Guðrún Anna Finnbogadóttir sjávarútvegsfræðingur skrifar um samfélagsmál: \"Mér finnst eins og mér hafi verið boðið í dans og dansherrann er íslenska ríkið. Það trampar á tánum á mér, er stirt og þursalegt...\"

 

ÞAÐ er undarlegt til þess að hugsa að það að búa í bæjarfélaginu mínu sé orðið svo íþyngjandi og erfitt, þrátt fyrir mikla eljusemi íbúanna og vilja til að vera hér áfram, að það er nær ólíft.

 

Frumkvæði

Þeir eru ófáir einstaklingarnir bæði menntaðir og ómenntaðir sem hafa lagt á sig mikla vinnu til að halda framleiðslufyrirtækjum á Vestfjörðum gangandi. Mikil vinna, mikil ábyrgð því allt þetta fólk vissi að ekki yrði hlaupið að því fyrir starfsmennina að finna sambærileg eða betri störf. Fjöldi fólks um land allt hefur lagt aleiguna undir í þeirri góðu trú að það væri að efla byggð og styrkja sitt sveitarfélag með því að skapa ný störf. Það eina sem hefur mætt þessum ofurhugum eru álögur ríkisins, hátt gengi og áberandi verri samkeppnisstaða vegna samgangna og flutningskostnaðar.

 

Svona ykkur að segja er búið að gera nóg af skýrslum um allt á Vestfjörðum en allan framkvæmdavilja hefur skort til að fylgja eftir þeim niðurstöðum sem þar koma fram. Allar þær skýrslur sem fjalla um ójöfnuð og að ekki hafi í raun verið nein byggðastefna á Íslandi undanfarinn áratug eru vandlega geymdar og gleymdar.

 

Þegar ég svo skoða umhverfið í raun geri ég mér ljóst að ég hef eytt tíma mínum til einskis í allt þetta basl og ég er ekki ein um að átta mig á því að það var vitlaust gefið allan tímann.

 

Samgöngur

Þegar skipaflutningar voru lagðir niður um landið var ljóst að enn myndi flutningskostnaður hækka og enn erfiðara yrði fyrir lítil fyrirtæki að lifa af í samkeppni. Síðan hefur þetta bara versnað og skýringin er \"verðlagsþróun\", \"hækkandi olíuverð\" og \"erfiðar aðstæður\" sem lögðust af meiri þunga á Vestfirðinga en aðra.

 

Stóriðja

Hver sem afstaða Vestfirðinga var til stóriðju fögnuðu þeir með Austfirðingum að nú ætti loks meira af skattpeningum Austfirðinga að renna aftur til þeirra í fjórðunginn. Vestfirðingar hefðu ekki þurft að samfagna svo mjög, því þeir einu sem treystandi var til að slá á þensluna sem af virkjunarframkvæmdunum hlaust voru Vestfirðingar sjálfir með frestun framkvæmda. Þegar Vestfirðingar bentu á að þeir væru hreinlega alveg afskiptir í þróun mála í landinu og að það fjármagn sem hingað streymdi væri mun minna en það fjármagn sem héðan streymdi burt í sameiginlega landssjóði fóru landsfeður okkar að hugsa málið.

 

Þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, kom hingað vestur og var mikið um dýrðir og tilefni til að skála því nú skyldi atvinnulífið eflt og allar aðstæður jafnaðar. Það er ekki gott að telja núllin í gegnum kampavínsfroðu en glöggum áheyrendum á þessum fögnuði varð ljóst að tilefnið var 10 mkr. framlag til atvinnusköpunar. Það var eins vandræðalegt og sagan um nýju fötin keisarans þegar einum fundarmanna varð á að kalla úr salnum að þessi upphæð, sem ætti að efla hér allt, dygði ekki fyrir kjallaraíbúð á höfuðborgarsvæðinu. Menn dreyptu þá á kampavíninu af meiri krafti og létu eins og ekkert hefði í skorist og bentu stjórnendur fundarins á að Vestfirðingum bæri að fagna öllu sem að þeim væri rétt.

 

Fyrirgefið mér, hef ég ekki borgað skattana mína alla mína tíð? Hafa aðrir Vestfirðingar ekki líka þurft að borga skatta til íslenska ríkisins alla sína tíð? Það mætti stundum halda að við værum hér á styrkjum en ég get fullvissað alla um það að íslensku ríkisstjórninni dytti síst af öllu í hug að senda á Vestfirði ölmusustyrki af nokkru tagi. Ég þori að fullvissa alla Vestfirðinga um að þeir hafa með fullri reisn unnið fyrir launum sínum og eiga fullan rétt á fullri þjónustu eins og hún hefur verið skilgreind af ríki og sveitarfélögum. Það litla sem hingað kemur er aðeins til að friða slæma samvisku.

 

Ég verð að segja að ef ég hefði búið síðustu tíu árin í Grafarvogi þá hefði ég ekki setið á fjölda funda um atvinnumál til að leggja drög að stefnu fyrir stjórnvöld. Nei, líklegast hefði ég verið í tómstundastarfi. Það gleymist nefnilega þegar kallað er eftir frumkvæði frá heimamönnum, sem mér finnst hafa verið mikið í gegnum tíðina, að það þarf að hlusta og það þarf að framkvæma. Það er ekki hægt að ætlast til þess að fólk leggi endalausa vinnu á sig og einu launin fyrir alla vinnuna eru að þér er sagt að þú hafir ekki sýnt nógu mikið frumkvæði og kraft. Það fólk sem mótar stefnuna fyrir okkur Vestfirðinga er sama fólkið og mótar stefnuna fyrir alla landsmenn. Við sjáum lítinn árangur af þeirra vinnu og fer hún bæði hægt og hljótt um héruð hér fyrir vestan, enda fylgir sjaldan mikill vilji til framkvæmda, hvað þá fjármagn.

 

Mér finnst eins og mér hafi verið boðið í dans og dansherrann er íslenska ríkið. Það trampar á tánum á mér, er stirt og þursalegt og vill í raun ekkert með mig hafa eða réttara að segja byggðarlagið mitt og fólkið sem þar býr. Það sem er verra hjá okkur Vestfirðingum en forsætisráðherranum er að við höfum enga \"næstbestu\" til að dansa við. Því ef okkar eigið þjóðríki, sem þó þiggur skattana okkar, bregst á allan hátt hvert eigum við þá að leita?

 

Höfundur er B.sc. sjávarútvegsfræðingur og vinnur að rannsóknum.