Í dag, laugardag, kl. 15 boðar afi til baráttufundar í Háskólabíó. Reyndar er afi sjálfur ekki fundarboðandi, enda orðinn of gamall til að standa í slíku, auk þess ekki vanur að gera miklar kröfur fyrir sjálfan sig. Fundurinn er því boðaður fyrir hann - og ömmu - en í nafni AFA Aðstandendafélags aldraðra.
Við erum ekki óvön að heyra af baráttufundum þar sem kröfur eru uppi og ályktanir samþykktar. Það eru hinsvegar nokkur atriði sem gera þennan fund óvenjulegan.
Í fyrsta lagi er fundurinn ekki boðaður til að krefjast hagsbóta fyrir þá sem hann boða eða sækja nema að litlu leiti. Hann er boðaður til að berjast fyrir mannréttindum afa og ömmu, pabba og mömmu sem mörg hver komast ekki einu sinni á fundinn.
Í öðru lagi er hann boðaður til að krefjast mannréttinda sem er ekki algengt á Íslandi. Hvað annað getum við kallað kröfur um aðhlynningu, reisn og fjárhagslegt sjálfstæði til handa þeim sem strituðu, byggðu upp landið, börðust fyrir sjálfstæði þess og komu okkur sem yngri erum til manns og mennta. Hvers munum við sjálf óska okkur til handa þegar aldurinn færist yfir og heilsan gefur sig ? Og myndum við ekki telja það til sjálfsagðra mannréttinda í velferðarþjóðfélagi eins og við búum í ?
Fjölbýli ókunnugra - líkt og tíðkaðist í verbúðum fyrr á öldum, skortur á hjúkrunar- og vist-rými svo og skattaleg refsing fyrir dugnað og fyrirhyggju er blettur á þjóðfélaginu. Þessu ríka þjóðfélagi sem talar fjálglega um milljarðahagnað ríkissjóðs, jarðgöng gegnum hvern hól, glæsibyggingar, virkjanir og flugvallarflutning, eins og allt sé þetta sjálfsagt og innan seilingar. Og hvaðan kemur fé til alls þessa? Það fæst að hluta fyrir sölu á ríkiseignum sem afi og amma, pabbi og mamma strituðu fyrir og byggðu upp sem þjóðareign.
Persónulega þökkum við afa og ömmu hvert í sínu lagi innan fjölskyldunnar takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Sem fjöldahreyfing þökkum við þeim sameiginlega með því að mæta öll á fund og segja sýnum öldruðum þá virðingu og viðmót sem þeir eiga skilið.
Stjórnmálamennirnir eiga næsta leik. Ætla þeir loksins með fjárlögum og breyttum lífeyrissjóðalögum - fyrir vorkosningar - að segja kærar þakkir og afsakið biðina ?
Baldur Ágústsson
Höf. er fv. forstjóri og frambjóðandi í forsetakosningum 2004
baldur@landsmenn.is