvarp verður lagt af sem stofnun í eigu þjóðarinnar allrar.

 

Aðalfundur samtakanna verður haldinn í Norræna húsinu sunnudaginn 26. október nk. kl. 16 og eru allir velunnarar stofnunarinnar hvattir til að mæta og leggja með því málefninu lið. Kosin verður ný stjórn og vænta má fjörugra umræðna um hlutverk samtakanna í framtíðinni.

 

Margrét K.Sverrisdóttir

stjórnarmaður í Hollvinasamtökum Ríkisútvarpsins