Með baráttufundi AFA viljum við virkja afl aðstandenda til áhrifa á stjórnvöld til að koma með úrbætur í búsetu og umönnunarmálum aldraðra núna, það er ekki hægt að fresta því til næstu ára eins og gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi frumvarpi til fjárlaga 2007. Aðstandendur og aldraðir sætta sig ekki við það og segja: NÚNA SIV - EKKI SEINNA!!! Í sumar gaf heilbrigðisráðherra út bæklinginn Ný sýn – nýjar víddir. Í honum segist hún muni leggja áherslu á að gera breytingar og endurbætur á stofnunum sem ekki standast kröfur samtímans. Einnig að leggja áherslu á uppbyggingu öldrunarrýma á næstu árum í samræmi við fyrirliggjandi þörf. Fínt, þetta er á okkar óskalista en hvað er hægt að gera strax? Þeir sem bíða á biðlistum bæði heima hjá sér og á Landspítala –háskólasjúkrahúsi þurfa úrbætur núna. Það er hægt að gera ýmislegt m.a. flýta framkvæmdartíma og bjóða upp á skammtímaúrlausnir meðan byggt er. Vilji er allt sem þarf!

 

Hjúkrunarheimilið Sóltún

Samkvæmt fjölmiðlaumfjöllun um hjúkrunarheimilið við Sóltún voru forsvarsmenn þess tilbúinir til að hefja stækkun þess um 109 rými fyrir tveimur árum, auk þess að bjóða upp á dagvistunarúrræði og skammtímavistun eins og helgardvöl fyrir minnissjúka. Ef gengið hefði verið til samninga við Öldung hf. á þeim tíma væri í þeirri nýbyggingu verið að undirbúa móttöku fyrstu heimilismannanna á næstu vikum. Þessi stækkun hefði getað losað öll rýmin sem aldraðir bíða í á LSH í dag. En ekkert hefur gerst í þessu máli. Lóðin stendur óhreyfð, teikningarnar eru tilbúnar og byggingarleyfi hafði fengist. Svo virðist einnig sem heilbrigðisráðuneytið standi í vegi fyrir gerð sambærilegra samninga við önnur hjúkrunarheimili, sem þó óska þess. Þetta er mjög gagnrýnivert því ráðuneytið veit ekki nákvæmlega hvaða þjónustu er verið að veita á flestum hjúkrunarheimilum landsins. Árleg upphæð í ár er um 15 milljarðar. Slíkir samningar eru ein af tillögum og ábendingum sem settar eru fram í Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðnar frá október árið 2005 en þar segir á bls. 12: “Telja verður að stjórnvöld ættu að setja fram kröfur um lágmarksþjónustu öldrunarheimila sem rekin eru fyrir opinber framlög, þ.e. magn og gæði þjónustu og aðbúnað íbúa. Slíkt veitti heimilunum aukið aðhald og stuðlaði að auknu jafnrétti þeirra sem þar dvelja, auk þess sem eðlilegt má telja að ríkið viti hvaða þjónustu það greiðir fyrir.” Eftir hverju er beðið? AFA vill að fjölgun hjúkrunarplássa verði hraðað sem mest og að aldraðir og aðstandendur þeirra líði ekki lengur fyrir úrræðaleysi heilbrigðisyfirvalda undanfarin ár.

 

Sjúklingar með minnssjúkdóma.

Nú mun vera sex mánaða bið eftir sjúkdómsgreiningu á Minnismóttöku Landakots sem er eini staðurinn sem hún fer fram á. Einnig er eins árs bið eftir plássi á sérhæfðum dagþjálfunardeildum í Reykjavík. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Það er nauðsynlegt að þessir sjúklingar fái greiningu og sérhæfða meðferð svo fljótt sem auðið er. Vanlíðanin og óvissan er nógu slæm við bestu aðstæður. Aðstandendum ber saman um að flestum líði mjög vel á dagþjálfunardeildunum og það léttir miklu álagi af þeim sem heima eru. Þessar dagdeildir eru í dag sumar reknar í fyrrum íbúðhúsnæði. Það ætti að auðvelda fjölgun þeirra. Ég vil einnig varpa fram hugmynd sem alls ekki er mín, en hún er sú að einhverjar þessara dagdeilda verði nýttar líka til hvíldarinnlagna. Þ.e þar sé þeim sem á þurfa að halda veitt skammtíma sólarhringsþjónusta í kunnuglegu umhverfi. Margar ástæður geta verið fyrir nauðsynlegri skammtímainnlögn. Aðstandendur þessara sjúklinga eru í stöðugu sorgarferli frá greiningu sjúkdómsins og uns yfir lýkur. Það er mjög sárt að sjá ástvin sinni hverfa inn í annan heim sem maður hefur ekki aðgang að, en vera samt á lífi og þarfnast stöðugt meiri aðstoðar. Sjá persónueinkenni mást út og persónulega færni til sjálfsbjargar dvína. Þetta er öðru vísi sorgarferli heldur en við andlát ástvinar sem margir þekkja og allir vita að ekki verður undan komist. Sjúklingur með minnissjúkdóm sem ekki fær sérhæfða þjónustu á réttum tíma mun einnig líklega þurfa fyrr á mikilli stofnanaþjónustu að halda.

 

Vilji er allt sem þarf

Jafnvel þó að aukið verði við þjónustu heimahjúkrunar og félagslegrar heimaþjónustu þá munu margir Alzheimersjúklingar þurfa á stofnanaþjónustu að halda og jafnvel verða hlutfallslega fjölmennir inni á stofnunum heldur en þeir eru í dag. Það þarf að fjölga hjúkrunarrýmum núna og opna fleiri sérhæfðar dagdeildir fyrir minnissjúka. Bæta þarf kjör starfsfólksins sem veitir umönnunina og gera þessi störf eftirsóknarverð.

Íslendingar, þrýstum á stjórnvöld til að setja nauðsynlega fjármuni á fjárlög ársins 2007, það er ekki ásættanlegt að bíða í 4 ár. Komum öldrunarmálunum í það horf sem sæmir Íslandi árið 2006.

Fjölmennum á baráttufund AFA í Háskólabíói kl. 15:00 þann 25. nóvember nk.

NÚNA – EKKI SEINNA