Þorvaldur Geirsson fjallar um málefni innflytjenda: \"Við viljum að fólk sem flytur hingað til lands geri það með það fyrir augum að laga sig að siðum og venjum íslensku þjóðarinnar\"

 

MÉR blöskraði þegar ég hlustaði á Ísland í bítið 8. nóvember, en þar mættu Guðjón Arnar úr Frjálslynda flokknum, Erla Ósk, formaður Heimdallar, og Amal Tamini frá Alþjóðahúsi. Skilningsskortur og ótrúlegir fordómar í garð Íslendinga, sem vilja tjá sig um þessi mál, einkenndu umræðuna. Frjálslyndi flokkurinn hefur verið að benda á að Íslendingar séu ósáttir við, að miklum meirihluta, að aðgerðir stjórnvalda í innflytjendamálum eru á brauðfótum. Það vantar sárlega ákveðna og skýra stefnu í þessum málum, áður en landið yfirfyllist af innflytjendum og að Íslendingar óttast það sem hefur gerst víða, þegar innflytjendur safnast saman í hópa og öfgar hafa þróast í ýmsar áttir, kristnum og vestrænum samfélögum til mikils ama. Fyrir það á að úthrópa frjálslynda, sem kom skýrt fram hjá Erlu. Hún byrjaði strax að þvaðra hina vel þekktu réttpólitísku flokkseigendaþvælu, sem eru mörg orð um ekki neitt og skila engum árangri. Þetta skín líka í gegn hjá flestum þingmönnum landsins og sýnir augljósa gjá á milli þings og þjóðar. Þar að auki er óþolandi að heyra fullyrðingar og rangfærslur, bæði Erlu og Amal, um að Frjálslyndi séu að ala á fordómum og hræðslu og sýnir að þær skortir þroska til að ræða þetta mál á vitrænan hátt. Hjá Amal kom svo í ljós að Íslendingar mega ekki hafa skoðun á þessu öðruvísi en að samþykkja að það megi ekki hefta innflutning innflytjenda eða skipa málum með öðrum ákveðnum hætti en leggur bara til, sem er góðra gjalda vert, að hafa íslenskukennsluna ókeypis og taldi að það vantaði 4.000 útlendinga í viðbót, sem er reyndar ótrúlegt hugarflug.

Ég veit ekki hvar Amal fær sína sýn fyrir Ísland og heldur ekki hvernig sú sýn er, en ég hef miklar áhyggjur af því hvaða sýn fólk hefur, sem talar svona. Ég ber fulla virðingu fyrir útlendingum, Amal sem öðrum, en ég, eins og flestir aðrir Íslendingar, er ekki sammála þessari yfirkeyrslu og stjórnlausu fólksfjölgun og þenslu í þjóðfélaginu.

 

Það er kominn tími til að nýlega innfluttir innflytjendur, alþingismenn og stjórnvöld, sem eiga að vera málsvarar íslensku þjóðarinnar, geri sér grein fyrir því að Íslendingar vilja takmarka fjölda innflytjenda til að við ráðum við að taka við fólkinu inn í samfélagið þannig að við breytumst ekki í innflytjendanýlendu eftir 10-20 ár, þar sem allt logar í ófriði og óleystum ágreiningsefnum. Er erfitt að skilja það? Við viljum að fólk sem flytur hingað til lands geri það með það fyrir augum að laga sig að siðum og venjum íslensku þjóðarinnar og sé sæmilega fært á íslenska tungu, sérstaklega eftir fárra ára dvöl. Þeir innflytjendur sem vilja halda í siði og venjur sinna þjóða, tala sitt mál og vilja alls ekki laga sig að venjum okkar geta notið lífsins í sínu heimalandi. Þessi skoðun hefur hins vegar ekkert með það að gera að loka landinu og stöðva öll samskipti við aðrar þjóðir og annað fólk af öðru þjóðerni með önnur trúarbrögð eða aðra siði. Þetta þýðir bara að ég, til að mynda, vil fá að hafa mína siði, mín sérkenni og mitt tungumál, takk fyrir! Sem þýðir íslenska í almennum samskiptum.

 

Í þessari hófstilltu umræðu af hálfu Frjálslynda flokksins hefur risið upp alda fordóma og skítkasts af hálfu pólitískra flokkseigenda rétttrúnaðarsinna og svo innflytjenda og þá helst múslima, sem eru þekktir fyrir að vera ósveigjanlegir nánast alls staðar þar sem þeir hafa komið að í öðrum löndum og túlka nánast öll skoðanaskipti í þessum málum sem rasisma gegn sér, sem er orðið að mínu mati óþolandi útúrsnúningur.

 

Ég vil fá að hafa óhefta skoðun og tjá hana, ég vil hafa þjóð mína og land eftir því sem skipast af einkennum landsmanna og hjartalagi, landsins gagni og nauðsynjum og mótun eftir vilja þjóðarinnar. Ég vil virða fórnir þjóðar minnar, baráttu forfeðra minna og mikilmenna sem gáfu þjóðinni baráttuþrek á ýmsum sviðum mannlífsins og ég vil fá að gera þetta án þess að þurfa að vera eins og barinn hundur, heldur stoltur af því að þjóðin hefur sín sérkenni. Að við höldum áfram að berjast fyrir okkar tilveru, rétti og stöðu í samfélagi þjóðanna, um leið og við aðlögumst EFTIR OKKAR VILJA öðrum þjóðum og bjóðum öðru fólki, hverrar þjóðar eða trúarbragða sem er, að aðlagast íslensku þjóðlífi og háttum, með sín sérkenni sem innlegg í þjóðararfinn. Ég hafna því að ég sé rasisti sem sé að ala á fordómum vegna þess að ég leyfi mér að móta þjóðfélagið eftir þeirri sannfæringu minni sem ég tel best vera fyrir land og þjóð. Ég fordæmi fordóma gagnvart kynþætti, trú, litarhætti eða hverju öðru sem aðgreinir menn, en þar með gef ég ekki upp rétt minn til að skipa mínum málum eftir því sem ég tel réttast að gera hverju sinni og þeir sem ekki skilja þetta verða bara að eiga það við sjálfa sig.

 

Annað sem mér finnst mikið til hafa vantað í umræðuna er sú staðreynd að atvinnurekendur gera bókstaflega allt til að þurfa ekki að hækka launin og helst lækka þau og þá koma innflytjendur til góða sem sætta sig við láglaunastefnu, eru óöruggir með stöðu sína og taka því sem að þeim er rétt og það skekkir stöðuna í launabaráttunni.

 

Höfundur er kerfisfræðingur.