Gunnþór Guðmundsson, rithöfundur og fyrrum bóndi, fjallar um þjóðmál.

 

NÚ ERU aðeins nokkrir mánuðir þar til þjóðin gengur til kosninga. Það virðist liggja í loftinu, að nú standi þjóðin á mjög örlagaríkum tímamótum.

 

Lýðræði og friður hefir verið Íslendingum í blóð borið og þjóðin hefir aldrei haft eigin her. En lýðræðið er vandmeðfarið, og ég veit ekki hvort nokkur einræðisherra hefir viðurkennt það að þjóð hans búi við einræði. Þó að við játum því að við búum við lýðræði, þá virðist þó víða pottur brotinn í þeim efnum. Valdamenn hafa tekið afdrifaríkar ákvarðanir án þess að spyrja þing eða þjóð. Þar hafa þeir farið alvarlega út af sporinu.

Hitt hefir svo líklega viðgengist hér alla tíð í stjórnmálum, að naumur meirihluti fer öllu sínu fram án þess að taka nokkurt tillit til stjórnarandstæðinga, sem er kannski helmingur þjóðarinnar og stundum meira en það. Stjórnarherrarnir þurfa að hugleiða það, að þeir eru ekki bara að stjórna fyrir sína kjósendur heldur fyrir alla þjóðina. Þetta mætti nú eflaust færa í betra horf með meiri tillitssemi og minna yfirlæti. Þetta þarf næsta ríkisstjórn að hafa í huga, hvort sem það verður hægri eða vinstristjórn. Annars er helmingur þjóðarinnar alltaf í einhverskonar herfjötrum valdhafanna. Taumlaus fjáraustur og allskonar baktjaldamakk í sambandi við kosningabaráttu eru úr hófi fram og er helst til þess fallinn að brengla lýðræðishugsjónina. \"

 

Að kaupa atkvæði\"

Ungur nemi í Verslunarskóla Íslands skrifaði nýlega grein í Morgunblaðið með fyrirsögninni: \"Að kaupa atkvæði\". Neminn, sem heitir því ágæta nafni Laufey Rún Ketilsdóttir, hefir gefið mér leyfi til að birta hér kafla úr athyglisverðri grein hennar um þetta efni. Eftirfarandi kaflar eru úr grein hennar: \"Hringt er í unga kjósendur hvað eftir annað og þeim boðið í stórar veislur þar sem áfengi drýpur af hverju strái og þekktar hljómsveitir leika fyrir dansi.\" Og svo síðar: \"Dæmi eru um að allt að 10 frambjóðendur hringi í sama einstaklinginn með gylliboð um að skrá viðkomandi í flokk fyrir kosningar og úr honum að þeim loknum.\" Hvernig lýst ykkur á? Hvar er virðingin fyrir lýðræðinu, kjósandanum og sjálfum sér? Já, nú eru tímamót. Við megum vara okkur á því, að skerða ekki lýðræðið smátt og smátt þar til við brjótum fjöreggið, sjálft lýðræðið.

 

Stóriðja - náttúra - sjálfstæði

Ég get svo ekki látið hjá líða, að minnast á það sem nú brennur heitast á þjóð vorri; stóriðjan. Þar er mikið glæfraspil í gangi og verður aldrei við það unað af íslenskri þjóð að gera Ísland að einskonar Jamaíka. Fyrir utan loftmengunina og landspjöllin, þá hlaðast upp baneitraðir ruslahaugar með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Og enn er ótalið að þetta getur kostað okkur að Ísland verði ekki lengur sjálfstæð þjóð. Þegar við erum orðin háð stóriðjufurstunum þá eiga þeir hægt með að kúga okkur, þeir hóta að loka ef þeir fá ekki að stækka og þetta hefir þegar gerst hér hjá einu álveri og getur orðið stórhættulegur vítahringur. Þannig getum við orðið ánauðugir þrælar og Ísland verður ekki lengur gott land, fagurt land, heldur ánauðug þjóð í eiturbrasi álkónganna. Enginn Íslendingur vill slíka framtíð.

 

Það tókst að stöðva það að jökulvatni væri hleypt í gegn um Mývatn en það hefur ekki tekist með Lagarfljót. Að virkja jökulleðju og skila komandi kynslóðum aur og drullu að flatarmáli á borð við Hvalfjörð er ótrúleg skammsýni, maður getur varla trúað þessu. Við ættum ekki að þurfa að standa í stríði til að vernda landið okkar. V

 

ið viljum hreint land, fagurt land og frjálsborna þjóð, en ekki þjóð í eiturbrasi og sorphaugum, eigandi það á hættu að missa bæði sjálfsstæðið, andrúmsloftið og landið.

 

Höfundur, Gunnþór Guðmundsson, er rithöfundur og fyrrum bóndi.