Það er alltaf dapurt að sjá þá sem geta látið gott af sér leiða misnota völd sín af hroka og lítilsvirðingu gagnvart öðrum. Víða sjáum við sjáum við dæmi þessa: Stundum t.d. í framkomu stjórnmálaflokka og stundum á alþjóðavettvangi þar sem stórþjóðir kjósa frekar að láta sprengjur falla úr flugvélum yfir saklausa, en mat og lyf yfir þá sem há vonlitla baráttu við sjúkdóma og hungurvofuna.

 

Kveikjan að þessari grein er lestur undirritaðs á stefnumálaskrám stjórnmálaflokkanna. Ekki síst þeirra flokka sem stjórnað hafa landinu undanfarin 12 ár. Það er magnað hve margt þessir tveir flokkar finna nú allt í einu þörf til að framkvæma, sem almenningi hefur lengi þótt brýnt, en árin tólf ekki verið hirt um að gera. Áberandi dæmi er kjör og aðbúnaður aldraðra.

 

Þeir sem í tólf ár hafa haft tækifæri til að útdeila réttlæti og hjálp, en ekki gert að gagni, hafa nú skyndilega fengið gífurlegan áhuga á málefnum eldri borgara. Það skildi þó ekki tengjast umræðunni um að eldri borgarar hyggðust stofna sinn eigin stjórnmálaflokk ? Málið snýst nefnilega ekki um gamla fólkið heldur “gömlu atkvæðin”.

 

Ef við skoðum það kjörtímabil sem nú er að ljúka, finnum við mörg önnur mál sem hafa valdið ólgu og reiði stórs hluta þjóðarinnar.

 

Lýðræðið

Árið 2004 neitaði Forseti Íslands að staðfesta fjölmiðlafrumvarpið. Við getum haft skiptar skoðanir á þeirri ákvörðun hans en þetta er vald hans og val. Stjórnarskrá okkar segir tvímælalaust að þegar slíkt gerist skuli leggja málið fyrir þjóðina. Því var lofað en dregið á langinn undir því yfirskyni að lög skorti um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

Eins og við öll vitum fór þessi þjóðaratkvæðagreiðsla aldrei fram. Það er hreint stjórnarskrárbrot. Það sem meira er, núna 3 árum síðar, hafa enn ekki verið sett lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er fádæma hroki og lítilsvirðing við þjóðina. Þetta sýnir að valdamenn gera það sem þeim hentar. Þeir telja sig ekki þurfa að lúta sjálfri stjórnarskránni og vilja þjóðarinnar. Og nú stefna þeir að því blygðunarlaust að afnema neitunarvald forseta, til að tryggja sig gegn því að hann geti vísað málum til þjóðarinnar.

 

Náttúra Íslands

Náttúruvernd bar hátt og eftirminnileg er 15000 manna mótmælaganga sem einn maður, Ómar Ragnarsson stóð fyrir. Hinn virti forseti okkar Vigdís Finnbogadóttir fór með honum í fylkingarbrjósti. Þrátt fyrir þá augljósu andúð sem stór hluti þjóðarinnar hefur sýnt, stefna stjórnarherrarnir áfram á sömu braut. Við verðum að umgangast landið okkar af virðingu og aðeins taka af gæðum þess \"ágirndarlaust eftir þörfum\".

 

Einkavæðingarstefnan

Einkavæðing ríkisfyrirtækja og stofnana fór sem engisprettufaraldur yfir eignir þjóðarinnar. Landssíminn, póstþjónustan og bankarnir fóru fyrir lítið. Svo lítið að hagnaður nýrra eigenda skilaði þeim kaupverðinu á skömmum tíma.

 

Eftir situr fyrri eigandi, þjóðin öll, pínd af háum vöxtum og þjónustugjöldum. Hér er ekki við hina nýju eigendur að sakast, þeir eru aðeins að hámarka hagnaðinn eins og eðli fyrirtækja er. Sumir þeirra eru meira að segja þekktir að því að styrkja góð málefni. Sökin er stjórnarherranna sem sem við kusum til að gæta hagsmuna okkar allra en brugðust okkur.

Og enn skal haldið áfram: Í nýrri stjórnmálayfirlýsingu Sjálfstæðisflokksins segir orðrétt: “Sjálfstæðisflokkurinn vill færa verkefni opinberra stofnana sem lúta að umhverfis- og auðlindamálum í auknum mæli til einkaaðila”. Einnig:” Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila.”

 

Lítum í Morgunblaðið 1. maí, 2007 “

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sagði í ræðu á Húsavík í dag í tilefni af 1. maí, að hann hefði fyrir því heimildir að byrjað væri að undirbúa sölu Landsvirkjunar og búið væri að ákveða að Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins yrði næsti forstjóri Landsvirkjunar.”

 

Og hverju svarar formaður Framsóknarflokksins ? “Jón Sigurðsson, iðnaðarráðherra, sagði við Útvarpið, að ummæli Skúla væru úr lausu lofti gripin.”

 

Í ljósi stefnu Sjálfstæðisflokksins og þess að Landsvirkjun hefur þegar verið breytt í hlutafélag, hverju vilja menn treysta ?

 

Hætt er við að þegar við göngum að kjörborðinu eftir 4 ár eigum við ekki lengur Landsvirkjun – eða Ríkisútvarpið. Það er nefnilega búið að breyta því í hlutafélag líka. Svo mun og fara um fleiri eigur okkar.

 

Ábyrgðin er okkar

Eins og margir vita er undirritaður ekki flokksbundinn og hefur aldrei verið. Hér er því ekki verið að draga taum eins flokks öðrum fremur. En ég vil biðja þig, lesandi góður, að taka ábyrga afstöðu. Það er ekkert lögmál að þú kjósir sama flokk og síðast - hver sem hann var. Það eru heldur engin rök fyrir því að kjósa þann sem auglýsir mest – þú ert ekki til sölu. Ég hvet þig til að skoða menn og málefni og spyrja sjálfa/n þig: Hverjum treysti ég – hvern vil ég “ráða í vinnu.”

 

Ábyrgðin er okkar. Við hneykslumst um stund en erum gleymin þegar kemur að kosningum. Það getur orðið okkur til falls, stefnt sjálfstæði okkar í hættu eða gert okkur að eignalausum leiguliðum í eigin landi. Ábyrgðin er okkar.

 

Baldur Ágústsson

Höf. er fv. forstj. og frambjóðandi í forsetakosningum 2004