Jón Hjartarson, bæjarfulltrúi VG í sveitarfélaginu Árborg, skrifar um græðgi:

"Hvernig má það vera að græðgin sé næstum álitin dyggð, jafnvel bjargvættur heilla sveita?"

 

Í ÞÚSUND ÁR hefur íslensk þjóð norður við Íshaf duðrað við sitt, tekist á við náttúruöflin, harðindi og sóttir og haft betur, alltaf tórað og náð að flytja líf kynslóða á milli. Hún hefur litið til með náunganum, borið fisksporð í hús þar sem minna var fyrir, leitað að þeim sem lentu í villum á fjalli og ætíð talið það til dygða að hjálpa til ef vandræði steðjuðu að eða slys bar að höndum.

Lausafé fannst ekki í handröðum fólksins utan kannski fáeinir skildingar hjá betri bændum sem voru svo sem ekki neitt. Fólk trúði því að aðeins væru tveir lestir sem orð væri á gerandi annað var leti en hitt græðgi og var græðgin sínu verri og hlaut að fara illa fyrir hverjum þeim sem léti hana stýra lífi sínu. Þar var kölski sjálfur sjaldan langt undan. Ekki eldri maður en undirritaður úr lítilli sveit norður á Ströndum ólst upp í anda þessara lífsgilda þar sem dygðirnar voru aðeins tvær, vinnusemi og hjálpsemi til munns og handa. Meira að segja Ennis Móri gerði sér frekar dælt við þá sem hreyktu sér og söfnuðu í "sálina" (sbr: seint fyllast "sálir" prestanna).

 

Hvað hefur breyst?

Hvernig má það vera að græðgin sé næstum álitin dyggð, jafnvel bjargvættur heilla sveita? Einn fagran haustdag stóð ég á verðandi botni Hálslóns, á 60 metra dýpi, þar sem á aðra hlið mér þrumaði ferlegt fljótið í allri sinni voldugu tign gegnum gljúfur, yfir grjót og klungur ófært öllu nema fuglum himinsins en á hina hlið framundan gnæfði nær fullbúin stíflan, minnisvarði græðginnar. Þetta mikla finngálkn skapað af fólki sem ekkert okkar þekkir, né veit nein deili á. Fólki sem hefur enga löngun til að tylla sér kvöldstund á stein og horfa á ósnortin öræfi í sinni fegurstu birtingarmynd.

 

Með hjálp innlendra málaliða leggja þeir undir sig dýrmætustu eign þjóðarinnar, landið sjálft. Stærstu ósnertu víðerni í Evrópu eru nú orðin eyðileggingunni að bráð, minnisvarði græðginnar eins og fleygur í austuröræfum Íslands. Hvað næst? Torfajökulssvæðið, Langisjór, Skagafjarðarfljótin, Brennisteinsfjöll og áfram má telja. Komandi kosningar eru kannski öðru fremur baráttan um endurreisn íslenskra dyggða, þar sem trúin á landið og þjóðina og hinn venjulega mann, situr í öndvegi.